Forsætisráðherrar, hæstaréttardómar og pólitíkin: tvískinnungur á tvískinnung ofan

Það er ekki laust við að ég kímdi þegar ég las leiðara Morgunblaðsins mánudaginn 20.febrúar síðastliðinn, með yfirskriftinni "Hæstaréttardómar hafðir að engu." Í leiðaranum segir að "forystumenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa bæði hafnað því að í hæstaréttardómi í liðinni viku um lög um gengislán, sem þau og aðrir stjórnarliðar settu, hafi stjórnarskráin verið brotin." Að sögn leiðarahöfundar er þetta ekki í fyrsta sinn sem "ríkisstjórnin gefur ekkert fyrir hæstaréttardóm." Nema síður sé. "Hún [ríkisstjórnin] lét stjórnlagaþing til dæmis taka til starfa þvert ofan í hæstaréttardóm", heldur höfundur áfram, "og lét nafnbreytingu duga til að sniðganga dóminn." Eftir þessar vangaveltur veltir gáttaður leiðarahöfundur þeirri spurningu upp hvernig standi nú á þessum dónaskap ríkisstjórnarinnar. Hann segir: "Hvernig skyldi standa á því að ríkisstjórnin leyfir sér að hafa hæstarréttardóma að engu og neitar að þeir segi það sem augljóst er?"

Þarna skellti ég upp úr. Ástæða hlátursrokunnar er að finna í mögnuðum deilum um Öryrkjadóminn svokallaða árið 2001, en þar dæmdi Hæstaréttur lög frá Alþingi í ósamræmi við stjórnarskrá.  Þáverandi ríkisstjórn (undir forystu Davíðs Oddssonar) tók þennan dóm afar óstinnt upp og kallaði Davíð Oddsson þessa dómsniðurstöðu algert "slys" eins og kunnugt er. Í kjölfarið af því urðu bréfaskriftir á milli þáverandi forseta Alþingis, Halldórs Blöndal (ef mig minnir rétt) og þáverandi forseta Hæstaréttar, Garðars Gíslasonar, þar sem forsætisnefnd krafðist skýringa á dómnum. Þessar bréfaskriftir þóttu í hæsta máta óeðlilegar og var mikið deilt um þær, bæði innan þings og utan. 

Hmm. Það sem ég gjöri yður, munið þér mér gjöra (seinna).

En kómíkin endar ekki hér gott fólk. Ónei. Tvískinnungurinn einskorðast ekki við Sjálfstæðisflokkinn, nema síður sé. Á sama tíma og ríkisstjórn Davíðs Oddsonar skammaðist út í Hæstarétt vegna Öryrkjadómsins 2001, voru gagnrýnisraddir stjórnarandstöðunnar háar. T.a.m. rasskellti Jóhanna Sigurðardóttir Davíð Oddsson og aðra stjórnarliða með þessum orðum: ,,það hlýtur að vera áhyggjuefni að þegar dómur fellur stjórnvöldum í óhag segir forsætisráðherra hann pólitískan og líkir honum við slys."

Það var nefnilega það. Jóhanna heldur svo áfram og segir:

 "Í geðvonskukastinu yfir dómsniðurstöðunni er síðan skipuð nefnd lögfræðinga til að túlka dóminn...og sveigja hann og beygja að vilja forsætisráðherra, sem skammtar fólki mannréttindi eftir eigin geðþótta...Það er með ólíkindum hvað ríkisstjórnin leggst lágt við að skammta öryrkjum eins lítil réttindi og þeir mögulega komast af með á sama tíma og hún greiðir götu nokkur hundruð forríkra kvóta- og fjármagnseigenda með 20 milljarða skattaívilnun á sl. 2 árum." (Sjáið þið samlíkinguna við núverandi ástand? Fjármagnseigendur eru enn að græða á meðan almenningur tapar, þrátt fyrir nýja tíma og nýja ríkisstjórn. En þetta er útúrdúr. Áfram með smjörið).  

Stjórnarandstaðan öll tók undir orð Jóhönnu á sínum tíma og gagnrýndi viðbrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. T.a.m. sagði Össur Skarphéðinsson ,,að Hæstiréttur hefði nú...kveðið upp dóm sem staðfesti að ríkisstjórnin hefði brotið stjórnarskrá gagnvart öryrkjum...að það hljóti að vera þungur baggi fyrir ríkisstjórnina að bera." Steingrímur J. Sigfússon sagði svo að ,,ósvífni forsætisráðherra yrði seint jöfnuð. Hér kæmi ríkisstjórnin með stjórnarskrábrotin á bakinu...og spurði hversu mörg stjórnarskrárbrot ríkisstjórnin þyrfti að hafa á bakinu til að láta sér segjast?"

Þessi pistill sýnir svo að ekki sé um villst að pólitískur tvískinnungur fer ekki í manngreinarálit. Og er ekki heldur bundinn ákveðnum stjórnmálaflokkum. Ég lýk þessum pistli með orðum Lúðvíks G. Bergvinssonar (2001) en í þeim kristallast efni þessa pistils:

"Þegar niðurstaða Hæstaréttar samrýmist ekki vilja ríkisstjórna almennt, eru viðbrögðin oftar en ekki þannig að dómarnir, og jafnvel Hæstiréttur sjálfur, er véfengdur."

Ég segi því, guð blessi Ísland. Úff og púff.

SNJ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband