29.8.2010 | 17:55
Að hata skilyrðislaust...
...er auðveldara en að elska skilyrðislaust. Svo eitt er víst. Fyrir nokkrum árum var ég svo heppin að fá að kynnast 85 ára gömlum bandarískum sálfræðingi, hjónabandsráðgjafa nánar til tekið. Hann er með extra mikið testosterone í sínum vessum, enda sannur Texas búi, sem segir hlutina eins og þeir eru, umbúðalaust. Enda er maðurinn umdeildur. Almáttugur það sem fólk getur hatað hann. Og það finnst honum bara gaman. Hans eftirlætis mottó er people are a mess, so why do you keep getting disappointed? Tough love er hans aðferð, og væluskjóðum gefur hann fokkmerki. Enda skríkti ég úr kátínu þegar ég hitti hann fyrst. Ég réð ekki við blikið í augunum mínum og elti manninn eins og hvolpur út um allt. Ég hefði getað hlustað á hann nótt og dag. Lífsspeki hans virkar ekki fyrir alla, en hún skaust eins og ör beint inn í hjarta mitt. Ég vissi sem var að í orðum hans var frelsi mitt fólgið.
Það þarf bara eina manneskju til þess að gera hjónaband gott. McDondald strækar algjörlega á það búllsjitt að fólk þurfi að vinna í hjónabandinu. Það er fyrst þá sem hjónaböndum fer að hraka. Aldrei, aldrei vinna í hjónabandinu, heldur hann fram. Mér létti stórum við þessi orð, enda er ég í vinnu nú þegar. Og þegar vinnunni sleppir vil ég hafa það náðugt. En ekki vinna meira. Vinnan í sambandinu, segir hann, gerir vandamálin enn meiri en þau eru. Því fleiri klukkustundir sem fara í þessa vinnu, því stærri verður vandinn. Í hnotskurn felst sambandsvinnan í því að annar aðilinn rembist við að breyta hinum sem síðan rembist við að streitast á móti. Hljómar lukkulega, ekki satt. Eina ráðið í svona stöðu, segir McDonald, er að gefa sjálfum sér fokkmerki (jú hann sagði þetta svona) og vinna svo í að breyta sjálfum sér. Ef það gengur ekki, er best að skjóta sig (djók). Það er algjörlega bannað að sætta sig við okkar nánustu, segir hann. Þau eru stórkostleg eins og þau eru. Í sínu algera messi. Um leið og við upplifum að við þurfum að sætta okkur við einhvern í lífi okkar þá eru það skilaboð til okkar sjálfra um að hugarfari okkar sé ábótavant. Ef við trúum því statt og stöðugt að fólkið í lífi okkar sé okkur síðra og að við þurfum (í stórlæti) okkar að sætta okkur við það, þá erum við stödd í miðri sjálfsfróun. Við verðum nefnilega svo göfug þegar við gefum lúðunum okkar second chance, (á meðan við ranghvolfum augunum).
Raunin er sú (segir Texasbúinn) að við erum öll í algeru messi og algeru fokki og ættum því að faðmast og tárfellast í þakklæti yfir því að fólkið sem við elskum er jafn misheppnað og við sjálf.
McDonald frá Texas borðar nautakjöt í morgunmat og fær sér snaps á hverju kvöldi en veit allt um skilyrðislausa ást. Ég hélt reyndar að ég vissi sjálf talsvert um málefnð, eða allt þar til ég hitti hann. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði aldrei elskað neina manneskju (aðra en þá sem eru blóðtengdir mér) skilyrðislaust. Ástin sem ég taldi mig bera í brjósti til annarra var í raun ætíð háð því hversu mikla ást ég taldi mig fá á móti. Svona debet og kredit díll. Debet og kredit ástarsamband væri reyndar ekki svo slæmt ef ástin væri einföld og kæmi t.a.m. í 5 kg sekkjum. Þá væri lítið mál að telja sekkina og jafnvel lána öðrum nokkra þegar vel árar.
Að sögn McDonalds er vandinn hinsvegar sá að ástin sem okkur er gefin er skilgreind af okkur sjálfum. Öfugt við veraldlega hluti líkt og skartgripi eða bíla. Ef einhver gefur okkur bíl, þá fáum við bíl. Okkur finnst hann kannski ekki eins flottur og gjafaranum en bíll er það engu að síður. Ef einhver gefur þér eða mér ást þá er ekki víst að við tökum eftir henni. Í mínum huga er ást ef til vill hlýlegt faðmlag eða hefðbundnar ástarjátningar (I love you er vinsælt) en í þínum huga er það kannski eitthvað allt annað. Til dæmis bara það að koma heim á hverjum degi. Eða í hverri viku. Eða whatever. Og fólk með mismunandi upplifanir á ástarfyrirbærinu fer augljóslega á mis hvert við annað. Og grætur jafnvel úr sér augun í ástarsorg á meðan ástin situr beint fyrir framan það og horfir ráðvillt á (almáttugur hvað ég hef oft upplifað þetta).
Að sögn Texasbúans er skilyrðislaus ást því eina lausnin. Skilyrðislaus ást gerir ekki upp á milli ástar og séra ástar. Þú elskar manneskjuna hvort eð er og getur því tekið á móti hverskonar ást sem er. Verðgildi hennar hefur enga merkingu því átt engan ástar-bankareikning lengur. Debetið og kreditið er því óþarfi.
Frá þessari stundu hefur þetta verið mitt markmið. Að elska skilyrðislaust. Nú eru tvö ár liðin og mér gengur miklu betur. Um tíma hélt ég að ég kæmist aldrei á áfangastað og gafst oft upp (bara svo ég segi ykkur það, erfiðara verkefni hef ég ekki upplifað). En fyrir tiltölulega stuttu fór ég loksins að finna og upplifa breytingar á geðslagi hjartans. Hjartað er orðið langtum stærra en áður en á sama tíma er það einnig hlédrægara. Egóið er reyndar í smá valdabaráttu við hjartvöðvann en tapar orrustunum æ oftar. Ég er nýfarin að implementera þessa hugmyndafræði yfir á önnur svið í lífi mínu, t.a.m. gagnvart vinnufélögum og vinkonum. Og það er ólýsanlega dásamlegt. Þetta er þó ekki smooth sailing alla daga. Ég hrasa oft í þessu ferli og verð þá afbrýðisöm eða öfundsjúk, eða upplifi að það sé verið að brjóta á mér á einhvern hátt. Munurinn er bara sá að núna tekur þetta fljótt af og ég er snögg upp á lappirnar aftur.
Hin ófullkomna og breyska SNJ kveður að sinni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.