6.12.2009 | 17:07
Hlutverk kynjanna í ástinni
Ég tel að konur beri meiri ábyrgð á samskiptum karla og kvenna en karlar. Og hana nú. Rökin eru margþætt (eins og alltaf) en þó má koma auga á rauðan þráð sem glittir hjá öllum þeirra: flestar konur eru betri í samskiptum en karlar almennt (þó ekki allir karlar). Ekki nóg með að við eigum auðveldara með að túlka og tjá tilfinningar heldur viljum við ræða þær fram og til baka, aftur á bak og áfram, til vinstri og hægri. Konur á flestum stöðum mannlífsins (enn og aftur, þetta er ekki alhæfing) verja miklum tíma í að ræða tilfinningar sínar. Við spjöllum við samstarfskonur um yfirmanninn, og jafnvel einstaka starfsfélaga, og berum undir þær hina ýmsu atburði, hvað þetta eða hitt þýðir, hvað ætli hann hafi átt við þegar hann sagði....bla. Síðan förum við heim og hringjum í nánar vinkonur okkar. Rekjum fyrir þeim málefni dagsins, hvað finnst þér um þetta? Á ég að taka þessu persónulega? Finnst þér hann (yfirmaðurinn) ekki svolítið félagslega fatlaður? Ég meina, hver segir svona hluti? Svo andvörpum við mæðulega og hristum hausinn. Við ræðum um íþróttaþjálfara barnanna, hvort þeir sé nógu uppbyggjandi og gefandi. Við viljum að sjálfsögðu að öll dýrin í skóginum (þ.e. börnin í íþróttaskóginum) séu góðir hver við annan og að öll börnin fái að njóta sín. Og fleira og fleira. Konur, þið þekkið þetta!
Ekkert af þessu jafnast þó á við samræður kvenna um karlmenn. Þá sérstaklega nýja kærasta. Ef guð er til, þá er ég viss um að hann sér gríðarlega eftir því að gætt konuna þessum tímafreka eiginleika. Tíminn sem fer í vangaveltur um karlmennina í lífi okkar er örugglega ein af ástæðunum fyrir þessum óskýrða launamuni kynjanna (ég væri t.d. löngu búin með doktorsritgerðina mína og aðra til ef þessir karlmenn væru ekki alltaf í huga mér!) Til að mynda röbbum við vinkonurnar um karlmennina í lífi okkar þar til verðum bláar í framan og hættum ekki fyrr en við neyðumst til þess vegna súrefnisskorts.
En þá er það mál málanna. Mannfræðingur einn í Bandaríkjunum, kona sem vann í akademíunni stóran hluta ævi sinnar og stúderar konur sérstaklega, langaði til þess að finna einhverjar heimildir um það hvernig samskipti kynjanna voru á forsögulegum tímum (öööö, metnaðarfullt já). Hún dvaldi hjá einhverjum ættbálki á Papua Nýju Gíneu (er þetta rétt skrifað?) en fólkið þar er talið afar frumstætt og því ágætis heimild um samskipti og samfélag á forsögulegum tímum. Jæja, mannfræðingurinn fylgdist með konum og körlum, í leik og starfi. Konurnar voru ALLTAF umkringdar börnum (heilum hrúgum skilst mér) og öðrum konum. Systur, mæður, tengdamæður og vinkonur blöðruðu linnulaust allan daginn. Þær þvoðu þvott í sameiningu (ekkert me time þarna), þær elduðu í sameiningu, þær týndu jurtir í sameiningu.
Karlarnir, þó þeir væru líka oft í hópum, töluðu langtum minna. Þeir fullyrtu eitthvað og það var rætt í 2 mínútur. Þögn næsta klukkutímann. Þá kom annar maður með athugasemd. Það var rætt í 1 mínútu og svo mætti lengi telja. Þeir voru einnig miklu líklegri en konurnar til þess að skreppa frá þó aldrei einhverjar langar vegalengdir. Mannfræðingurinn komst þar af leiðandi að þeirri niðurstöðu að hópatengsl og samræður væru konum eiginlegri en körlum (hún hefur ekki nokkurn áhuga á eiginleikum karla). Og eftir stendur spurningin: eru þetta genetískir eiginleikar eða lærð hegðun? Blanda af báðu segir mannfræðingurinn og styð ég það (svona sem leikmaður).
Pönslænið er þó þetta: það skiptir ekki máli hvort þessir eiginleikar eru genetískir eður ei. Þeir eru þarna hvort eð er. Punktur. Að sögn mannfræðingsins þurfum við því að læra að lifa með þeim. Konur þurfa að átta sig á því að karlmenn eru EKKI konur. Þær verða að átta sig á því að karlmenn munu aldrei hafa ánægju af því að ræða tilfinningaleg málefni (s.s. where is this going?) og munu aldrei hætta að segja ranga hluti á röngum tíma. En mannfræðingurinn fékk svo mikinn tremma yfir þessari uppgötvun sinni að hún hætti að prófessorast og gerðist hjónabandsráðgjafi. Þar kennir hún konum þessi vísindi og að hennar sögn fara hjónaböndin að blómstra í kjölfarið af því. En það sem merkilegra er að kona sem hefur tileinkað sér þessar hugmyndir hættir að túlka smsin og tölvupóstana sem hún fær frá karlmönnunum í lífi sínu og hefur þar af leiðandi ógrynnin öll af aukatíma og aukaorku sem hægt væri að nýta til vinnu (ég vildi óska að ég hefði rekist á þessa konu á meðan ég var í doktorsritgerðarstuði), stjórnmála, félagsmála o.s.frv.
Og þetta hef ég reynt og upplifað. Ég tala þó enn linnulaust í símann en það er önnur saga. Næst fáið þið dæmisögu úr mínu eigin lífi (úúú, spennandi!).
Athugasemdir
hehehe .. ég kannast ekkert við þetta? Ég kannast heldur ekki við að tala við þig í símann ;)
Hrefna (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.