25.12.2009 | 20:49
Jólaperrar
8 ára gamall sonur minn veit sannleikann um jólasveininn. Og sannleikann um jólin líka (þau eru bisness).
Eldri systir hans (ævagömul, 17 ára) trúði í blindni á jólasveina og tannálfa. Þetta var eins og eldheitt ástarsamband á milli þeirra þriggja, hennar, jólasveinsins og tannálfsins. Hún ljómaði í framan þegar minnst var á jólasveina, þeir eru svo góðir sagði hún og elska börn. Sérstaklega stelpur (say what!). Hún skrifaði bréf til jólasveinsins og hreindýranna hans (sem bandarísk amma hennar var afar dugleg við). Skildi eftir mjólk og smákökur handa sveininum og gulrætur handa hreindýrunum. Síðan kepptist veslings amman við að þamba mjólkina og borða kökurnar áður en barnið vaknaði. Svona gekk þetta árum saman.
Þegar Helena var 10 ára, þá kom hún einn daginn heim úr skólanum (á Íslandi) og sagði við mig þungbúin á svip: ,,mamma, ég þarf að spyrja þig að dálitlu og ef þú skrökvar að mér þá mun ég öskra." Eins og gefur að skilja hrökk móðurinni í kút við þennan þunga undirtón og settist alvörugefin niður í sömu andrá. Hvað viltu vita? spurði ég. Er jólasveinninn til? Spurði barnið. Nei sagði ég. Hann er ekki til og hefur aldrei verið til. Sjokkerað barnið leit á mig og sagði: eruð þið búin að vera að ljúga og ljúga og ljúga alla mína ævi?! En hvað með tannálfinn? Er hann ekki heldur til? Nei sagði ég skömmustuleg. Hann er ekki til. Og við það fór stelpan að gráta. Ég mun aldrei gleyma svipnum á krakkanum, en á sama tíma áttaði ég mig einnig á því hvað þetta er ömurlegur siður. Allt samfélagið tekur höndum saman við að halda á lofti mestu lygasögu allra tíma. Og lygasagan gengur lengra en kristin trú gerir í tilraun sinni við að halda kristni í heiminum. Þeir sem eru ekki kristnir hafa þó þann möguleika að geta sagt; nei ég trúi ekki á Jesú (eða guð eða báða). En þegar kemur að jólasveininum, eru engar leiðir út. Það má ekki segja opinberlega (t.d. í búðum) að maður trúi ekki á jólasveininn. Sá sem það gerir er húðstrýktur á götum úti eða hengdur í hæsta gálga.
Þegar ég eignaðist yngra barnið mitt var ég ofboðslega óviss um það hvað ég ætti að gera við þessa barnatrú. Ég óttaðist gálgann það mikið að ég kenndi honum að sveinki væri sætur og hress og hefði unun af því að arka alla leið frá Esjurótum um hávetur með poka fullan af gjöfum til þess að gefa sofandi börnum (hljómar perralega svo ekki sé meira sagt). Barnið hafði óbeit á þessum feita hóandi manni með skeggið. Hann fór alltaf að gráta um leið og sveinki birtist. Og refsing mín fyrir að endurtaka lygasöguna var sú að eignast mesta efasemdarbarn sem ég hef á ævinni kynnst. Hann er eins lítið fyrir jólasveina og dóttirin var fyrir þá. Alltaf kíkti hann ofan í skóinn með þetta undarlega blik í augunum, svona tortryggið efasemdarblik sem var við það að taka mig á taugum. Svo bunuðu á mér spurningarnar: hvernig kemst hann inn? hvernig veit hann að það er bara eitt barn hérna? afhverju er hann svona feitur? afhverju fer hann ekki að heiman? afhverju hefur hann efni á hreindýrum í Ameríku en ekki á Íslandi? Afhverju ganga þeir ekki saman allir bræðurnir í staðinn fyrir að tölta þetta einn og einn?
Kæru vinir, þetta var martröð. Svo gafst ég upp um jólin í fyrra. ég hafði verið í feykigóðum félagsskap um kvöldið (þar sem þetta var m.a. sagt) og þegar ég kom heim þá mætti mér martröðin sjálf (en ekki hvað). Sonur minn sat úrillur uppi í rúmi og sagði við mig að honum þætti nú furðulegt hvað jólasveinninn verslaði mikið á bensínstöðinni okkar. og ég gafst upp. Ég sagði honum sem svar að móðurkindin hans hefði verið á þönum árum saman við að persónugera jólasvein. Drengnum létti mikið og varð ákaflega ánægður með móður sína fyrir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Honum fannst ég einnig hafa staðið mig frekar illa í þessum leik en klikkti svo út með þessum ódauðlegu orðum: mér finnst jólasveinninn svo krípí, hann er svo fáránlega glaður og feitur.
ég vona að allar heimsins vættir munu gefa mér styrk til þess að endurtaka leikinn EKKI ef til þriðja barnsins kæmi.
ástarkveðja
SNJ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.