Yfirstærð og anorexía mætast í myndatöku: really?

þessi grein hér http://www.mbl.is/smartland/tiska/2012/01/12/yfirstaerd_og_anorexia_maetast_i_nektarmyndatoku/ hefur fengið gríðarlega mörg "læk" að undanförnu á fésbókinni. Og mörg húrrahróp. Sérstaklega vegna þess að granna konan þykir líta út eins og krakkavesalingur á meðan bústnari konan er talin öðrum (mjóum) konum fegurri.

Ég er hins vegar algjörlega bit á þessum lækum og þessari umræðu. Er það virkilega talið eðlilegt í okkar samfélagi að stilla upp líkömum tveggja einstaklinga og metast um það hvor sé fallegri eða eðlilegri? Hvor sé fullorðinslegri eða barnslegri? Hugsum okkur sem svo að borðunum sé snúið. Í stað þessa birtist nú umfjöllun á Mbl.is um konu í mikilli yfirþyngd sem er með grannvaxna og heilbrigða konu í fanginu. Undir myndinni stæði fyrirsögnin: Feitabolla og kona í kjörþyngd. Ímyndum okkur síðan að fólk læki þessa sem aldrei fyrr og deildi með athugasemdum á borð við ,,ja hérna hér, þetta er nú meiri fitubollan. Þessi mjóa er miklu sætari." Eða þá ,, vá hvað ég er heppin að vera ekki svona feit og ljót. Hjúkkit." Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig fólki í yfirvigt liði í slíkri umræðu.

Auðvitað er það hræðilegt að konur svelti sig. Og að sjálfsögðu er þessi útlitsdýrkun komin út í fáránlegar öfgar. Og það fyrir löngu síðan. En leið þessa samfélags til velfarnaðar er svo sannarlega ekki fólgin í því að hía á mjóar konur og segja þær barnslegar og ljótar. Leiðin út úr ógöngunum sem áherslan á líkamsmynd kvenna hefur leitt okkur í, er svo sannarlega ekki sú að finna ný fórnarlömb til að hía á.

Getið þið ímyndað ykkur hvernig konum sem þjást af lystarstoli eða konum sem eru almennt mjög grannar líður þegar fésbókin og samfélagið allt bendir á þær fingri? Sennilega ekki mjög vel. Hæðni er og verður aldrei leið til sjálfshjálpar. Og það er staðreynd.

Reynum frekar að leggja niður þennan ósið að ræða stöðugt líkamsmynd fólk. Líkamar eru mál þeirra sem búa í þeim, ekki okkar hinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband