Færsluflokkur: Bloggar

eyjan

er farin að blogga á Eyjunni: blog.eyjan.is/svandis

Öfgafeminismi, öfgafólk og annað í þeim dúr.

Orðið á götunni í dag eru öfgar. Öfga þetta og öfga hitt. Við fyrstu sýn virðist sem fólk hafi notkun þess nokkuð á hreinu, að mörkin á milli öfga og hófsemi séu skýr. Þegar nánar er að gáð kemur þó annað í ljós. Í orðræðu götunnar virðist sem fólk noti orðið til að lýsa almennt öllu því sem það hefur andúð á eða stríðir gegn þeirra eigin persónulegu skoðunum. Í staðinn fyrir að segja, þú ert fáviti, er sagt, þú ert öfgadeli.  

Ég gerði fimm mínútna tilraun til að greina þessa orðræðu á netinu með því að slá orðin öfgar eða öfga inn í google og skoða niðurstöðurnar.  Það ætti væntanlega ekki að koma neinum á óvart að öfgafemínismi var algengasta öfga-orðið. Grípum niður í nokkrar tilvísanir sem komu upp:

"Dæmigerður öfgafemínismi felst í að flokka Jakob Bjarnar Grétarsson og Þráin Bertelsson sem “karla sem hata konur”.

"Óvá hvað öfgafeministar geta farið í mig. Það er alveg ótrúlegt að þessar gribbur skuli koma fram fyrir hönd feminista."

"VG er að breytast í forsjárhyggju feministaflokk þar sem saman koma hófsamir feministar og öfga feministar sem sjá ekkert nema karlmenn að ..[gera eitthvað ljótt]"

"Öfga-femínismi er skelfilegur og skaðlegur."

Í þessum færslum er hvergi vísað í hvað þessi öfgafemínismi er og hvað greini hann frá annars konar femínisma. (Í raun væri ekki óeðlilegt að álykta sem svo að allur femínismi falli í flokkinn öfgafemínismi). Femínistar mega ekki segja opinberlega "karlar sem hata konur" án þess að vera gagnrýndar og brennimerktar sem öfgafemínistar. Við þessa gagnrýni verða femínistar sárir og réttlæta "öfgarnar" með því að segja að öfgar feðraveldisins kalli á öfgar kvenna.

Femínistar eru þó ekki hörundsárari en svo að þær reiðast því þegar Eva Hauksdóttir nefnir einn pistla sinna "konur sem kúga karla." Þá rísa nokkrir "öfgafemínistar" upp og benda fingri á Evu, sem er þá væntanlega einhvers konar öfgakona líka. Þessir femínistar brugðust alveg jafn harkalega við pistli Evu og "karlrembur" brugðust við svarta lista Hildar Lilliendahl.

Þeir sem helst gagnrýna femínista fyrir öfgar virðast, í (afar) fljótu bragði, vera hægri sinnaðir karlar (með fyrirvara um mína óvísindalegu rannsóknaraðferð). Þeir kunna illa við þessar öfgar í femínistum og hafa áhyggjur af áhrifum femínista á samfélagsþróun og segja jafnvel að,, öfgafemínistar ráðist á grunnstoðir samfélagsins." 

Þó eru hægri sinnaðir einstaklingar ekki lausir við gagnrýni sjálfir, þá sérstaklega ekki þeir sem kenndir eru við frjálshyggju. Þeir eru víst líka öfgasinnaðir eins og eftirfarandi tilvísanir bera með sér (og koma mest frá fólki sem kennir sig við vinstri eða miðjuvæng stjórnamálanna):

"Öfgafrjálshyggja skaðar þjóðarhag þar sem þeim skilgreindu fátæku fjölgar vegna..."

"Tileinkaðu þér siðspillta öfgafrjálshyggju strax; traðkaðu, troddu og ýttu þar til þú kemst á toppinn."

Líkt og femínistar, sárnar frjálshyggjumönnum þessi gagnrýni og segja að ,,frjálshyggjan hafni græðginni...menn myndu sjá það ef hún fengi að virka rétt" og einnig að ,, frjálshyggjan sé hvorki góð né slæm heldur hafi góð áhrif á mannlegt eðli." Til varnar frjálshyggjunni og/eða markaðshyggjunni gagnrýna frjálshyggjumenn vinstrisinna harðlega:

"Ég trúi því ekki að íslenska þjóðin sé orðin svo snarvitlaus að hún kjósi yfir sig öfga vinstri menn en hvað veit maður."

"Það er nú svo að hin endalausa forsjárhyggja stjórnvalda gagnvart hinum almenna borgara gengur oftast út í öfgar."

Evrópusinnar og Evrópuandstæðingar kalla einnig hver annan öfgakenndan á víxl. Sumir Evrópusinnar segja svo um Evrópuandstæðingana:

"Forsetaræfillinn hefur haft það fyrir sið að stórskaða þjóðarhag með orðagjálfri ... að hafa sett síðasta Icesave samning í þjóðaratkvæði enda ljóst að Nei-ið sem öfgaþjóðernissinnar náðu að ljúga inn á þjóðina hefur stórskaðað okkur..."

"Heimssýnar armurinn. Innan samfylkingarinnar er hægri og vinstri fólk. VG er svona ruslakista fyrir öfgamenn. Öfgavinstri, öfgafeministar, öfgaþjóðernissinnar."

Evrópuandstæðingar gjalda líku líkt og kalla Evrópusinna öllum illum nöfnum. T.d. segja þeir:

"Ég hélt sjálf að það væri kannski bara vegna þess að þarna birtust viðhorf öfga-evrópusinna sem þyrfti ekki að ræða."

"Samfylkingin er flokkur öfgasinnaðra evrópusinna sem er tilbúinn að leggja lýðveldið undir og henda til hliðar öllum hagsmunum Íslands..."

Einmitt það.  

Þetta er allt óskaplega athyglisvert. Evrópusinnar eiga ekki til orð yfir öfgunum í Evrópuandstæðingum. Evrópuandstæðingar botna hvorki upp né niður í þessari öfgakenndu trú Evrópusinna á Evrópusamstarfið. Femínistar skilja ekki öfgakennda afstöðu Evu Hauksdóttur eða öfgana sem eru fólgnir í þeirri afstöðu að konur geti tekið skynsamar ákvarðanir um það hvernig þær nota eigin líkama. Hildur Lilliendahl má ekki segja "Karlar sem hata konur," þó svo að það sé klárt mál að sumir karlar hata konur. Eva Hauksdóttir má ekki segja "Konur sem kúga karla" þó svo það eigi eflaust við einhverjar konur.

Frjálshyggjumenn (og einnig margir hægri menn) hrista höfuðið yfir öfgaforsjárhyggju vinstri manna sem vilja hvorki virkja náttúruna né minnka skatta. Vinsri menn líkja frjálshyggjumönnum við öfgakennda glæpamenn sem gefa banka og kasta frá sér íslenskri náttúru á altari græðginnar.  Öfgar, eintómar öfgar. 

Svo eru aðrir sem eru hvorki né, en eru samt alveg jafn öfgakenndir, a.m.k. af internetinu að dæma. Þannig segir einn ,, nasismi er þar sem öfgahægri og öfgavinstri mætast í hringnum," á meðan annar segir: ,, ég sé lítinn mun á kúk og skít þ.e. öfga hægri og öfga vinstri, bæði jafn slæmt. Þó ekki sé hægt að bera upp á þessa einstaklinga einhverja öfgakennda hugmyndafræðilega afstöðu er málfar þeirra þó einkar öfgakennt. Að mínu mati.

En hvað má ráða af þessu? Erum við öll öfgakennd? Eða tökum við bara svona til orða? Er þetta dramatík? Eða stælar? Hvað er þá að vera ekki öfgakenndur? Eru það manneskjur sem humma og segja jæja? Líta spekingslega til Esjunnar og segja ,,allt er í heiminum hverfult" og "slakaðu nú á manneskja mín"?  

Fyrir mitt leyti ber þessi orðanotkun merki um hræsni og skort á umburðarlyndi. Þú snöggreiðist yfir pistlaheitinu "Karlar sem hata konur" og skrifar annan sem heitir "Tussur og tæfur," eða "Brussulegir karlahatarar." Þér sárnar að einhver telji þig búa í draumaheimi Evrópuástar og líkir þér við einfeldning, að þú sjáir ekki að staðreyndir tali sínu máli. Í sárabætur uppnefnir þú hinn sama og segir: þegi þú, öfgakenndi þjóðernissinni, þú Bjartur í Sumarhúsum sem ert ekkert nema heimskulegt stoltið.

Orðatiltækið ,, það er margt í mörgu" á hér alveg einstaklega vel við (þó döll sé). Það eru ágætar röksemdir með og á móti Evrópusambandsaðild. Það eru margar vísbendingar um það að (sumir) karlar hata konur. En það eru einnig til tilvik þar sem (sumar) konur kúga karla.  Að sama skapi er frjálshyggjan á margan hátt falleg hugmyndafræði sem trúir á frelsi manneskjunnar. Félagshyggjan ber einnig hag mannsins fyrir brjósti og telur að ríkisvaldið þurfi að hefta frelsi einstaklinga upp að ákveðnu marki til að vernda meðbræður þeirra. Það er ekkert öfgakennt við þessar hugmyndir. Það eina sem er öfgakennt er hegðun þeirra sem boða hugmyndir sínar sem hinn eilífa sannleik og ráðast gegn persónum þeirra sem trúa á eitthvað annað.

Í guðs friði,

SNJ


 


Forsætisráðherrar, hæstaréttardómar og pólitíkin: tvískinnungur á tvískinnung ofan

Það er ekki laust við að ég kímdi þegar ég las leiðara Morgunblaðsins mánudaginn 20.febrúar síðastliðinn, með yfirskriftinni "Hæstaréttardómar hafðir að engu." Í leiðaranum segir að "forystumenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa bæði hafnað því að í hæstaréttardómi í liðinni viku um lög um gengislán, sem þau og aðrir stjórnarliðar settu, hafi stjórnarskráin verið brotin." Að sögn leiðarahöfundar er þetta ekki í fyrsta sinn sem "ríkisstjórnin gefur ekkert fyrir hæstaréttardóm." Nema síður sé. "Hún [ríkisstjórnin] lét stjórnlagaþing til dæmis taka til starfa þvert ofan í hæstaréttardóm", heldur höfundur áfram, "og lét nafnbreytingu duga til að sniðganga dóminn." Eftir þessar vangaveltur veltir gáttaður leiðarahöfundur þeirri spurningu upp hvernig standi nú á þessum dónaskap ríkisstjórnarinnar. Hann segir: "Hvernig skyldi standa á því að ríkisstjórnin leyfir sér að hafa hæstarréttardóma að engu og neitar að þeir segi það sem augljóst er?"

Þarna skellti ég upp úr. Ástæða hlátursrokunnar er að finna í mögnuðum deilum um Öryrkjadóminn svokallaða árið 2001, en þar dæmdi Hæstaréttur lög frá Alþingi í ósamræmi við stjórnarskrá.  Þáverandi ríkisstjórn (undir forystu Davíðs Oddssonar) tók þennan dóm afar óstinnt upp og kallaði Davíð Oddsson þessa dómsniðurstöðu algert "slys" eins og kunnugt er. Í kjölfarið af því urðu bréfaskriftir á milli þáverandi forseta Alþingis, Halldórs Blöndal (ef mig minnir rétt) og þáverandi forseta Hæstaréttar, Garðars Gíslasonar, þar sem forsætisnefnd krafðist skýringa á dómnum. Þessar bréfaskriftir þóttu í hæsta máta óeðlilegar og var mikið deilt um þær, bæði innan þings og utan. 

Hmm. Það sem ég gjöri yður, munið þér mér gjöra (seinna).

En kómíkin endar ekki hér gott fólk. Ónei. Tvískinnungurinn einskorðast ekki við Sjálfstæðisflokkinn, nema síður sé. Á sama tíma og ríkisstjórn Davíðs Oddsonar skammaðist út í Hæstarétt vegna Öryrkjadómsins 2001, voru gagnrýnisraddir stjórnarandstöðunnar háar. T.a.m. rasskellti Jóhanna Sigurðardóttir Davíð Oddsson og aðra stjórnarliða með þessum orðum: ,,það hlýtur að vera áhyggjuefni að þegar dómur fellur stjórnvöldum í óhag segir forsætisráðherra hann pólitískan og líkir honum við slys."

Það var nefnilega það. Jóhanna heldur svo áfram og segir:

 "Í geðvonskukastinu yfir dómsniðurstöðunni er síðan skipuð nefnd lögfræðinga til að túlka dóminn...og sveigja hann og beygja að vilja forsætisráðherra, sem skammtar fólki mannréttindi eftir eigin geðþótta...Það er með ólíkindum hvað ríkisstjórnin leggst lágt við að skammta öryrkjum eins lítil réttindi og þeir mögulega komast af með á sama tíma og hún greiðir götu nokkur hundruð forríkra kvóta- og fjármagnseigenda með 20 milljarða skattaívilnun á sl. 2 árum." (Sjáið þið samlíkinguna við núverandi ástand? Fjármagnseigendur eru enn að græða á meðan almenningur tapar, þrátt fyrir nýja tíma og nýja ríkisstjórn. En þetta er útúrdúr. Áfram með smjörið).  

Stjórnarandstaðan öll tók undir orð Jóhönnu á sínum tíma og gagnrýndi viðbrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. T.a.m. sagði Össur Skarphéðinsson ,,að Hæstiréttur hefði nú...kveðið upp dóm sem staðfesti að ríkisstjórnin hefði brotið stjórnarskrá gagnvart öryrkjum...að það hljóti að vera þungur baggi fyrir ríkisstjórnina að bera." Steingrímur J. Sigfússon sagði svo að ,,ósvífni forsætisráðherra yrði seint jöfnuð. Hér kæmi ríkisstjórnin með stjórnarskrábrotin á bakinu...og spurði hversu mörg stjórnarskrárbrot ríkisstjórnin þyrfti að hafa á bakinu til að láta sér segjast?"

Þessi pistill sýnir svo að ekki sé um villst að pólitískur tvískinnungur fer ekki í manngreinarálit. Og er ekki heldur bundinn ákveðnum stjórnmálaflokkum. Ég lýk þessum pistli með orðum Lúðvíks G. Bergvinssonar (2001) en í þeim kristallast efni þessa pistils:

"Þegar niðurstaða Hæstaréttar samrýmist ekki vilja ríkisstjórna almennt, eru viðbrögðin oftar en ekki þannig að dómarnir, og jafnvel Hæstiréttur sjálfur, er véfengdur."

Ég segi því, guð blessi Ísland. Úff og púff.

SNJ


Baráttan um líkama konunnar

Skrif mín að undanförnu um píkurakstur hafa vakið athygli á vefmiðlum, bæði jákvæða og neikvæða. Í þeirri umræðu er deilt um margt en þó mest um tengingu píkuraksturs við klámvæðingu (þ.á.m. barnaklám). Þessi málaflokkur er þó hluti af langtum stærra samhengi sem ég mun tíunda hér, samhengi sem hefur kristallast í harðvítugri baráttu um líkama konunnar.

Konan var auðvitað lengi vel (jafnvel alltaf?) eign karlmannsins. Og eign Húshaldsins ehf. Með ýmsum lagalegum breytingum og þrýstingi frá femínistum og frelsisleitandi hugsjónafólki (sem t.d. krafðist aukinna lýðræðislegra réttinda endur fyrir löngu) minnkuðu fjötrar konunnar eftir því sem leið á 20. öldina. Þessar breytingar komu þó ekki til átakalaust og eru eflaust margir þeirrar skoðunar í dag að konan sé ennþá ófrjálsari en karlinn.

Þó líkaminn sé mestmegnis eign konunnar í orði, er hann það ekki á borði. Þessu til staðfestingar nægir að rýna í söguna. Á háskólaárum mínum skrifaði ég BA ritgerð um pólitíkina í kringum fóstureyðingarmálið svokallaða, sem er ansi hreint áhugaverð saga.

Árið 1973 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra, Magnús Kjartansson, fram frumvarp á þingi um fóstureyðingar (ásamt ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir) sem vakti gríðarlegar deilur innan þings og utan. Megin inntak frumvarpsins var fólgið í tvennu: 1) að heimila fóstureyðingar vegna bágrar félagslegrar stöðu móður og 2) að konan sjálf hefði ákvörðunarvaldið í þeim efnum en ekki óháðir sérfræðingar (þ.e. aðgerð veitt að ósk konu).

Þessi rótttæka breytingartillaga í annars íhaldssömum málaflokki gerði allt vitlaust í landinu. Í bókstaflegri merkingu. Deilurnar um efni frumvarpsins á þingi stóðu yfir í hvorki meira né minna en tvö ár. Þinginu bárust ógrynnin öll af bréfum frá einstaklingum sem og hagsmunasamtökum og félögum, sem ýmist studdu efni frumvarpsins eða andmæltu því.

Það sem er þó athyglisverðast við þessar deilur er að þær stóðu ekki nema að littlu leyti um siðferðilegar forsendur fóstureyðinga, þ.e. hvort fóstureyðingar væru yfirhöfuð réttlætanlegar. Flestir virtust átta sig á því að félagslegar aðstæður barnshafandi konu geta verið alveg jafn hamlandi heppilegu barnauppeldi og líkamlegur sjúkleiki. Það sem helst var deilt um var það að ákvörðunarrétturinn yrði í höndum konunnar sjálfrar en ekki lækna og/eða annarra sérfræðinga.

Fólki blöskraði einfaldlega sú hugmynd að barnshafandi kona gæti tekið þá ákvörðun, ein og óstudd, að fara í fóstureyðingu. Spurt var, hvernig á kona að geta metið það hvort félagslegar aðstæður hennar sjálfrar réttlæti fóstureyðingu eður ei? Þarf ekki fagaðila til þess? Vissi þingheimur ekki að um háalvarlegan hlut var að ræða?  Alvarlegri en svo að konur geti átta sig á? Sumir þingmanna lýstu því meira að segja yfir að án verulegra hindrana til fóstureyðinga myndu konur flykkjast unnvörpum í fóstureyðingu og standa bísperrtar í biðröðum eftir aðgerðinni. Íslendingum myndi þ.a.l. fækka umtalsvert og skálmöld og hórdómur tæki við.

Í ritgerðarskrifum mínum rak ég augun í aðra sambærilega umræðu sem átti sér stað 40 árum áður. Í byrjun fjórða áratugs síðustu aldar var lagt fram frumvarp fyrir alþingi þess efnis að læknar fengju heimild til þess að fræða konur um getnaðarvarnir og láta þeim þær í té ef þær óskuðu svo. Um þetta risu miklar deilur. Menn áttu ekki til orð yfir frjálslyndi þessara hugmynda. Skildi fólk ekki að ef konur fengju getnaðarvarnir í eigin hendur myndu engin börn fæðast? Og að fjöllyndi og önnur óværa myndi leggja samfélagið í rúst? (Kunnuglegt ekki satt?). Í þessum hugmyndum kristallaðist feðraveldið í allri sinni dýrð. Sú hugsun að konan sjái ekki fótum sínum forráð, að hún viti ekki hvað henni er fyrir bestu, er kjarninn í þessari karllægu afstöðu ásamt gömlum hugmyndum um erfðasyndina. Konan er ekki bara vitlaus heldur er stutt í hórueðli hennar og þá kvenlægu tilhneigingu til þess að siðspilla umhverfi sínu. Sem betur fer réðust femínistar (þá kvenréttindakonur) á þessa hugmyndafræði og sendu mörg erindi til alþingis þess efnis. Það gerðu þær einnig nokkrum áratugum seinna þegar umræðan um fóstureyðingar kom fram.  Enda hefur hlutverk femínista ætíð verið það að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt og frelsi konunnar.

Vegna þessa er ég eilítið hvumsa yfir umræðunum að undanförnu um staðgöngumæðrun. Þar koma fram hugmyndir sem bera skuggalega mikinn keim af liðnum tíma þegar átökin um frelsi kvenna til fóstureyðinga og notkunar á getnaðarvörnum stóð sem hæst. Einhver þarf að hafa vit fyrir konum og gæta þess að þær fari sér ekki að voða og/eða kalli meiri hörmungar yfir sjálfar sig og aðra.

Sá athyglisverði munur er þó á þessum umræðum og þeim fyrri að nú eru femínistar helst í hópi þeirra sem vilja setja lög um líkama kvenna, þ.e. gegn staðgöngumæðrun. Sem er á margan hátt skiljanlegt. Í fyrsta lagi er um að ræða afar flókið málefni, sem krefst þess auðvitað að löggjafinn fari sér hægt og taki mið af öllum hagsmunum sem þar koma við sögu, og í öðru lagi er það nýtt. Þ.e.a.s. ekki hefur í sjálfu sér reynt á þetta hérlendis ef frá er talið þetta undarlega mál á dögunum sem tengdist íslensku hjónunum og indversku staðgöngumóðurinni. (Leiðréttið mig endilega ef dæmin eru fleiri).

En hvað sem þessum vangaveltum líður, og sama hversu flókið staðgöngumæðramálefnið er, þá eru röksemdirnar gegn staðgöngumæðrun merkilega líkar eldri hugmyndum um konuna. Þ.e.a.s. ef frá eru taldar  hugmyndir um erfðasyndina og siðspillandi áhrif frjálsra kvenna (enginn femínisti undir sólinni myndi halda því fram að aukið frelsi kvenna myndi kalla siðspillingu yfir samfélagið). Enn er því haldið fram að konur kunni ekki fótum sínum forráð, að kerfið þurfi á einhvern hátt að vernda konur gegn illum öflum sem vilja misnota þær. Að konur geti ekki verndað sig sjálfar. Í hvert sinn sem ég heyri setningu á borð við þá að "konur verði notaðar sem útungunarvélar" fer um mig hrollur. Hrollur vegna þess að ekki er gert ráð fyrir því að konur hafi styrk til að verja sig sjálfar gegn slíkri misnotkun.

Ég spyr því: geta konur ekki sjálfar varið sínar persónur og sína líkama? Veit kerfið betur en einstök kona hvað hentar henni best, líkt og menn héldu fram þegar frelsi kvenna til fóstureyðinga var rætt? Og það sem meira er, vita konur almennt hvað einstaka konu er fyrir bestu?

Í þessu ljósi er oft vísað í aðstöðumun kvenna. Sumar konur eru í betri aðstöðu en aðrar til þess að verja sig og sína. Sem meikar auðvitað sens, svona fljótt á litið. Fátækt og vanþekking styrkir sjaldan einstaklinginn, nema síður sé. En af hverju ætti það að vera skaðvænlegra fyrir fátæka konu en þá efnameiri að ganga með barn fyrir aðra? Ég persónulega myndi aldrei kæra mig um að bera barn annarrar konu undir belti nema konan sú væri annað hvort nákomin mér (og ætti ekki annarra kosta völ) eða ég fengi fúlgur fjár fyrir.

Samt er ég kona í forréttindahópi, vel menntuð og í góðu starfi. Enda hefur það sýnt sig að brjóstvit og almenn skynsemi helst ekki endilega í hendur við prófgráður og peninga. En það er önnur pæling.

Over and out...í bili


Heimalagaðar kartöfluskífur með aioli

Svona til þess að sýna fram á að mér sé ýmislegt annað til lista lagt en raka viðkvæma líkamshluta þá langaði mig til að deila með ykkur þessari þvílíku dásamlegu gúrme uppskrift af heimalöguðum  kartöfluflögum og hvítlauksaioli (hvítlauksmajónes). Ég er nánast í tárum þetta er svo gott. En hérna koma herlegheitin.  

Aioli er besta sósa sem hægt er að hugsa sér undir sólinni. Sérstaklega með frönskum og ísköldum bjór. Settu 2 stórar eggjarauður, 1 tsk pressaðan hvítlauk, 1/4 tsk borðsalt, nýmalaðan pipar og 1 msk nýkreistan sítrónusafa í matvinnsluvél eða blandara og þeyttu saman í nokkrar sekúndur. Síðan er 3/4 bolla af góðri olífuolíu hellt saman við smám saman. Best er að hafa olíuna í lítilli könnu með stút eða einhverju slíku til að auðvelda ísetninguna. Voilá!  Markmiðið hér er að hella olíunni í hægum en stöðugum straumi út í eggjarauðublönduna. Þetta ferli tekur þó örskotsstund, eða um það bil 2-3 mínútur frá upphafi til enda. Svo er öllum að sjálfsögðu frjálst að bæta smátt söxuðu basil eða öðru kryddi útí en sósan er líka stórkostleg eins og hún er.  

Skrældu nokkrar meðalstórar kartöflur og skerðu í örþunnar sneiðar með ostaskera. Legðu skornar sneiðarnar í kalt vatn á meðan þú klárar að skræla kartöflurnar. Settu olíu í pott (magn er smekksatriði en ég miða við að hún nái nokkra sentimetra upp barmana) og hitaðu við meðalhita þar til olían fer að snarka. Sigtaðu vatnið frá kartöflunum og settu þær í heita olíuna í skömmtum. Nauðsynlegt er að standa við pottinn með vakandi auga svo kartöflurnar brenni ekki. Tilbúnar flögurnar eru svo settar á eldhúspappír og saltaðar með grófu salti eða kartöflukryddi. Best er að bíða með að snæða þær í nokkrar mínútur en biðlundin veltur þó á græðgi.

Svo skaltu dýfa flögunum í aioli sósuna og finna hamingjuna streyma um líkamann. Bon appetit!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Að raka hár af kynfærum

Þar sem ég stóð í sturtunni í morgun og mundaði hársköfuna flaug í huga mér hversu lítilfjörlegur þessi atburður er. Kona (eða karl) tekur sér annars hugar hársköfu í hendi og rakar af sér líkamshár í flýti á meðan hú veltir því fyrir sér hvort hún eigi að hafa kjúkling eða fisk í kvöldmatinn. Eða reynir að rifja upp hvort einhver mikilvægur fundur sé á dagskrá í morgunsárið. Hárin fljúga síðan af og konan heldur áfram morgunverkum sínum.

Þessi óspennandi, nokkurra mínútna snyrting er nú til mikillar umfjöllunar í miðlum landsins, þá sérstaklega rakstur kynfærahára kvenna. Ekki hef ég rekist á umræðu um kynfærarakstur karla en það er eðlilegt því karlar mega allt og því skiptir ekki máli hvort þeir raki sig eður ei. Ég hef heldur ekki heyrt talað um rakstur í handarkrika né mikla umræðu um rakstur fótleggja. Aðalmálið eru kynfæri kvenna. Píkan. Eins og alltaf. Þessi blessaði líkamshluti virðist alltaf vera upphaf og endir alls. Og er af þeim sökum aldrei einkamál konunnar sem einstaklings. Í gegnum aldirnar hafa fylkingar í samfélaginu rifist og slegist um eðli og hlutverk vagínunnar eins og hún sé ekki eign þeirrar konu sem hana ber.

Femínistar segja að píkurakstur sé óhollur og tengist samfélagslegum vandamálum og ljótleika á borð við barnaklám og klámvæðingu almennt. Að raksturinn sé hluti af hugmyndafræði karlaveldisins og sé þannig leið til þess að brennimerkja konuna sem kyntákn og barn. Einnig er vísað til þess að rakstur kynfæra sé óeðlilegur, að hárin hafi t.a.m. þann tilgang að verja konuna gegn sýkingum. Femínistar eru því mótfallnar þessum hárfjarlægingum og segja í raun að það sé samfélagsleg ábyrgð okkar að draga úr þeim.

Þessi afstaða hefur svo sannarlega verið gagnrýnd (stundum á óvæginn hátt). Sumir eru málefnalegri en aðrir og segja að afstaða femínista einkennist af forræðishyggju og fordómum á meðan harðari andstæðingar tala um brjálað ofstæði og öfgar. Að það megi ekkert gera. Að allt eigi að vera bannað. Að femínistar séu snargeðveikir og algjörlega kreisí (sem er auðvitað bara blammering en ekki málefnaleg gagnrýni).

Svo eru nokkrir raunsæismenn inn á milli sem vísa í orð ýmissa lækna sem hafa haldið því fram að sýkingarhættan sem stafi af kynfærarakstri sé lífsseig mýta sem á við fá rök að styðjast. Í því sambandi má t.d. nefna einn kvenkyns lækni sem segir að líkamshár geti líka verið gróðrarstía fyrir alls kyns sýkla og aðra óværu. Sem að mínu mati meikar sens, eins og sagt er á góðri íslensku.

Ég er sjálf hins vegar alveg bit á þessari umræðu. Og finnst hún engu máli skipta. Mín píka er ekki eign samfélagsins. Hún er mín eign og á minni ábyrgð. Öðrum kemur það ekkert við hvað ég geri við hana. Nákvæmlega ekki neitt.

Ég sem kona er þreytt á því að samfélagið hafi ætíð skoðun á mínum kynfærum eða hvernig ég fer með minn líkama. Ég vil fá að ráða mér sjálf, svo langt sem það nær. Auðvitað veit ég að hegðun mín er ekki algjörlega einstaklingsbundin, heldur einnig mótuð af samfélaginu. Eins og allir einstaklingar. Það sem stingur mig hins vegar í hjartastað er að samfélagið er uppteknara við að stýra konum en karlmönnum. Og þá jafnvel lítilfjörlegum atburðum eins og þeim að raka af sér líkamshárin. Femínistar eru þarna engin undantekning.

Ég skelli því skollaeyrum við þessari umræðu og vangaveltu. Mér er nákvæmlega sama hvað ykkur finnst. Ég á mig sjálf, ég ræð mér sjálf og sýni þeim fingurinn sem reyna að stýra líkamssnyrtingu minni. Vegna þess að ég þori, ég get og vil.


Yfirstærð og anorexía mætast í myndatöku: really?

þessi grein hér http://www.mbl.is/smartland/tiska/2012/01/12/yfirstaerd_og_anorexia_maetast_i_nektarmyndatoku/ hefur fengið gríðarlega mörg "læk" að undanförnu á fésbókinni. Og mörg húrrahróp. Sérstaklega vegna þess að granna konan þykir líta út eins og krakkavesalingur á meðan bústnari konan er talin öðrum (mjóum) konum fegurri.

Ég er hins vegar algjörlega bit á þessum lækum og þessari umræðu. Er það virkilega talið eðlilegt í okkar samfélagi að stilla upp líkömum tveggja einstaklinga og metast um það hvor sé fallegri eða eðlilegri? Hvor sé fullorðinslegri eða barnslegri? Hugsum okkur sem svo að borðunum sé snúið. Í stað þessa birtist nú umfjöllun á Mbl.is um konu í mikilli yfirþyngd sem er með grannvaxna og heilbrigða konu í fanginu. Undir myndinni stæði fyrirsögnin: Feitabolla og kona í kjörþyngd. Ímyndum okkur síðan að fólk læki þessa sem aldrei fyrr og deildi með athugasemdum á borð við ,,ja hérna hér, þetta er nú meiri fitubollan. Þessi mjóa er miklu sætari." Eða þá ,, vá hvað ég er heppin að vera ekki svona feit og ljót. Hjúkkit." Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig fólki í yfirvigt liði í slíkri umræðu.

Auðvitað er það hræðilegt að konur svelti sig. Og að sjálfsögðu er þessi útlitsdýrkun komin út í fáránlegar öfgar. Og það fyrir löngu síðan. En leið þessa samfélags til velfarnaðar er svo sannarlega ekki fólgin í því að hía á mjóar konur og segja þær barnslegar og ljótar. Leiðin út úr ógöngunum sem áherslan á líkamsmynd kvenna hefur leitt okkur í, er svo sannarlega ekki sú að finna ný fórnarlömb til að hía á.

Getið þið ímyndað ykkur hvernig konum sem þjást af lystarstoli eða konum sem eru almennt mjög grannar líður þegar fésbókin og samfélagið allt bendir á þær fingri? Sennilega ekki mjög vel. Hæðni er og verður aldrei leið til sjálfshjálpar. Og það er staðreynd.

Reynum frekar að leggja niður þennan ósið að ræða stöðugt líkamsmynd fólk. Líkamar eru mál þeirra sem búa í þeim, ekki okkar hinna.


Eru geðsjúkdómar þvæla? Og ofvirkni afsökun?

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að ræða um geðsjúkdóma, taugaþroskaraskanir (ADHD, Asperger, einhverfa) , lesblindu og annað slíkt. Umræða um greiningar og greiningaræði nútímans hefur verið mjög ráðandi undanfarin 10 ár, og jafnvel lengur. Fólk er bara orðið að aumingjum, hefur ekkert úthald, fær bara einhverja handhæga greiningu á ástandi sínu og litlar, fallegar töflur til inntöku. Þetta er mikil afturför frá því sem var, segir
fólk. Þá voru Íslendingar hraustir og unnu sína vinnu möglunarlaust. Enginn
þurfti á greiningu að halda og enginn skældi ofan í pilluglasið.

Margir kenna foreldrum um (fólk kann ekki lengur að aga
börnin sín) en aðrir kenna læknunum um. Læknar eru greiningaóðir og útbýta
röskunum til almennings eins og jólasveinar, ásamt viðeigandi lyfseðli. En
aðrir segja að samfélaginu öllu sé um að kenna. Við höfum ekkert umburðarlyndi
lengur og viljum helst að allir séu steyptir í sama mót. Fólk fær ekki að vera
eins og það kemur af kúnni. Nú viljum við lækna alla sem eru „öðruvísi" með
lyfjum og atferlismeðferð.

Einmitt það.

Þar sem ég er efasemdarmanneskja um guð og menn þá hef ég
lengi efast um algengi taugaþroskaraskana. En á sama tíma hef ég líka efast um
forsendur gagnrýnisraddanna sem eru tíundaðar hér að ofan. Er ekki ólíklegt að
læknar séu massíft að greina fólk og byrla því eitur svona af því bara? Þó
opinberar tölur segi okkur að Ísland vermi eitt af vinningssætunum í notkun
lyfja gegn þunglyndi og taugaþroskaröskun er ekki þar með sagt að eitthvað foul
play sé í gangi. Nema síður sé. Ef betur er að gáð sýna opinberar tölur einnig
að notkun annarra lyfja hefur stóraukist á sama tíma, t.a.m. notkun krabbameinslyfja,
verkjalyfja og bólgueyðandi lyfja.  Hið sama má segja um náttúrulækningalyf og fæðubótarefni, s.s. vítamín. En þetta eru engar nýjar fréttir. Í Morgunblaðinu birtist frétt árið 2002 um að„heildarsala
á krabbabeinslyfjum hafi fjórfaldast á fimm ára tímabili" (1996-2001). Í
kjölfarið fylgdu fleiri fréttir og umfjallanir um þetta mál. Á sama hátt er sagt
frá því í Morgunblaðinu í nóvember 2011 að notkun verkjalyfja hafi aukist um
40% frá árinu 2003. Slíkt hið sama má segja um blóðþrýstingslækkandi lyf.

Þetta vekur óneitanlega upp áleitna spurningu:  Ef sú fullyrðing að stóraukin notkun geðlyfja
og lyfja við taugaþroskaröskununum sé tilbúningur lækna og/eða samfélagsins
alls,  ætti slíkt hið sama þá ekki að gilda um greiningar á öðrum sjúkdómum og lyfjanotkun við þeim?  Eða takmarkast greiningasvindlið við geðsjúkdóma
og taugaþroskaraskanir eingöngu?  Eða erum við viðkvæmari gagnvart geðsjúkdómum og atferlisröskunum en krabbameini og blóðsjúkdómum?

Kona spyr sig.

Og þá vaknar önnur áleitin spurning.  Af hverju bregðumst við harkalegar við aukinni
notkun geðlyfja en aukinni notkun krabbameinslyfja? Af hverju þessi viðkvæmni?
Getur það verið (og nú stíg ég varlega til jarðar) að samfélag mannanna hafi
ætíð viljað fela þessar skammarlegu raskanir og streitist á móti tilraunum til
þess að draga þær fram í dagsljósið?

Kona spyr sig (aftur).

Nú væri þægilegt að geta flett upp í ritröðinni um sögu
sjúkdóma á Íslandi. Ef slík söguritun væri til. Þar gætum við séð svart á hvítu
hvort þunglyndi eða ofvirkni með athyglisbresti væri tískuveiki eða same old,
same old. Það er að segja ef maður treysti slíkri söguskoðun. Þess í stað
verðum við að fletta upp í skráðum munnmælasögum og lesa í gegnum línurnar um „skrýtna"
fólkið. Hver man ekki eftir gömlum manni sem þótti skrýtinn vegna þess að hann
þagði alltaf (þunglyndur?) eða virtist alltaf móðga alla í kringum sig án þess
að ætla sér það? (Asperger heilkenni?). Eða drengnum í næsta húsi sem gat
aldrei setið kyrr (ofvirkni?). Er ekki Emil í Kattholti dæmigerður ofvirkur
drengur?

Persónulega held ég að þessar raskanir hafi alltaf verið
til. Og séu jafngamlar mannkyninu. En sumar þeirra gætu verið þess eðlis að þær
eru tengdar ákveðnum samfélagslegum aðstæðum. 
Ég ímynda mér, t.d., að ofvirkni hafi verið minni vandi á tímum þegar
börn þurftu ekki að sitja kyrr á skólabekk klukkutímum saman. En það er
auðvitað mitt ófaglega mat. Ég ímynda mér einnig að kvíði sé tengdari nútímanum
en fortíðinni þar sem lífið virðist vera flóknara í dag en áður. En þetta eru
auðvitað bara vangaveltur.

En þetta er bara hálf myndin. Gagnrýnin beinist ekki bara að
greiningunum í sjálfu sér. Fólk deilir líka um meðferðina á þeim, t.a.m. ávísun
lyfja.  Segjum svo að við viðurkennum þessar atferlisraskanir og lítum þær sömu augum og aðra sjúkdóma.  Er þá óþarfi að ávísa lyf til að deyfa einkennin
sem fylgja þeim? Snýst þetta kannski bara um það að við þurfum að sýna fólki
meira umburðarlyndi? Og  mun það draga úr
eftirspurninni eftir lyfjagjöf og slíku inngripi?

Tja, ég veit það hreinlega ekki. Þó aukið umburðarlyndi sé
eftirsóknarvert markmið í sjálfu sér þá er ég ekki viss um að líf með atferlisröskun
án lyfja sé heillandi kostur. Ég var t.d. ein af þeim sem predikaði aukið
umburðarlyndi ,,leyfum börnunum að vera eins og þau eru" alveg þar til ég fékk
hóp af klínískt ofvirkum unglingum til mín í kennslu. Það er ljótt að segja frá
því en ég hefði getað snúið sum þeirra úr hálslið. Og þau hefðu væntanlega geta
snúið mig úr hálslið vegna óþolinmæðinnar og pirringsins.

Ef ég horfi til baka og skoða sögu fjölskyldu minnar með
opnum huga, rifja upp sögur af látnum ættingjum og mínar eigin minningar af
þeim sem ég þekkti, birtist mér saga stútfull af geðsjúkdómum og andlegri
vanlíðan.  Mér bregður eiginlega í
brún.  Þó það sé vitað mál í dag að
geðsjúkdómar eru algengir í fjölskyldu minni efa ég að fólk átti sig á umfangi
þeirra. Til að mynda segir sagan að langamma mín í móðurætt hafi ekki farið út
úr húsi í 30 ár. Og þá í bókstaflegri merkingu. Hún bjó í miðbænum og rak
hvorki út nef né litlu tá í 30 ár, eða þar til hún dó. Öllum fannst þetta
skrýtið en við þessu var ekkert að gera. Hún sinnti sínum skyldum að öðru
leyti, sá um heimilið og húsverkin, saumaði og eldaði, og því var ekki fárast
meira yfir þessu. Sonur hennar, afi minn, var svo veikur að honum var best lýst
með orðinu snarkreisí. Hann var algjörlega galinn. Hann eignaðist þrjár dætur
með ömmu minni, sem hann gat ekki sinnt, talaði við sjálfan sig (þ.e.a.s hann
talaði ætíð við tvo aðra menn, einn hvíslaði og hinn var hávær, sem enginn sá
né heyrði til. Þið skiljið hvað ég á við). Hann gat ekkert unnið en var gjarn á
að bjóða okkur systkinunum starf á bóndabæ einum sem hann taldi sig búa á (þó
hann byggi á þeim tíma í einu herbergi hjá okkur í Breiðholtinu).  Hann strauk af geðdeildum í gríð og erg og lokaði sig oft inni í kjallaraíbúð á Leifsgötunni. Þegar móðursystir mín og
dætur hennar fóru með mat til hans urðu þær að leggja hann við dyrnar hjá honum
vegna þess að hann treysti þeim ekki. 
Ein dætra hans, móðir mín elskuleg, hefur alltaf verið fársjúk. En þó
var hún skárri en afi, svona framan af. Hún hélt þó vinnu talsvert lengi, þó
strembið væri, og flutti ekki burt frá börnum sínum og eiginmanni.

Ég vildi óska þess að allt þetta fólk hefði átt kost á lyfjum.
Heilum bílfarmi af lyfjum, ef ég hefði mátt ráða.  En í stað þess var vandanum
eytt og aldrei minnst einu orði á geðsjúkdóma.  Nei nei.  Ég ólst upp við það að eiga stórundarlega
móður án þess að nokkur maður ræddi það við okkur systkinin. Og ef það bar á
góma var viðkvæðið ætíð, hún hefur alltaf verið svona hún mamma þín, og málið var
dautt.

Og ef ég lít nær mér í tíma og renni augum yfir skólafélaga
mína í grunnskóla, kem ég auga á alls kyns raskanir og lesblindu sem engar
lausnir voru við. Margir heltust úr námi og eru sumir enn að ná sér á strik.

Dóttir mín er með athyglisbrest. Við reyndum lyfjalausu
leiðina í mörg ár. Sem gekk ekkert sérstaklega vel. Nú er hún að verða 19 ára
og er nýfarin að taka lyf. Og þvílíkur munur á barninu. Ja hérna hér.   

Í ljósi alls þessa er niðurstaða mín sú að við sem samfélag
viljum hvorki heyra né sjá af geðsjúkdómum og taugaþroskaröskunum. Við getum
sæst við krabbamein og blóðsjúkdóma en fátt annað. Við viljum ekki vita af hinu
og viljum því helst eyða því úr umræðunni. Við erum ekki svona gölluð, þetta er
tilbúningur lækna og móðursjúkra vitleysinga og ekkert annað. Fram fram
fylking. Ó hve glöð er vor æska.

Ef þið þurfið frekara vitnanna við flettið þá upp í Google setningunni
„aukin notkun lyfja." Þá  munuð þið sjá
að þó það sé minnst á önnur lyf en geðlyf og ritalín, eru flettingar á þeim síðarnefndu
langalgengastar.

Lifið heil, með eða án lyfja.


Eiga konur og hommar eitthvað sameiginlegt?

Þetta hefur lengi verið álitamál. Sumir líta svo á að gagnkynhneigðar konur og samkynhneigðir karlar séu ein og sama tegundin. Að einhvers staðar hafi orðið ruglingur í ferlinu. Að rif úr karli hafi í sumum tilvikum ekki breyst í konu heldur nokkurs konar karlkonu. En þessu trúa bara plebbar. 

 Ég get hins vegar sagt ykkur, kæru vinir, að þessi gáta er nú leyst. Bróðir minn kær, homminn í fjölskyldunni, fór í menningarreisu til Köben. Djammaði þar og djúsaði af mikilli lyst. Sagði mér fjálglega frá alveg hreint dásamlegum manni sem hann kynntist þarna úti, á hommabarnum. Svo kúltiveraður og ljúfur. Framkoman ein var svo fáguð að bæði konur og karlar lágu nær örend í gólfinu úr þrá. Sem dæmi um þetta segir bróðir minn að "hann [maðurinn] hafi bara komið óforvarendis aftan að honum, kysst hann á kinnina og farið svo að nudda hann um herðarnar", af riddaramennsku sinni einni saman. Og það alveg óbeðinn. Og þá vissi ég það. Gagnkynhneigðar konur og samkynhneigðir karlmenn eiga fátt sameiginlegt. Svo eitt er víst. Hvernig haldið þið að gagnkynhneigð kona myndi bregðast við sambærilegum tilburðum á Ölstofunni? Ef inn stormaði karlmaður, smellti rembingskossi á kinn og færi beint að nudda á manni axlirnar? Ef ég væri í sérstaklega góðu skapi þá myndi ég láta það nægja að segja honum með (köldu) brosi að hundskast í burtu. Annars myndi ég sennilega bregða fyrir hann fæti, fella hann og kýla hann í síðuna með krepptum hnefanum. 

Ástarkveðja

SNJ


Icesave: þú svartasti sauður í heimi vorum - eigum við að kjósa um þig?

Þrátt fyrir niðurskurð í menntamálum Reykjavíkurborgar og annað óyndi er Icesave ekkert á leiðinni burt. Á borðinu liggur samningur sem starir á okkur eins og svartur þurs. Reykvíkingar rembast við að færa athyglina frá niðurskurði í borginni og yfir í Icesave samninginn sem fer á ógnarhraða í gegnum þingið (öðruvísi mér áður brá).

Almenningur er að taka við sér og fjölgar nú undirskriftum á „Kjósum“ síðunni hratt og vel. Í dag (kl. 07:30) eru undirskriftirnar í kringum 28,000 talsins. Minna heyrist í þeim sem styðja samninginn en samkvæmt orðinu á götunni munu stuðningsmenn þríeflast frá og með deginum í dag. Og þá upphefst baráttan á milli góðs og ills (vei, klassísk íslensk pólitík).

Andstaða almennings við Icesave samninginn virðist í fljótu bragði ennþá vera ærið mikil. Spurningin er bara af hverju?  Að sögn sérfræðinga og gárunga er samningurinn sem nú liggur fyrir langtum betri en fyrirrennari hans, nánast stjarnfræðilega betri. Einnig er samstaða þings orðin grunsamlega sterk enda flýgur samningurinn áfram í gegnum umræður og nefndir. Foringi stjórnarandstöðunnar, Bjarni Ben, kom öllum að óvörum með því að lýsa yfir stuðningi við samninginn, þrátt fyrir sterk öfl í  Sjálfstæðisflokknum sem segja annað. Kona hefði haldið að björninn væri nú unninn, að búið væri að greiða götu nýrra Icesave skuldbindinga íslensku þjóðarinnar.

En óekki. Eins og áður segir fjölgar í hópi þeirra sem skrifa undir áskorun til forseta Íslands um að neita að staðfesta Icesave-samninginn.  Sem var mér hulin ráðgáta þar til í gærmorgun. Þá varð allt í einu ljós í mínu höfði. Eins og svo oft áður tók ég leigubíl í vinnuna. Eins og svo oft áður var bílstjórinn málglaður. Í þetta sinn var þó ekki rætt um veðrið og tilheyrandi jamm og jæja, heldur Icesave. Bísperrtur sat bílstjórinn við stýrið og sagði háróma að það væri algjör svívirða að leyfa þjóðinni ekki að taka ákvörðun um þetta. Hér koma samræðurnar endurskrifaðar eftir minni:

Bílstjóri: jæja ertu búin að skrifa undir?

SNJ: skrifa undir? Undir hvað?

Bílstjóri: kjósum.is

SNJ: af hverju ætti ég að gera það?

Bílstjóri: nú til að fá forsetann til að stöðva þennan Icesave ósóma manneskja mín. Viltu ekki fá að kjósa um þetta?

SNJ (muldrar): tja, ég var eiginlega ekki komin svo langt.

Bílstjóri: hvurslags er þetta. Þú verður að taka við þér manneskja. Þjóðin verður að fá að kjósa um þetta. Menn ætla að keyra frumvarpið í gegnum þingið til þess að koma í veg fyrir að þjóðin hafi eitthvað um þetta mál að segja. HINGAÐ OG EKKI LENGRA.

SNJ (undrandi): upplifir þú mikla ósátt meðal almennings um nýja samninginn? Tekurðu eftir því t.d. í þínu starfi?

Bílstjóri: heldur betur. Ekki meðal ráðuneytisfólksins reyndar (spýtti hann út úr sér) en meðal heiðvirðs venjulegs fólks já. Þar eru allir brjálaðir. Og yfir sit bit.   

SNJ: en af hverju er fólk svona ósátt við samninginn? Er hann ekki langtum betri en síðasti samningur?

Bílstjóri: betri smetri. Hvaða máli skiptir það? Það á að festa þjóðina grandalausa í skuldahelsi, gera okkur að fíflum frammi fyrir guði og mönnum. Þessar svokölluðu skuldir eiga sér enga raunverulega lagastoð, menn eru bara að sleikja bragðvondan rassinn á erlendum þjóðum. 

SNJ: en nú hefur Bjarni Ben kúvent sinni afstöðu í garð þessa samnings. Skiptir það engu máli í þessu sambandi? Hvað þingið hefur náð mikilli innbyrðis samstöðu?

Bílstjóri: nei hvað heldurðu að fólk sé að spá í það? Þetta háæruverðuga lið þarna inni hugsar bara um eigin hagsmuni. Bjarni er bara að láta kúga sig. Síðasta vígið fallið. Við verðum að stöðva þetta kona.   Sameinuð stöndum vér.

SNJ (hugsi):  ertu þá að segja að fólk sé ekki endilega ósátt við samninginn í sjálfu sér heldur vilji bara fá að kjósa um hann?

Bílstjóri: Tja jafnvel. Margir, t.d. ég, erum á þeirri skoðun að þjóðin eigi ekki að borga Icesave skuldbindingarnar. Sumir eru reyndar tvístígandi með það en vilja samt sem áður kjósa um samninginn. Svona til vonar og vara.

SNJ: Ok. En svo ég endurtaki sjálfa mig, skiptir afstöðubreyting Bjarna Ben þá engu um þetta? Er ekki líklegt að hann hafi skipt um skoðun vegna þess að það er einfaldlega besti kosturinn í stöðunni?

Bílstjóri: Stúlka mín. Þetta mál er búið að vera í vinnslu í tvö ár. Og það hefur verið slegist um það frá upphafi. Menn héldu að Svavars samningurinn væri góður og gildur. Að við ættum engin önnur úrræði en þau að samþykkja hann. Síðan kom á daginn að það var rangt. Samningurinn var sá lélegasti í sögunni. Sem betur fer neitaði Ólafur Ragnar að staðfesta hann sem lög. Á þessu sama tímabili hefur fátt í hagstjórninni gengið upp. Hver skandallinn á fætur öðrum hefur riðið yfir landið. Í þessu ljósi, gefðu mér eina góða ástæðu fyrir því að við ættum að treysta þessum samningi nú? Eða yfirhöfuð treysta einhverju sem kemur frá stjórnvöldum?

Þegar þarna var komið sögu kveikti ég á perunni. „Kjósum“ herferðin snýst ekki endilega um það að samningurinn sé vondur í sjálfu sér heldur um vantraust almennings í garð stjórnvalda. Og þá er ég ekki að tala um vantraust á einhverjum venjulegum mælikvarða. Vantraustið er langtum meira en íslenska þjóðin hefur upplifað fyrr og síðar. Í raun breytir engu hvað ríkisstjórn og þingmenn segja eða gera. Fólk vill einfaldlega eiga síðasta orðið. Eins og bílstjórinn sagði ,, ef við eigum að gangast undir þennan skuldaklafa þá verðum við að hafa eitthvað um það að segja. Annars verður styrjöld.“

Ég er ekki frá því að hann hafi rétt fyrir sér. Reiði almennings er slík að ef þingið keyrir samningsfrumvarpið í gegn til þess eins að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þá verða mótmæli sem aldrei fyrr. Ragnarök. Eldar munu kvikna, bál munu brenna.

Og nú sit ég hér, klukkan hálf átta að morgni, og velti því fyrir mér hvort ég ætti að taka þessa áhættu. Að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu (með þeim fyrirvara að það sé ekki gefið mál að forseti neiti að skrifa undir þrátt fyrir undirskriftir)

Spurningin er einfaldlega þessi: er meiri áhætta fólgin í því að treysta mati almennings í þessu efni en stjórnvalda? Og svari nú hver fyrir sig.

Ég persónulega treysti ekki stjórnvöldum. Ég persónulega treysti ekki almenningi. En í þetta sinn ætla ég að láta reyna á almenninginn. Og láta kylfu ráða kasti. Ég er því búin að skrifa undir „kjósum“ áskorunina og mun standa, eða falla, með því. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband