24.1.2011 | 11:49
Óður til yndislegra ríkisstarfsmanna
Í erfiðleikum kreppuáranna er gagnrýni meira metin en lof. Og er undirrituð engin undantekning frá því. Hið opinbera er andsetið og reynir helst að gera okkur allt til miska. Er viðkvæðið. Sei sei já. En vegna þess að undirrituð trúir á jafnvægi í kosmósinu (og hinn helga dúett yin og yang) þá er nauðsynlegt að benda á jákvæðar upplifanir einnig.
Ég elska tollstjóra. Og allt hans fólk. Takk fyrir túkall. Vegna endalausra tekjuskattsskulda (þ.e. verktakatekjur fyrst þið viljið endilega vita það) á ég orðið heimangengt í hýbýlum tollstjóra. Og fer alltaf til uppáhaldskonunnar minnar þar. Og sem um þessa djöfulsins skuld. Og geng ætíð burt með bros á vör. Því þessi kona er svo yndisleg. Eins og allt fólkið þarna inni. Hún er alltaf til í að sveigja og beygja allt kerfið bara til þess að smáa ég nái endum saman. Ég fór til hennar í morgun. Með smá kvíðahnút í maga. Í fyrra borgaði ég xx þúsund krónur aukalega á mánuði í skatt, sem var satt best að segja að sliga mig. Og ákvað því að reyna að ná þessari afborgun niður. Ég setti því á mig varalit (virkar einnig á konur) og kíkti í heimsókn til til sæta tollstjórafólksins í morgun. Þar settist ég niður og sagði þessi gullvægu orð (sem virka alls staðar btw): "ég er ekki að ná endum saman og væri því afar þakklát ef hægt væri að lækka upphæðina eitthvað en skil samt MJÖG vel ef engar heimildir eru fyrir því."Og viti menn,upphæðin var lækkuð um helming.
Þetta er ekki eina dæmið um góðsemi opinberra starfsmanna í samfélagi okkar. Hvert sem ég fer mætir mér fólk sem sýnir mér skilning og tillitsemi. Og reyna á heimildir laga og reglna eins og hægt er til þess að draga úr slæmum áhrifum kreppunnar á peningaveskið. Enda eru þau vel flest í sömu súpunni ekki satt? Þau eru öll að hamast við að ná endum saman og þekkja þessa baráttu. Mér þætti það afar gefandi ef við gætum tekið höndum saman, sem almenningur í kjarabaráttunni, í stað þess að berjast svona innbyrðis. Útrásarvíkingar og fjárglæframenn græða á sundurleysi þjóðarinnar því það dregur úr áhuga okkar á afbrotum þeirra og orkunni til þess að draga þá til saka.
Sameinuð stöndum vér á vel við í þessu tilviki. Og í tilefni þess segi ég áfram ríkisstarfsmenn. Þið eruð best!
Ástarkveðja, snj.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.