21.1.2011 | 09:25
Má bjóða þér smá neikvæðni með þessu? Eða hroka?
Það fer væntanlega ekki framhjá neinum læsum einstaklingi með sæmilega heyrn að við mannfólkið stöndum okkur ekkert sérstaklega vel í lífinu. Margir jafningja okkar (sem þá væntanlega standa sig ekkert alltof vel í lífinu sjálfir) þreytast ekki á því að benda okkur á aulaskapinn í okkur. Og hía hæðnislega .
Við stöndum okkur ekki nógu vel í vinnu. Við slökum of mikið á þar. En í þeim undantekningartilvikum þar sem fólk leggur sig fram þá er það auðvitað bara að drepa sig á perfeksjónisma. Get a læf heyrist þá á innsoginu.
Við erum heldur ekki læs á fjármál (og fáum 10 vandarhögg fyrir). Ú á þessa aula. Svo erum við alltof breysk. Höldum framhjá (þegar allir vita að það er langbest að ræða málin við makann á þroskaðan máta og leysa vandann en to tre). Við erum lélegir foreldrar. Kennum börnum okkar ekki aga og höldum þeim ekki nægilega vel að námi. Og í þeim tilvikum þar sem við höldum þeim að námi, erum við að leggja of hart að þeim. Aumingja börnin eru þá bara framlenging á foreldrunum. Farðu bara sjálf í skóla og brilleraðu segir maður við þannig foreldri. Láttu barnið eiga sig.
Við konur erum aukinheldur afar stjórnsamar. Og þyrftum að temja okkur meiri sveigjanleika í lífinu. Annars gefast allir upp á okkur. Og svo erum við með svo mikið samviskubit (dísöss kræst). Sem er auðvitað bara masókismi (þessar kjellingar). Og kynlífið. Jeminn eini. Konur eru svakalega lélegar þar. Þegar kynlífsdrottningar minnast á raðfullnægingar verðum við bara kindarlegar í framan. Rað hvað? Er það ekki bara fyrir konur í Ameríku? Eða búddista? Kynlífsdrottningarnar ranghvolfa augunum við þessi svör. Kommon stelpur segja þær. Þið verðið að fara að lifa í núinu. Konur nota bara 5% af kyngetu líkamans. Sem er auðvitað bara rugl. Takiði secretið á þetta. Raðfullnæging er ómissandi þáttur í lífshamingjunni.
Við erum líka of feitar. Eða æfum ekki nóg. En í þeim tilvikum þar sem við æfum nóg, æfum við of mikið. Þá erum við með líkamsræktarrexíu og þurfum að fara upp á Stuðla. Get a læf heyrist enn og aftur.
Svo er það nýjasta gagnrýnin. Við erum of neikvæðar. Við erum ekki að fá út úr lífinu það sem við getum fengið. Við þurfum að taka jákvæðnina á þetta og allt mun koma heim og saman. Tökum vinnuna bara með trompi. Skiptir engu máli hvort þú mokir skurð og ofan í hann aftur. Ef þú ert bara jákvæð og hefur ofurtrú á eigin getu þá mun þessi skurður breytast óforvarandis í peninga. Og reynið líka að vakna hressar á morgnana. Þá morgna sem maður staulast fýldur á fætur er dagurinn algjörlega ónýtur. Þið getið kysst þann dag gúddbæ. Skynsamlegra er að vakna syngjandi, gera nokkrar armbeygjur og standa svo gleiður fyrir framan spegil og segja: snj, þú ert stórkostleg manneskja. Þú getur allt. Endurtaka 100 sinnum og deginum er reddað.
Og svo erum við ekki nógu meðvituð um þá gjöf sem lífið er. Að fá tækifæri til að lifa á þessari plánetu og gera alla þessa skemmtilegu hluti. Bara það eitt að vaska upp á að færa okkur gleði og hamingju. Og hlusta á andardrátt heimilismanna þegar þeir sofa á næturnar. Þá á maður að fyllast þakklæti og auðmýkt. Því lífið er hverfult. Og það þýðir ekkert að malda í móinn og benda á þá staðreynd að maður þekkir ekkert annað en lífið. Afar fá okkar hafa einhvern tímann dáið. Og eiga erfitt með að ímynda sér það. En það er þá væntanlega vegna þess að við lifum ekki í núinu. Í núinu gerast sko hlutirnir, þar er aksjónið og þar er hamingjan.
Ef ekki, þá höldum við áfram að lifa sama leiðindalífinu og allir aðrir. Vera áfram meðalmanneskja sem fitnar bara og sér engan árangur í neinu. Sem telur hverja krónu (í stað þess að búa til fullt af peningum með hugaraflinu einu saman) og á frek börn og mann sem heldur framhjá. Og þjáist af samviskubiti, neikvæðni, þunglyndi og kvíða. Að sögn snillinganna erum við einfaldlega ekki nógu miklir snillingar! Það er í raun mildi að við sitjum ekki bara og borum í nefið.
Satt best að segja er ég orðin þreytt á þessu. Ég nenni ekki að hlusta á þessa eilífu gagnrýni. Lífskúnsterar eru ekki til. Þeir eru bara sjálfskipaðir hottintottar. Ég ætla því að gerast minn eigin snillingur. Ég ætla að að dekra börnin mín áfram af minni alkunnu snilld. Ég ætla líka að hlúa áfram að þeirri hæfni minni að vera óskipulögð og vera neikvæð á köflum. Og bölsýn. Og hrokann ætla ég að taka með annarri hendi takk fyrir. Barlómurinn verður áfram á sínum stað ásamt samviskubitinu og kvíðanum. Því ég er sko snillingur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.