Ástir kynjanna, myrkfælni og draugagangur

....já ég veit. Ansi dramatískur titill hér. Vísar til þess að ég er ein í myrkri íbúð og er myrkfælin með afbrigðum. Kvíði fyrir því að fara að sofa en tel í mig kjarkinn með því að blogga um uppáhaldsefnið mitt: samskipti karla og kvenna.

Minn yndislegi Hómer (áttræður bandarískur sálfræðingur) sagði einu sinni að konur þyrftu svolítið að sleppa "zero- tolerance" aðferðinni í glímunni við eiginmennina og taka upp svonefnda "harm-reduction" aðferð. Báðar þessar aðferðir (eða hugtök öllu heldur) hafa mikla þýðingu í afbrotafræðinni og vísa þá til þess að í staðinn fyrir það að reyna að útrýma athæfi sem er og verður alltaf til er skynsamlegra að draga úr meiðandi áhrifum þess (þ.e. athæfisins). Skýrasta dæmið um þetta er hin gamalkunna barátta Bandaríkjamanna gegnum eiturlyfjum og eiturlyfjaneyslu. Mig minnir að það hafi verið Ronald Reagan sem skar upp herör gegn eiturlyfjum og sendi úr hlaði hið svokallaða "war on drugs." Einkunnarorð þessa stríðs voru zero tolerance. Refsað var grimmilega fyrir alla neyslu og sölu á eiturlyfjum, fíklum hent út úr skýlum og athvörfum og helst komið fyrir í fangelsi.

Þessi aðferð varð mjög umdeild og vildu margir meina (og vilja enn) að afleiðingar eiturlyfjavandans yrðu umfangsmeiri í kjölfarið. Sagt var að harm reduction væri langtum gagnlegri en dæmi um slíka aðferð er t.d. þegar félagsráðgjafar útdeildu hreinum nálum meðal fíkla til þess að draga úr sjúkdómum (þá sérstaklega alnæmi) en dauðveikir fíklar eru samfélaginu dýrari en aðrir fíklar.

Hómer sálfræðingur vill meina að þessi harm reduction aðferð í hjónaböndum (og samskiptum kynjanna yfirhöfuð) sé eina leiðin til þess að efla og auka hamingju fólks í hjónaböndum. Sem dæmi um þetta þá benti hann mér á að í staðinn fyrir það að verða alltaf fyrir svo miklum vonbrigðum þegar þáverandi eiginmaður gleymdi afmælisdögum og brúðkaupsafmælisdögum væri að minna eiginmanninn á merkisdagana, deginum áður. Mín fyrstu viðbrögð voru sjokk. Er maðurinn galinn? Á ég semsagt að viðurkenna og sætta mig við það að manngarmurinn nennir ekki að leggja á sig að muna eftir þessum dögum? Svar Hómers var á þá leið að maðurinn væri ekki að gleyma þessu að gamni sínu (refsingin við gleymskunni er svo rosaleg að enginn maður nema masókisti gengi viljandi í þá gryfju) heldur væri þetta eitthvað sem karlar ættu mjög erfitt með að muna yfirhöfuð. Hann sagði jafnframt að karlar væru ekki víraðir til svona hluta og því þurfa mennirnir sem muna eftir þessu að leggja á sig mikla vinnu til þess.

Lokapunktur Hómers var síðan sá að ef konur myndu sjálfar taka að sér að minna mennina sína á þetta þá þyrftu þær ekki að ganga í gegnum þessi kvalafullu vonbrigði ár eftir ár. Þetta sat í mér.  Daginn fyrir næsta afmælisdag minn setti ég svona gulan post it miða á tösku eiginmannsins þar sem stóð að konan hans ætti afmæli daginn eftir.  Og þetta varð besti afmælisdagurinn í mínu lífi. Maðurinn varð svo þakklátur þessu að hann fór algjörlega framúr sér í afmælisfjöri og ástin blómstraði sem aldrei fyrr. Núna myndi ég aldrei gera annað. Og ég myndi jafnvel ganga svo langt að hringja í manninn (eða hnippa í hann) á sjálfum afmælisdeginum til þess að minna hann á mig. Allt gert til þess að útiloka hin hræðilegu vonbrigði. Enda er það á okkar ábyrgð er það ekki? Ef ég vil fá afmælisóskir og afmælisfjör er þá ekki eðlilegra að ég sækist eftir því sjálf? Segi bara: halló hér er ég, og gefðu mér nú svaka knús!

En það er engin ástæða til þess að stöðva þarna. Konan sem upplifir það að karlinn hennar veiti henni ekki nægjanlega athygli ætti frekar að ganga að honum og segja brosandi að hún þrái faðmlag og smá kelerí heldur en að skella hurðum og fara í fýlu. Konan sem á erfitt með að skemmta sér með manninum sínum ætti að stinga upp á því að þau myndu skemmta sér oftar í sitthvoru lagi, svona í stað þess að tuða um þetta ár eftir ár.

Konan sem kvartar yfir því að maðurinn hennar sé svo utan við sig og annars hugar þegar hann kemur heim úr vinnu (hvaða kona þekkir þetta ekki?)  ætti að hvetja manninn til þess að byrja á því að slappa af og fara í tölvuna um leið og hann kemur heim í ca. hálftíma eða svo, en koma svo til hennar með fulla athygli.

Þetta finnst mörgum konum fáránlegt. Sumar segja að þessar aðferðir eru of karllægar og snúast of mikið um hamingju karlanna. Hómer hinsvegar, benti á hið gagnstæða. Hann segir að þetta sé einmitt fyrir konurnar. Þær verða hamingjusamari og verða sjaldnar fyrir vonbrigðum en ella.

Almáttugur hvað ég er fylgjandi þessu. Líf mitt og margra kvenna í samböndum er búið að vera ein vonbrigðaganga. Við eyðum mörgum dögum samtals á ári í að ræða þetta við vinkonurnar, hugsa þetta með okkur sjálfum, rífast við mennina í huganum. Ég er búin að ákveða að segja stopp. Nú ætla ég að njóta karlmannanna í lífi mínu í stað þess að liggja í kör.

með friði og ást kveð ég í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

svei mér þá. það finnast þá skynsamar konur  hahaha

Brjánn Guðjónsson, 13.1.2010 kl. 19:24

2 Smámynd: Svandís Nína Jónsdóttir

jájá, heill haugur til af þeim!

Svandís Nína Jónsdóttir, 13.1.2010 kl. 20:01

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skulum ekki missa okkur, fáeinar

Brjánn Guðjónsson, 13.1.2010 kl. 22:40

4 Smámynd: Svandís Nína Jónsdóttir

ho ho ho

Svandís Nína Jónsdóttir, 14.1.2010 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband