Karlar og konur, Mars og Venus, stjörnustríð og heimsendir.

Ég var að ákveða, svona rétt í þessu, að byrja að blogga aftur. Og þá ekki um stjórnmál, ekki vil ég feta þá oftroðnu slóð, heldur um samskipti kynjanna. Þau mál eru mér einkar hugleikin, enda ekki furða þar sem ég er búin að vera í (og enda) fjórum alvarlegum samböndum, þ.á.m. hjónabandi og sambúð. Það segir sig sjálft býst ég við að kvenmaður sem eyðir ævinni í að hefja sambönd og slíta þeim, hafi áhuga á þessu fyrirbæri sem samskipti kynjanna eru.

Ákvörðun númer 2 er sú að hætta að hætta í samböndum. Takk fyrir túkall. Í þessum vitfirringsgangi sem einkennir fjögur sambandslit hef ég upplifað þá þversagnakenndu staðreynd að það að vera í sambandi er góður og heilbrigður lífsstíll.  Það er dásamlegt að eiga lífsförunaut, hversu ófullkominn sem hann nú er. Galdurinn er, að ég held, sá að hlúa að eigin hamingju, en ekki hamingju lífsförunautarins.  Nú hleypir örugglega einhver í brúnirnar og hugsar með sér: hvílíkur fáviti er þess kona. Veit hún ekki að hamingja annarra á að vera forgangur hvers manns (eða konu)? Ég hleypi barasta í brúnirnar til baka og segi: neihei! Fólk sem hlúir að hamingju annarra hefur oftast nær fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvað EIGI að gera makann hamingjusaman. Og á grundvelli þess, er makinn nánast píndur í átt að hamingjuveginum sem er hinum helmingnum samboðinn. Tilraunin til þess að bæta lífsskilyrði annarra er því yfirleitt dulið (og afar öflugt) stjórntæki.

Konur leika hér iðulega aðalhlutverkið. Í bómyndinni "hvernig er best að efla og bæta samband karls og konu," leika konur aðalhlutverkin ásamt því að semja handrit og leikstýra. Karlarnir annaðhvort fylgja með mótþróalaust, og öðlast viðurkenningu kvennanna fyrir vikið, eða gera uppsteyt og sjá fram á ævilanga útskúfun. Þeir karlar, sem eru svo séðir að vera hvorki fylgjendur né uppreisnarmenn, eru menn sem ekkert er ómögulegt.  

Ég læt staðar numið í bili en framhald kemur innan tíðar (miðað við ástríðu höfundar gæti framhaldið komið eftir ca. hálftíma!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Svandís.

Mér líkar við upphafið á hugsanalestinni þinni - hlakka til að lesa áfram :)

Kveðja, Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband