Þorsteinn J. og konurnar

Þorsteinn J. hefur alltaf verið vinsæll hjá kvenþjóðinni. Einu sinni voru vinsældirnar mestmegnis rómantískar (þær eltu hann á börunum eftir skilnaðinn) en nú eru þær heiftúðugar (þ.e. bæði vinsældirnar og konurnar). Þar er Jafnréttisstofa fremst í flokki. Að sögn talsmanna (kvenna?) hennar fer Þorsteinn J. í bága við jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið þessa samfélags þar sem HM stofan skartar oftar en ekki körlum en konum (ég hef þó oft séð handboltakonu þarna en kannski er ég að rugla saman).

Þorsteinn J. svarar þessari gagnrýni á þann veg að hann velji í þáttinn eftir hæfni en ekki kyni. Og segir að kyn eigi ekki að ráða ferðinni á faglegum vettvangi sem þessum. Einnig hefur hann fullt ritstjórnarvald í þáttagerðinni og ræður því för, svona að mestu leyti. Þorsteinn, sem og aðrir, eru jafnframt þreyttir á ábendingum Jafnréttisstofu og vilja vinnufrið.

Ég skil Þorstein J. vel. Það er þreytandi þegar fólk pikkar í störf manns linnulaust á forsendum sem snerta hvorki handbragð né innihald.  Á hinn bóginn er ég einnig sympatísk gagnvart Jafnréttisstofu. Og skil ábendingar hennar vel. Líkt og Björg Magnúsdóttir segir i í pistli sínum á Pressunni, er það hlutverk Jafnréttisstofu að vera með ábendingar og tilmæli um það hvað má betur fara í stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Jafnréttisstofa er því ekki að "bögga" Þorstein J. sér til gamans heldur er hún einungis að sinna hlutverki sínu sem framvörður jafnréttis. Hvað sem okkur hinum kann að finnast um það. 

Ég trúi Þorsteini þegar hann segir að það sé fyrst og fremst faglegt mat hans sem ráði því hverjir veljast í HM stofurnar. Og ég stórefa að hann sé karlrembusvín. Á sama tíma finnst mér hann taktlaus. Og skammsýnn. Að sjálfsögðu myndi það gefa þessari dagskrárgerð meiri dýpt ef flóran í viðmælendahópnum væri meiri. Ef ég væri hann þá myndi ég tvímælalaust vera með fleiri konur í þættinum, einnig útlenda íþróttamenn og/eða fjörgamla handboltaleikmenn á eftirlaunum. Ég myndi einnig skipta gestum oftar út og jafnvel bregða á leik. Þessu til viðbótar væri skemmtilegt að brydda upp á þeirri nýjung að vera með leikmenn innanborðs en ekki fagmenn, þ.e. áhugamenn um handbolta sem hafa hvorki spilað hann né þjálfað. 

Þannig fyrirkomulag myndi án efa festa mig við skjáinn lengur en 3 mínútur í senn. . Enda er íþróttatengt dagskrárefni afþreying sem fólk horfir á sér til skemmtunar en ekki af skyldurækni. 

Ég ætlast þó ekki til þess að Þorsteinn J. gjörbreyti dagskrá sinni óforvarandis, án nokkurs undirbúnings. Það liggur mikil vinna að baki þessum þáttum og ekki hlaupið að því að breyta þeim. Ég skora þó á hann að gera þetta líflegra og skemmtilegra næst, og þá með fjölbreytileikann að leiðarljósi. Samfélaginu til heilla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband