Öfgafeminismi, öfgafólk og annað í þeim dúr.

Orðið á götunni í dag eru öfgar. Öfga þetta og öfga hitt. Við fyrstu sýn virðist sem fólk hafi notkun þess nokkuð á hreinu, að mörkin á milli öfga og hófsemi séu skýr. Þegar nánar er að gáð kemur þó annað í ljós. Í orðræðu götunnar virðist sem fólk noti orðið til að lýsa almennt öllu því sem það hefur andúð á eða stríðir gegn þeirra eigin persónulegu skoðunum. Í staðinn fyrir að segja, þú ert fáviti, er sagt, þú ert öfgadeli.  

Ég gerði fimm mínútna tilraun til að greina þessa orðræðu á netinu með því að slá orðin öfgar eða öfga inn í google og skoða niðurstöðurnar.  Það ætti væntanlega ekki að koma neinum á óvart að öfgafemínismi var algengasta öfga-orðið. Grípum niður í nokkrar tilvísanir sem komu upp:

"Dæmigerður öfgafemínismi felst í að flokka Jakob Bjarnar Grétarsson og Þráin Bertelsson sem “karla sem hata konur”.

"Óvá hvað öfgafeministar geta farið í mig. Það er alveg ótrúlegt að þessar gribbur skuli koma fram fyrir hönd feminista."

"VG er að breytast í forsjárhyggju feministaflokk þar sem saman koma hófsamir feministar og öfga feministar sem sjá ekkert nema karlmenn að ..[gera eitthvað ljótt]"

"Öfga-femínismi er skelfilegur og skaðlegur."

Í þessum færslum er hvergi vísað í hvað þessi öfgafemínismi er og hvað greini hann frá annars konar femínisma. (Í raun væri ekki óeðlilegt að álykta sem svo að allur femínismi falli í flokkinn öfgafemínismi). Femínistar mega ekki segja opinberlega "karlar sem hata konur" án þess að vera gagnrýndar og brennimerktar sem öfgafemínistar. Við þessa gagnrýni verða femínistar sárir og réttlæta "öfgarnar" með því að segja að öfgar feðraveldisins kalli á öfgar kvenna.

Femínistar eru þó ekki hörundsárari en svo að þær reiðast því þegar Eva Hauksdóttir nefnir einn pistla sinna "konur sem kúga karla." Þá rísa nokkrir "öfgafemínistar" upp og benda fingri á Evu, sem er þá væntanlega einhvers konar öfgakona líka. Þessir femínistar brugðust alveg jafn harkalega við pistli Evu og "karlrembur" brugðust við svarta lista Hildar Lilliendahl.

Þeir sem helst gagnrýna femínista fyrir öfgar virðast, í (afar) fljótu bragði, vera hægri sinnaðir karlar (með fyrirvara um mína óvísindalegu rannsóknaraðferð). Þeir kunna illa við þessar öfgar í femínistum og hafa áhyggjur af áhrifum femínista á samfélagsþróun og segja jafnvel að,, öfgafemínistar ráðist á grunnstoðir samfélagsins." 

Þó eru hægri sinnaðir einstaklingar ekki lausir við gagnrýni sjálfir, þá sérstaklega ekki þeir sem kenndir eru við frjálshyggju. Þeir eru víst líka öfgasinnaðir eins og eftirfarandi tilvísanir bera með sér (og koma mest frá fólki sem kennir sig við vinstri eða miðjuvæng stjórnamálanna):

"Öfgafrjálshyggja skaðar þjóðarhag þar sem þeim skilgreindu fátæku fjölgar vegna..."

"Tileinkaðu þér siðspillta öfgafrjálshyggju strax; traðkaðu, troddu og ýttu þar til þú kemst á toppinn."

Líkt og femínistar, sárnar frjálshyggjumönnum þessi gagnrýni og segja að ,,frjálshyggjan hafni græðginni...menn myndu sjá það ef hún fengi að virka rétt" og einnig að ,, frjálshyggjan sé hvorki góð né slæm heldur hafi góð áhrif á mannlegt eðli." Til varnar frjálshyggjunni og/eða markaðshyggjunni gagnrýna frjálshyggjumenn vinstrisinna harðlega:

"Ég trúi því ekki að íslenska þjóðin sé orðin svo snarvitlaus að hún kjósi yfir sig öfga vinstri menn en hvað veit maður."

"Það er nú svo að hin endalausa forsjárhyggja stjórnvalda gagnvart hinum almenna borgara gengur oftast út í öfgar."

Evrópusinnar og Evrópuandstæðingar kalla einnig hver annan öfgakenndan á víxl. Sumir Evrópusinnar segja svo um Evrópuandstæðingana:

"Forsetaræfillinn hefur haft það fyrir sið að stórskaða þjóðarhag með orðagjálfri ... að hafa sett síðasta Icesave samning í þjóðaratkvæði enda ljóst að Nei-ið sem öfgaþjóðernissinnar náðu að ljúga inn á þjóðina hefur stórskaðað okkur..."

"Heimssýnar armurinn. Innan samfylkingarinnar er hægri og vinstri fólk. VG er svona ruslakista fyrir öfgamenn. Öfgavinstri, öfgafeministar, öfgaþjóðernissinnar."

Evrópuandstæðingar gjalda líku líkt og kalla Evrópusinna öllum illum nöfnum. T.d. segja þeir:

"Ég hélt sjálf að það væri kannski bara vegna þess að þarna birtust viðhorf öfga-evrópusinna sem þyrfti ekki að ræða."

"Samfylkingin er flokkur öfgasinnaðra evrópusinna sem er tilbúinn að leggja lýðveldið undir og henda til hliðar öllum hagsmunum Íslands..."

Einmitt það.  

Þetta er allt óskaplega athyglisvert. Evrópusinnar eiga ekki til orð yfir öfgunum í Evrópuandstæðingum. Evrópuandstæðingar botna hvorki upp né niður í þessari öfgakenndu trú Evrópusinna á Evrópusamstarfið. Femínistar skilja ekki öfgakennda afstöðu Evu Hauksdóttur eða öfgana sem eru fólgnir í þeirri afstöðu að konur geti tekið skynsamar ákvarðanir um það hvernig þær nota eigin líkama. Hildur Lilliendahl má ekki segja "Karlar sem hata konur," þó svo að það sé klárt mál að sumir karlar hata konur. Eva Hauksdóttir má ekki segja "Konur sem kúga karla" þó svo það eigi eflaust við einhverjar konur.

Frjálshyggjumenn (og einnig margir hægri menn) hrista höfuðið yfir öfgaforsjárhyggju vinstri manna sem vilja hvorki virkja náttúruna né minnka skatta. Vinsri menn líkja frjálshyggjumönnum við öfgakennda glæpamenn sem gefa banka og kasta frá sér íslenskri náttúru á altari græðginnar.  Öfgar, eintómar öfgar. 

Svo eru aðrir sem eru hvorki né, en eru samt alveg jafn öfgakenndir, a.m.k. af internetinu að dæma. Þannig segir einn ,, nasismi er þar sem öfgahægri og öfgavinstri mætast í hringnum," á meðan annar segir: ,, ég sé lítinn mun á kúk og skít þ.e. öfga hægri og öfga vinstri, bæði jafn slæmt. Þó ekki sé hægt að bera upp á þessa einstaklinga einhverja öfgakennda hugmyndafræðilega afstöðu er málfar þeirra þó einkar öfgakennt. Að mínu mati.

En hvað má ráða af þessu? Erum við öll öfgakennd? Eða tökum við bara svona til orða? Er þetta dramatík? Eða stælar? Hvað er þá að vera ekki öfgakenndur? Eru það manneskjur sem humma og segja jæja? Líta spekingslega til Esjunnar og segja ,,allt er í heiminum hverfult" og "slakaðu nú á manneskja mín"?  

Fyrir mitt leyti ber þessi orðanotkun merki um hræsni og skort á umburðarlyndi. Þú snöggreiðist yfir pistlaheitinu "Karlar sem hata konur" og skrifar annan sem heitir "Tussur og tæfur," eða "Brussulegir karlahatarar." Þér sárnar að einhver telji þig búa í draumaheimi Evrópuástar og líkir þér við einfeldning, að þú sjáir ekki að staðreyndir tali sínu máli. Í sárabætur uppnefnir þú hinn sama og segir: þegi þú, öfgakenndi þjóðernissinni, þú Bjartur í Sumarhúsum sem ert ekkert nema heimskulegt stoltið.

Orðatiltækið ,, það er margt í mörgu" á hér alveg einstaklega vel við (þó döll sé). Það eru ágætar röksemdir með og á móti Evrópusambandsaðild. Það eru margar vísbendingar um það að (sumir) karlar hata konur. En það eru einnig til tilvik þar sem (sumar) konur kúga karla.  Að sama skapi er frjálshyggjan á margan hátt falleg hugmyndafræði sem trúir á frelsi manneskjunnar. Félagshyggjan ber einnig hag mannsins fyrir brjósti og telur að ríkisvaldið þurfi að hefta frelsi einstaklinga upp að ákveðnu marki til að vernda meðbræður þeirra. Það er ekkert öfgakennt við þessar hugmyndir. Það eina sem er öfgakennt er hegðun þeirra sem boða hugmyndir sínar sem hinn eilífa sannleik og ráðast gegn persónum þeirra sem trúa á eitthvað annað.

Í guðs friði,

SNJ


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér eru smá öfgar handa þér :)

http://www.youtube.com/watch?v=tCof9YzNBTo

Ingi (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband