25.1.2012 | 20:02
Heimalagaðar kartöfluskífur með aioli
Svona til þess að sýna fram á að mér sé ýmislegt annað til lista lagt en raka viðkvæma líkamshluta þá langaði mig til að deila með ykkur þessari þvílíku dásamlegu gúrme uppskrift af heimalöguðum kartöfluflögum og hvítlauksaioli (hvítlauksmajónes). Ég er nánast í tárum þetta er svo gott. En hérna koma herlegheitin.
Aioli er besta sósa sem hægt er að hugsa sér undir sólinni. Sérstaklega með frönskum og ísköldum bjór. Settu 2 stórar eggjarauður, 1 tsk pressaðan hvítlauk, 1/4 tsk borðsalt, nýmalaðan pipar og 1 msk nýkreistan sítrónusafa í matvinnsluvél eða blandara og þeyttu saman í nokkrar sekúndur. Síðan er 3/4 bolla af góðri olífuolíu hellt saman við smám saman. Best er að hafa olíuna í lítilli könnu með stút eða einhverju slíku til að auðvelda ísetninguna. Voilá! Markmiðið hér er að hella olíunni í hægum en stöðugum straumi út í eggjarauðublönduna. Þetta ferli tekur þó örskotsstund, eða um það bil 2-3 mínútur frá upphafi til enda. Svo er öllum að sjálfsögðu frjálst að bæta smátt söxuðu basil eða öðru kryddi útí en sósan er líka stórkostleg eins og hún er.
Skrældu nokkrar meðalstórar kartöflur og skerðu í örþunnar sneiðar með ostaskera. Legðu skornar sneiðarnar í kalt vatn á meðan þú klárar að skræla kartöflurnar. Settu olíu í pott (magn er smekksatriði en ég miða við að hún nái nokkra sentimetra upp barmana) og hitaðu við meðalhita þar til olían fer að snarka. Sigtaðu vatnið frá kartöflunum og settu þær í heita olíuna í skömmtum. Nauðsynlegt er að standa við pottinn með vakandi auga svo kartöflurnar brenni ekki. Tilbúnar flögurnar eru svo settar á eldhúspappír og saltaðar með grófu salti eða kartöflukryddi. Best er að bíða með að snæða þær í nokkrar mínútur en biðlundin veltur þó á græðgi.
Svo skaltu dýfa flögunum í aioli sósuna og finna hamingjuna streyma um líkamann. Bon appetit!
Athugasemdir
mikið gasalega líst mér vel á þetta
Sigrún fjóla hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 17:09
Takk darling
snj (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 22:44
Þér er allt til lista lagt, prinsessa.
Helga Kristjánsdóttir, 27.1.2012 kl. 03:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.