Djúsí fjölkvæni

Málefni dagsins er fjölkvæni. Hef heyrt því margoft fleygt að karlmenn þrái að eiga fleiri en eina konu og að það hafi verið stór mistök að leggja þennan margkvænissið niður. Hvílíkt bull segi ég nú bara. Allir karlmenn í mínu lífi, stórir sem smáir, hafa varla valdið því að vera með einni konu hvað þá heilum hópi. Þeir hafa iðulega verið tvísstígandi og hræddir við að segja eitthvað rangt, eitthvað sem fær konuna til þess að breytast í eiturspúandi dreka og murka úr þeim lífið (sem gerist harla oft að sögn heimildamanna minna).

Lokum augunum sem snöggvast og skemmtum okkur. Ímyndum okkur að fjölkvæni sé ekki einungis heimilt heldur reglan í samfélaginu. Hvað sjáum við þá fyrir okkur? Ég sé fyrir mér alræði kvenna! Alræði í slíkri mynd að allir einræðisherrar fyrr og síðar myndu fá minnimáttarkennd gagnvart og missa risið.  Sannleikurinn er nefnilega sá að konur halda fjöreggi karla í hendi sér. Við erum einu lífverurnar á guðsgrænni jörðu sem getum breytt lífi karlmanna í martröð eins og hendi sé veifað. Í samkeppni nokkurra eiginkvenna um hylli eiginmannsins myndu tvíræð skilaboð kvennanna til eiginmannsins dynja á honum eins og boltar úr pinpong maskínu. Og til þess að vigta tvíræðu skilaboðin og gera þau jafn öflug og eiturefnavopn, myndum við tuða og tuða þar til við yrðum bláar í framan. Að sjálfsögðu myndum við líka beita gamla trikkinu, þagnarbindindinu, andvarpa mæðulega og gefa þeim af og til augnatillit fullt af vandlætingu. Svo er það eftirlætis refsingin, daddadadaram: kynlífsstraffið! Og ég get sagt ykkur að þeir karlmenn sem kvarta nú yfir kynlífsbindindi af hálfu einnar konu, myndu sennilega fremja sjálfsmorð ef þeir upplifðu kynlífsbindindi margra kvenna.

Rúsínan í pylsuendanum væri þó sú skemmtilega iðja kvenkynsins að reyna að snúa karlmanninn á sveif með okkur, gegn hinum eiginkonunum. Hver eiginkonan á fætur annarri myndi króa eiginmanninn af á dimmum og afskekktum stöðum (svona vegna hryllings effeksins) og segja tárfellandi að hinar konurnar hafi komið illa fram við sig. Eiginmaðurinn verður að skerast í leikinn, segir konan kjökrandi, annars er taugaáfall á næsta leiti og hjónabandsráðgjöf í kjölfarið.

Í þessu hryllingssamfélagi væri maðurinn svo taugatrekktur og hvumpinn að hann gæti ekki haldið sér að neinu verki. Hann væri vansvefta vegna martraða, á þunglyndis- og kvíðalyfjum, sískælandi og með alvarlegt risvandamál. Konungur heimsins? My ass! Konungur vesælsdóms? Já öllu heldur.

Enginn karlmaður með viti myndi sjálfviljugur ganga í þessa hræðilegu gildru. Enda segir það sig sjálft er það ekki? Við búum í karlaveldi (þó ég hafi nú mínar efasemdir um það). Ef karlmenn þráðu fjölkvæni væri þá ekki slíkt kerfi til staðar? Góð spurning!


Jólaperrar

8 ára gamall sonur minn veit sannleikann um jólasveininn. Og sannleikann um jólin líka (þau eru bisness).

Eldri systir hans (ævagömul, 17 ára) trúði í blindni á jólasveina og tannálfa. Þetta var eins og eldheitt ástarsamband á milli þeirra þriggja, hennar, jólasveinsins og tannálfsins. Hún ljómaði í framan þegar minnst var á jólasveina, þeir eru svo góðir sagði hún og elska börn. Sérstaklega stelpur (say what!). Hún skrifaði bréf til jólasveinsins og hreindýranna hans (sem bandarísk amma hennar var afar dugleg við). Skildi eftir mjólk og smákökur handa sveininum og gulrætur handa hreindýrunum. Síðan kepptist veslings amman við að þamba mjólkina og borða kökurnar áður en barnið vaknaði. Svona gekk þetta árum saman.

Þegar Helena var 10 ára, þá kom hún einn daginn heim úr skólanum (á Íslandi) og sagði við mig þungbúin á svip: ,,mamma, ég þarf að spyrja þig að dálitlu og ef þú skrökvar að mér þá mun ég öskra." Eins og gefur að skilja hrökk móðurinni í kút við þennan þunga undirtón og settist alvörugefin niður í sömu andrá. Hvað viltu vita? spurði ég. Er jólasveinninn til? Spurði barnið. Nei sagði ég. Hann er ekki til og hefur aldrei verið til. Sjokkerað barnið leit á mig og sagði: eruð þið búin að vera að ljúga og ljúga og ljúga alla mína ævi?! En hvað með tannálfinn? Er hann ekki heldur til? Nei sagði ég skömmustuleg. Hann er ekki til. Og við það fór stelpan að gráta. Ég mun aldrei gleyma svipnum á krakkanum, en á sama tíma áttaði ég mig einnig á því hvað þetta er ömurlegur siður. Allt samfélagið tekur höndum saman við að halda á lofti mestu lygasögu allra tíma. Og lygasagan gengur lengra en kristin trú gerir í tilraun sinni við að halda kristni í heiminum. Þeir sem eru ekki kristnir hafa þó þann möguleika að geta sagt; nei ég trúi ekki á Jesú (eða guð eða báða). En þegar kemur að jólasveininum, eru engar leiðir út. Það má ekki segja opinberlega (t.d. í búðum) að maður trúi ekki á jólasveininn. Sá sem það gerir er húðstrýktur á götum úti eða hengdur í hæsta gálga.

Þegar ég eignaðist yngra barnið mitt var ég ofboðslega óviss um það hvað ég ætti að gera við þessa barnatrú. Ég óttaðist gálgann það mikið að ég kenndi honum að sveinki væri sætur og hress og hefði unun af því að arka alla leið frá Esjurótum um hávetur með poka fullan af gjöfum til þess að gefa sofandi börnum (hljómar perralega svo ekki sé meira sagt). Barnið hafði óbeit á þessum feita hóandi manni með skeggið. Hann fór alltaf að gráta um leið og sveinki birtist. Og refsing mín fyrir að endurtaka lygasöguna var sú að eignast mesta efasemdarbarn sem ég hef á ævinni kynnst. Hann er eins lítið fyrir jólasveina og dóttirin var fyrir þá. Alltaf kíkti hann ofan í skóinn með þetta undarlega blik í augunum, svona tortryggið efasemdarblik sem var við það að taka mig á taugum. Svo bunuðu á mér spurningarnar: hvernig kemst hann inn? hvernig veit hann að það er bara eitt barn hérna? afhverju er hann svona feitur? afhverju fer hann ekki að heiman? afhverju hefur hann efni á hreindýrum í Ameríku en ekki á Íslandi? Afhverju ganga þeir ekki saman allir bræðurnir í staðinn fyrir að tölta þetta einn og einn?

Kæru vinir, þetta var martröð. Svo gafst ég upp um jólin í fyrra. ég hafði verið í feykigóðum félagsskap um kvöldið (þar sem þetta var m.a. sagt) og þegar ég kom heim þá mætti mér martröðin sjálf (en ekki hvað). Sonur minn sat úrillur uppi í rúmi og sagði við mig að honum þætti nú furðulegt hvað jólasveinninn verslaði mikið á bensínstöðinni okkar. og ég gafst upp.  Ég sagði honum sem svar að móðurkindin hans hefði verið á þönum árum saman við að persónugera jólasvein. Drengnum létti mikið og varð ákaflega ánægður með móður sína fyrir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Honum fannst ég einnig hafa staðið mig frekar illa í þessum leik en klikkti svo út með þessum ódauðlegu orðum: mér finnst jólasveinninn svo krípí, hann er svo fáránlega glaður og feitur.

ég vona að allar heimsins vættir munu gefa mér styrk til þess að endurtaka leikinn EKKI ef til þriðja barnsins kæmi.

ástarkveðja

SNJ


konuklám

Las svo fyndna sögu á veraldarvefnum um daginn. Kona ein (bandarísk) var að ræða farsælt hjónaband sitt á dögunum. Hún var spurð að því hvernig þau hjónin hefðu farið að því að vera svona sátt og farsæl í langan tíma. Hún sagði að það væri vegna klámvæðingarinnar. Eins og skilja má svelgdist fólki á morgunkaffinu sínu við þessar fregnir. Ein jólin, fyrir ekki svo löngu, var hún (eiginkonan) á hundrað kílómetra hraða á klukkustund að undirbúa jólin. Þetta er augljóslega kvenskörungur og húsmóðir mikil, en hún verslaði, skreytti, föndraði, skrifaði jólakort, trommaði með fjölskylduna í myndatöku, keypti föt á alla, bakaði og eldaði, sem mest hún mátti. Eiginmaðurinn upplifði sig útundan og "sífraði sífellt í henni" (hennar orð) og suðaði um kynlíf. Eftir nokkra svona daga var eiginkonan orðin örg á sífrinu í manninum, skellti nokkrum spólum og blöðum í fangið á honum og hvæsti: "til hvers heldurðu að við konur höfum fundið upp klámið?" Hundskastu nú inn í herbergi og láttu fara lítið fyrir þér." Þetta gerði víst trikkið, en þau hjónin hafa verið sæl upp frá þessu.

 Það sem ég hló. En maðurinn hlýtur þá að vera kominn með stórt einkasafn af ákveðnu efni, bæði á spóluformi sem og í myndablöðum.


Ráðherfur

Vinkona mín sagði mér frá pistli Sverris Stormskers í laugardagsblaði Moggans þar sem hann var að úthúða femínistum. Og þvert gegn vilja mínum verð ég að viðurkenna að ég fékk næstum því magakrampa af hlátri. Maðurinn er alger perla. Hann segir að það sé ekkert erfitt að finna heiti á kvenkyns ráðherra: þær ættu bara að kalla sig ráðherfur. Þá værum við með ráðherra (karla) og  ráðherfur (konur).

 


Hlutverk kynjanna í ástinni

 

Ég tel að konur beri meiri ábyrgð á samskiptum karla og kvenna en karlar. Og hana nú. Rökin eru margþætt (eins og alltaf) en þó má koma auga á rauðan þráð sem glittir hjá öllum þeirra: flestar konur eru betri í samskiptum en karlar almennt (þó ekki allir karlar). Ekki nóg með að við eigum auðveldara með að túlka og tjá tilfinningar heldur viljum við ræða þær fram og til baka, aftur á bak og áfram, til vinstri og hægri. Konur á flestum stöðum mannlífsins (enn og aftur, þetta er ekki alhæfing) verja miklum tíma í að ræða tilfinningar sínar. Við spjöllum við samstarfskonur um yfirmanninn, og jafnvel einstaka starfsfélaga, og berum undir þær hina ýmsu atburði, hvað þetta eða hitt þýðir, hvað ætli hann hafi átt við þegar hann sagði....bla. Síðan förum við heim og hringjum í nánar vinkonur okkar. Rekjum fyrir þeim málefni dagsins, hvað finnst þér um þetta? Á ég að taka þessu persónulega? Finnst þér hann (yfirmaðurinn) ekki svolítið félagslega fatlaður? Ég meina, hver segir svona hluti? Svo andvörpum við mæðulega og hristum hausinn. Við ræðum um íþróttaþjálfara barnanna, hvort þeir sé nógu uppbyggjandi og gefandi. Við viljum að sjálfsögðu að öll dýrin í skóginum (þ.e. börnin í íþróttaskóginum) séu góðir hver við annan og að öll börnin fái að njóta sín. Og fleira og fleira. Konur, þið þekkið þetta!

Ekkert af þessu jafnast þó á við samræður kvenna um karlmenn. Þá sérstaklega nýja kærasta. Ef guð er til, þá er ég viss um að hann sér gríðarlega eftir því að gætt konuna þessum tímafreka eiginleika. Tíminn sem fer í vangaveltur um karlmennina í lífi okkar er örugglega ein af ástæðunum fyrir þessum óskýrða launamuni kynjanna (ég væri t.d. löngu búin með doktorsritgerðina mína og aðra til ef þessir karlmenn væru ekki alltaf í huga mér!) Til að mynda röbbum við vinkonurnar um karlmennina í lífi okkar þar til verðum bláar í framan og hættum ekki fyrr en við neyðumst til þess vegna súrefnisskorts.

En þá er það mál málanna. Mannfræðingur einn í Bandaríkjunum, kona sem vann í akademíunni stóran hluta ævi sinnar og stúderar konur sérstaklega, langaði til þess að finna einhverjar heimildir um það hvernig samskipti kynjanna voru á forsögulegum tímum (öööö, metnaðarfullt já). Hún dvaldi hjá einhverjum ættbálki á Papua Nýju Gíneu (er þetta rétt skrifað?) en fólkið þar er talið afar frumstætt og því ágætis heimild um samskipti og samfélag á forsögulegum tímum. Jæja, mannfræðingurinn fylgdist með konum og körlum, í leik og starfi. Konurnar voru ALLTAF umkringdar börnum (heilum hrúgum skilst mér) og öðrum konum. Systur, mæður, tengdamæður og vinkonur blöðruðu linnulaust allan daginn. Þær þvoðu þvott í sameiningu (ekkert „me“ time þarna), þær elduðu í sameiningu, þær týndu jurtir í sameiningu.

Karlarnir, þó þeir væru líka oft í hópum, töluðu langtum minna. Þeir fullyrtu eitthvað og það var rætt í 2 mínútur. Þögn næsta klukkutímann. Þá kom annar maður með athugasemd. Það var rætt í 1 mínútu og svo mætti lengi telja. Þeir voru einnig miklu líklegri en konurnar til þess að „skreppa frá „ þó aldrei einhverjar langar vegalengdir. Mannfræðingurinn komst þar af leiðandi að þeirri niðurstöðu að hópatengsl og samræður væru konum eiginlegri en körlum (hún hefur ekki nokkurn áhuga á eiginleikum karla).  Og eftir stendur spurningin: eru þetta genetískir eiginleikar eða lærð hegðun? Blanda af báðu segir mannfræðingurinn og styð ég það (svona sem leikmaður).

Pönslænið er þó þetta: það skiptir ekki máli hvort þessir eiginleikar eru genetískir eður ei. Þeir eru þarna hvort eð er. Punktur. Að sögn mannfræðingsins þurfum við því að læra að lifa með þeim. Konur þurfa að átta sig á því að karlmenn eru EKKI konur. Þær verða að átta sig á því að karlmenn munu aldrei hafa ánægju af því að ræða tilfinningaleg málefni (s.s. where is this going?) og munu aldrei hætta að segja ranga hluti á röngum tíma. En mannfræðingurinn fékk svo mikinn tremma yfir þessari „uppgötvun“ sinni að hún hætti að prófessorast og gerðist hjónabandsráðgjafi. Þar kennir hún konum þessi vísindi og að hennar sögn fara hjónaböndin að blómstra í kjölfarið af því. En það sem merkilegra er að kona sem hefur tileinkað sér þessar hugmyndir hættir að túlka smsin og tölvupóstana sem hún fær frá karlmönnunum í lífi sínu og hefur þar af leiðandi ógrynnin öll af aukatíma og aukaorku sem hægt væri að nýta til vinnu (ég vildi óska að ég hefði rekist á þessa konu á meðan ég var í doktorsritgerðarstuði), stjórnmála, félagsmála o.s.frv.

Og þetta hef ég reynt og upplifað. Ég tala þó enn linnulaust í símann en það er önnur saga. Næst fáið þið dæmisögu úr mínu eigin lífi (úúú, spennandi!).  

 


Karlar og konur, Mars og Venus, stjörnustríð og heimsendir.

Ég var að ákveða, svona rétt í þessu, að byrja að blogga aftur. Og þá ekki um stjórnmál, ekki vil ég feta þá oftroðnu slóð, heldur um samskipti kynjanna. Þau mál eru mér einkar hugleikin, enda ekki furða þar sem ég er búin að vera í (og enda) fjórum alvarlegum samböndum, þ.á.m. hjónabandi og sambúð. Það segir sig sjálft býst ég við að kvenmaður sem eyðir ævinni í að hefja sambönd og slíta þeim, hafi áhuga á þessu fyrirbæri sem samskipti kynjanna eru.

Ákvörðun númer 2 er sú að hætta að hætta í samböndum. Takk fyrir túkall. Í þessum vitfirringsgangi sem einkennir fjögur sambandslit hef ég upplifað þá þversagnakenndu staðreynd að það að vera í sambandi er góður og heilbrigður lífsstíll.  Það er dásamlegt að eiga lífsförunaut, hversu ófullkominn sem hann nú er. Galdurinn er, að ég held, sá að hlúa að eigin hamingju, en ekki hamingju lífsförunautarins.  Nú hleypir örugglega einhver í brúnirnar og hugsar með sér: hvílíkur fáviti er þess kona. Veit hún ekki að hamingja annarra á að vera forgangur hvers manns (eða konu)? Ég hleypi barasta í brúnirnar til baka og segi: neihei! Fólk sem hlúir að hamingju annarra hefur oftast nær fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvað EIGI að gera makann hamingjusaman. Og á grundvelli þess, er makinn nánast píndur í átt að hamingjuveginum sem er hinum helmingnum samboðinn. Tilraunin til þess að bæta lífsskilyrði annarra er því yfirleitt dulið (og afar öflugt) stjórntæki.

Konur leika hér iðulega aðalhlutverkið. Í bómyndinni "hvernig er best að efla og bæta samband karls og konu," leika konur aðalhlutverkin ásamt því að semja handrit og leikstýra. Karlarnir annaðhvort fylgja með mótþróalaust, og öðlast viðurkenningu kvennanna fyrir vikið, eða gera uppsteyt og sjá fram á ævilanga útskúfun. Þeir karlar, sem eru svo séðir að vera hvorki fylgjendur né uppreisnarmenn, eru menn sem ekkert er ómögulegt.  

Ég læt staðar numið í bili en framhald kemur innan tíðar (miðað við ástríðu höfundar gæti framhaldið komið eftir ca. hálftíma!)


Týndur unglingur??

Ég get ekki orða bundist. Talandi um rangar uppeldisaðferðir. Undanfarna daga er búið að lýsa eftir 15 ára gamalli unglingsstúlku sem ég þekki vel til. Stúlkan er náin vinkona dóttur minnar og hefur verið búsett á fósturheimili síðastliðið ár. Fyrir stuttu síðan flutti hún aftur heim til mömmu sinnar en þær hafa ekki átt auðvelt með samskipti. Síðasta föstudagskvöld er stúlkan úti við ásamt vinum sínum en hún átti að koma heim til sín klukkan 12. Sem hún gerir ekki. Stuttu eftir 12 á miðnætti stendur hún fyrir utan heimili sitt vitandi það að hún sé að brjóta útivistarreglur heimilisins. Þar sem hún stendur úti við fær hún sms skilaboð frá móður sinni þar sem henni er sagt að hún skuli ekki hafa fyrir því að koma heim. Þar standi henni ekki opnar dyr. Semsagt, refsingin fyrir það að vera of lengi úti er sú að vera úti ALLA NÓTTINA og næturnar þar á eftir.  Stúlkan fer grátandi til vinkonu sinnar og fær að gista. Að tveimur, þremur sólarhringum liðnum lætur móðirin lýsa eftir henni í stað þess að hafa samband við vinkonur hennar og koma skilaboðum til dóttur sinnar þannig. Í fjölmiðlum hefur móðirin lýst því yfir að hún sé með áhyggjur af dóttur sinni vegna þess að hún sé í slæmum félagsskap. Og ég efa ekki að hún hafi rétt fyrir sér í því. Það er samt undarleg uppeldisaðferð að reka barn, sem er ekki einu sinni orðið sextán ára gamalt, að heiman og beint í opinn faðminn á slæma félagsskapnum sem móðurinni stendur svo mikill stuggur af. Nú er ég ekki að segja að það sé auðvelt að ala upp börn. Sérstaklega ekki unglinga. Það þekkir undirrituð af eigin raun. Og vissulega finn ég til með móðurinni í þessum aðstæðum. En þó viðkomandi stúlka sé ekki auðvelt barn þá er hún alls ekki slæm. Hún á í ýmsum erfiðleikum, þ.á.m. tilfinningalegum. En það sem hún þarfnast mest er heimili sem býður hana velkomna.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband