Kvennamagasínið

Kona sem ég met mikils talar oft og mikið um kvennamagasínið. En það vísar sumsé í hið óáþreifanlega kvennabandalag sem liggur þvert á stétt og stöðu, pólitík, tíma og rúm. Það sem einkennir kvennamagasínið er umvöndun. Það þarf að vanda um fyrir börnum, það þarf að vanda um fyrir körlum og það þarf að vanda um fyrir konum sem stíga út af breiða kvennabandalagsveginum.

Konurnar viðhalda samstöðunni á milli sín í saumaklúbbum, á vinnustöðum, í íþróttafélögunum (sem umhyggjusamar mæður) í foreldrafélögum grunnskólanna og í nágrannavörslunni. Þessar konur horfa í kringum sig fránum augum og leita að misfellum í heimsmyndinni. Af sínum alkunna metnaði hafa þessar konur lagt sérstaka áherslu á karlmenn í umvöndun sinni. Karlmenn eru jú vitlausir, kunna fátt, drekka óhóflega, klæða börnin í skammarleg föt (vissuð þið ekki af þessu dress kódi fyrir ungabörn?) og vilja bara liggja útaf, horfa á fótbolta og ropa.

Skýrt dæmi um þetta eru allir gamanþættirnir. Mömmurnar eru sætar en yfirmáta stjórnsamar og mennirnir barnalegir fávitar sem reyna að brjótast undan ægivaldi eiginkvennanna en mistekst alltaf. Þetta á ekki bara við um bandaríska þætti. Danski gamanþátturinn Klovn ber eiginlega höfuð og herðar yfir þá bandarísku. Vesalings mennirnir þar, Frank og Casper (eða var það Jasper?) búa nánast við ofríki á heimilum sínum. Frank þarf að byggja fuglahús í garðinum til þess að fela áfengisflöskuna í, dröslast með frúnni í búðir (hvaða masókismi er það að draga karlmann með sér í búðir?! Frekar kysi ég vinkonu til þess!) og þykjast vera félagsleg mannvitsbrekka. Enda lendir hann í vanda í hverjum einasta þætti og oftar en ekki endar þetta þannig að Mia og einhverjir  nágrannar eða fjölskyldumeðlimir standa úti á götu og skammast í Frank sem horfir niðurlútur niður fyrir sig og borar tánum í sandinn.

Áðan var ég að horfa á Monster in law með sautján ára gamalli dóttur minni (afar leiðinleg mynd reyndar en það er önnur saga). Í myndinni er fjallað um þessa gamalkunnu baráttu tengdamóður og tengdadóttur. Og um hvað eru þær að berjast? Jú, eiginmanninn/soninn. Unnustunni í myndinni finnst tengdamamman hringja of oft í soninn. Tengdamömmunni verðandi finnst unnusta sonarins ekki vera honum samboðin. Og því heyja þær stríð, án þess að hafa nokkurn áhuga á því að vita hvað veslings manninum fynndist um þetta. Eftir eina og hálfa klukkustund af þessum ófögnuði lýkur myndinni á hjartnæman hátt þar sem tengdamóðirin lætur vopnin síga og samþykkir með semingi skilmála unnustunnar. Einn skilmálanna var til dæmis sá að móðirin fengi bara að hringja í soninn einu sinni á dag. Var sonurinn spurður álits? Aldeilis ekki. Það sem hrelldi mig þó var ekki endilega endirinn heldur viðbrögð dótturinnar. Hún fékk tár í augun, sagði aawww og talaði fjálglega um umburðarlyndi og fyrirgefningu tengdadótturinnar. Ég spurði hana hvað henni hefði þótt svona sætt og krúttlegt og hún sagði að það væri sá kærleikur tengdadótturinnar að leyfa tengdó að hringja í son sinn einu sinni á dag. Jahá. Það var nefnilega það. Ég spurði dótturina að sjálfsögðu afhverju það væri ekki mál sonarins hversu oft hann talaði við móður sína. Hún sagði að það væri vegna þess að konur eru svo frekar! Haha, ég fékk hláturskast.

Kvennamagasínið leitast við að viðhalda sjálfu sér. Femin.is er ein slík viðleitni. Saumaklúbbar önnur. Á þessum vettvangi endurnýjar kvennamagasínið krafta sína. Konur eiga að vera uppteknar af a) útlitinu og b) uppeldi karla.

En það sem er athyglisverðast við þetta er tvískinnungurinn. Á sama tíma og kvennamagasínið leggur áherslu á að konur séu hefðbundnar þá eru ströng viðurlög við því að hugsa "of vel" um karla. Ég áttaði mig á þessu fyrir lifandis löngu. Í BA náminu leigði ég íbúð með vinkonu minni elskulegri. Við hlúðum afar vel að hvor annarri. Í nokkur skipti kom hún seint heim en mætti beint í mat sem ég hafði haldið heitum fyrir hana. Allar vinkonur okkar héðan og þaðan urðu mállausar af hrifningu þegar þær heyrðu af þessu. Bravó fyrir SNJ. Að vera svona góð við vinkonu sína. Og ég fékk vitrun. Á meðan það er virðingarvert að hlúa að vinkonu sinni, eða annarri konu, er BANNAÐ að hlúa að karlmönnum (reyndar er umhyggjan kölluð dekur þegar karlmenn eiga í hlut). Þetta fannst mér afar merkilegt.

Stuttu seinna giftist ég þáverandi eiginmanni. Og ég hélt uppteknum hætti. Ég hugsaði vel um hann og hann hugsaði vel um mig. Þar sem hann vann langa vinnudaga var ég búin að elda áður en ég fór eitthvert á kvöldin og beið maturinn tilbúinn. Nákvæmlega sömu aðstæður og áður nema hvað að í þetta skiptið fékk ekki hrós og æi og awww frá kynsystrum mínum. Nema síður sé. Sumar höfðu reyndar áhyggjur af þessu og óttuðust helst að eiginmaðurinn gæti vanist þessu. Og það, að sjálfsögðu, væri ekki gott.

Ég er orðin leið á þessu. Mér finnast konur leiðinlegar við karlmenn. Og ég held það sé kominn til að konur hætti að vanda um fyrir karlmönnum og fari að lifa eigin lífi.

Over and out

snj


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband