Til allra karlmanna nær og fjær

Almáttugur hvað við konur höfum verið á miklum villigötum í afstöðu okkar til karlmanna. Það hefur smám saman verið að renna upp fyrir mér ljós að þessi bölvaða sýn um riddarann á hvíta hestinum er búin að eyðileggja ástarlíf kvenna (og þá væntanlega karla líka) um langa hríð. AFAR langa hríð.

Vandinn sem helst tengist knapanum á hvíta hestinum (ég hef reyndar aldrei skilið afhverju hesturinn er alltaf hvítur - en sennilega væri ósexý að segja riddarinn á leirljósa hestinum, eða riddarinn á skjótta hestinum) er EKKI fólginn í því sem flestir myndu halda: að riddarinn væri bjargvættur í útópíunni og að bjargvættir væru ekki til. Sem er bull, því bjargvættirnir eru úti um allt. Heimurinn er fullur af karlmönnum sem vilja "bjarga" konum. Vandinn liggur dýpra, miklu dýpra. Á einhvern undarlegan hátt hefur undirmeðvitund kvenna búið svo um hnútana að riddarinn á hvíta hestinum er ekki bara bjargvættur kvenna, heldur er hann rómantískur (samkvæmt mælikvarða kvenna), spilar á hörpu, og er óendanlega fær í að túlka og tjá tilfinningar sínar. Kannski var það Hollywood, kannski voru það mæður okkar (sem stundu í armæðu yfir þessum körlum daginn út og daginn inn), en hver svo sem ástæðan er, þá er hún byggð á sandi.

Konum hefur nefnilega verið talin trú um það að karlmenn geti verið jafn tilfinningansamir og þær. Vissulega eru til slíkir menn (samkvæmt öruggum heimildum eru þeir ljóðskáld og óstabílir rithöfundar), þó fáir séu. Og vissulega reyna margir óheiðarlegir menn við þetta hlutverk, rembast við að temja sér einhvern fagurgala sem þeir vita að konur heillast af. Sem þær og gera. Og verða að sjálfsögðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar hið "sanna" kemur í ljós.

Eitt dæmi. Fyrrverandi sambýlismaður (og einn af mínum bestu vinum í dag) er hefðbundinn, íslenskur karlmaður sem sagði ekki "I love you" á réttum tímapunktum. Mér er sérstaklega minnistætt hvað hann iðulega gerði þegar sambandið átti í erfiðleikum. Hann dró sig stundum inn í skel sína (sem ég túlkaði alltaf þannig að honum stæði á sama um mig) og vakti það alltaf með mér ákveðna sorg. Þegar hann áttaði sig á því hvernig í pottinn væri búið, samdi hann ekki handa mér ljóð né féll á kné á fótboltaleikvangi og gólaði ást sína. Ónei. Það sem hann gerði alltaf var að draga mig út í garð, eða upp á loft, og tíunda hvað hann langaði til þess að gera fyrir heimilið. Þá vildi hann æstur draga mig út í Húsasmiðju og kaupa girðingarefni eða málningu fyrir heimilisverkin. Ég stóð alltaf algjörlega gáttuð og fannst þessi maður gjörsamlega út úr kortinu. Er maðurinn galinn? Hugsaði ég með mér. Áttar hann sig ekki á því að sambandið stendur höllum fæti? Uuu, jú. Hann gerði það. Í dag átta ég mig á því að áhersla hans á viðhald heimilisins á þessum tímum, var hans ástarjátning til mín. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja til þess að láta mér líða betur. Þess í stað vildi hann sýna mér fram á að það væri alls ekkert fararsnið á honum, heldur vildi hann ólmur stuðla að því að ég lifði góðu lífi á heimilinu, með girðingu og nýmáluðum veggjum. Við skildum nú samt (ekki út af þessu þó) sem var okkur fyrir bestu enda erum við afar góðir vinir í dag. En seinna rann upp fyrir mér ljós. Alvöru karlmenn, sem þykjast ekki vera annað en þeir eru, eru klaufskir í því að játa ást sína eða gera eitthvað textbókarlega rómantískt. Í staðinn játa þeir ást sína á annan hátt, til dæmis með því að gera eitthvað fyrir konurnar sínar. Eitthvað praktískt.

Ég hef að minnsta kosti lært að meta karlmenn út frá því sem þeir eru. Og því sem þeir eru færir um. Og ef við myndum opna augun þá myndum við taka eftir og læra að meta allar ástarjátningarnar sem þeir tjá á hverjum degi, með sínum hætti.

Í dag forðast ég menn með fagurgala. Ég tæki karlmann með "tilfinningablokk" mörgum sinnum fram yfir hinn aulann, sem notar fagurgala til þess að breiða yfir það hvað hann er glataður. Riddarinn er því ennþá til, en hann er ærið hrjúfur.

Amen.

SNJ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband