Alvara lífsins

Ég er hundleið á alvöru lífsins. Alvara lífsins er svo hátíðleg og svo þungbær að það er bannað að vera ekki ofurseldur henni. „Lífið er nú ekki svona einfalt stúlka litla“ segir spekingurinn og veifar fingrinum framan í mig. Það eru allskonar mál þarna úti, rosalega erfið mál sem fólk er að glíma við. Börnin eru erfið og svo eru stríð úti í heiminum. Og flóð. Og eldgos. Og kreppa. Þetta má maður ekki hafa í flimtingum vinkona. Eitt svona mál sem samfélagið elskar að velta sér upp úr eru stjúpfjölskyldurnar. Eða samsettu fjölskyldurnar.  Stór hluti þessara fjölskyldna þrífst ekki vel. Miðað við nafngiftirnar kemur það ekki á óvart. STJÚPFJÖLSKYLDA. Hvaða hryllingsorð er nú það? Vísar það ekki bara til annars flokks fólks? Sem stjúpast saman?  Ekki er samsetta fjölskyldan skárri. Samtíningur neðanmálsfólks. Sem leitar eftir aðstoð hjá ráðgjafa. Því það höndlar þetta ekki sjálft. Og hringir líka inn í útvarpið. Helst til að tala við miðla. Fyrir nokkrum árum var ég að keyra í umferðinni, í afar þungum þönkum. Var að hugsa um þáverandi kærasta minn og fannst allt á móti mér. Hann átti börn. Ég átti börn. Hann hafði átt stjúpbörn áður. Ekki ég. Og ég  keyrði um bæinn og fannst þetta skelfingin ein. Ekki get ég ætlast til þess að manngarmurinn fari aftur út í þennan bisness.  Að „taka að sér“ börn annarra (takið eftir sjálfsvorkunninni). Nei það er best að slaufa þessu bara, hugsaði ég í oflæti mínu. En þá gerðist það. Kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Eins og Adamsör. Hvaða fátæklegi hugsunarháttur er nú þetta! Að heyra í mér. Ég nánast keyrði á næsta bíl mér varð svo mikið um þessa opinberun. Að kvarta og kveina yfir því að fallegt fólk í veröldinni sé æst í að kynnast mér og vera með mér. Fólk  sem á falleg börn, foreldra, systkini og vini. Eru þetta ekki miklu frekar forréttindi? Að fá tækifæri til þess að mynda svona tengsl? Ég laut höfði og skammaðist mín. Síðan hef ég verið á skjön við samfélagið í þessum efnum. Mér finnst þetta ekkert mál. Samsettar, ósamsettar eða stjúpaðar fjölskyldur – býttar engu. Pís of keik. Það er afstaða okkar sem er vandinn, ekki samtíningsfólkið sjálft. Sú krafa okkar að börn og fullorðnir geti gengið inn í fjölskyldu þar sem allir eru skyldugir til að elska hver annan og vera vinir. Stjúpforeldrið á að elska stjúpbarnið, líkt og um hans eigið barn sé að ræða. Ef hann gerir það ekki, er fjandinn laus. Þetta er fyrirfram dauðadæmt. Í fyrsta lagi elska afar fáir önnur börn eins og sín eigin. Sem er líka óþarfi í sjálfu sér. Eigum við almennt heimtingu á ást annarra? Maður spyr sig.  Í öðru lagi verða stjúpbörn og stjúpforeldrar ekki alltaf vinir frá fyrstu kynnum. Og í þriðja lagi eiga stjúpbörn og stjúpforeldrar ekki alltaf vel saman.  En er það ekki í himnalagi? Foreldrar og blóðafkvæmi þeirra eiga ekki heldur alltaf saman þrátt fyrir bullandi ástina. Slík ágreiningssambönd eru nær óteljandi. Það sem ég velti fyrir mér er þetta: afhverju þurfum við að vera svona sátt við alla í kringum okkur? Afhverju getum við ekki búið saman og hlegið saman þó svo ástin sé ekki í botni? (Eða unnið saman og drukkið stöku kaffibolla saman í kurteisi án þess að vera vinir? Smá útúrsnúningur).My five cents eru svona: um leið og börn finna þá kröfu að þau EIGI að líta á stjúpforeldrið eins og alvöru foreldri þá fælast þau. Enda vill enginn elska aðra manneskju eftir pöntun. Og um leið og börn úr sitthvorri fjölskyldunni finna þá kröfu frá foreldrunum að þeim EIGI að koma vel saman og að þau EIGI að verða eins og systkin, þá fælast þau. Um leið og stjúpforeldri finnur þá kröfu af hálfu nýja makans að hann (eða hún) EIGI að elska stjúpbörnin eins og lífið í brjósti sínu, þá fælist það. Það vill enginn gangast við svona kröfu. Fólk er mismunandi skemmtilegt og mismunandi ástríkt. Börn eru miserfið og sum jaðra jafnvel við að vera leiðinleg. Og það er bara allt í lagi. Fólki vegnar best ef það fær bara að vera eins og það er. Leiðinleg manneskja með stæla vill bara halda áfram að vera leiðinleg manneskja með stæla. Og stjúpforeldri eða stjúpbarn þarf ekki að þekkjast þessa leiðinlegu manneskju með stæla. Við þurfum ekkert öll að vera bestu vinir. Og við þurfum ekki alltaf að ræða um hlutina heldur.  Við þurfum bara að vera kurteis. Og þeir einstaklingar sem upplifa að það sé borin virðing fyrir tilfinningum þeirra, eiga afar auðvelt með að sýna kurteisi og jafnvel nærgætni. Þetta er sannað mál. Ég er ekki frá því að áhyggjur okkar af stjúptengslum hafi gert börn (og fullorðna) hvekkt. Hvekkt við tilhugsunina um nýjan stjúppabba eða nýja stjúpmömmu. Ekki hvekkt vegna þess að tilhugsunin í sjálfu sér sé óbærileg heldur vegna þess að með nýju foreldri koma nýjar kröfur um það að þau eigi að elska það og virða og (helst) verða nokkurn veginn fullkomin. Og syngja á kvöldin og búa til vísur. Og spila. Í þágu sýndarmennskunnar. Og enginn nennir því. Allavega ekki ég. Og svo sannarlega nenni ég ALLS EKKI að leggja á mig þá vinnu að pína börn og fullorðna til að elska mig. Milljón dollara sannleikurinn er nefnilega sá að ástin og vináttan kemur UNDANTEKNINGARLAUST af sjálfu sér ef atburðarrásin er látin óáreitt.  

Með kveðju,

SNJ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband