Ég er ekki femínisti.

Og nú skal ég segja ykkur afhverju (í einfaldaðri mynd).  Í hvert sinn sem ég tek þátt í umræðum (og það oft ansi heitum) um femínisma eða réttindi og stöðu kvenna almennt, er ég talin vera femínisti. Vegna þess að ég hef áhuga á konum og áhuga á stöðu þeirra í samfélaginu. Fólk hefur reynt að spyrða mig við allskyns afbrigði af femínisma, og stundum eru ismarnir nánast búnir til á staðnum. Og afhverju? Jú vegna þess að femínismi í daglegri umræðu er allt undir sólinni. Nánast allar konur sem láta sig aðrar konur varða eru femínistar af einhverri sortinni.

Í raun getur hvaða kona sem er haldið því fram að eiginkonur eigi að leggjast á bakið fyrir mennina sína, en samt talið sig vera femínista. „Ég er bara svona gamaldags femínisti“  get ég ímyndað mér að slík kona myndi segja.

Sama hvaða mynd fólk dregur upp af femínisma þá er mín skoðun sú að femínismi sé fyrst og fremst pólitísk hugmyndafræði. Líkt og ein fræðikona segir ,,feminism is politics,“ en það minnir óneitanlega á annan femíniskan frasa ,,the personal is political.“  

Þessir frasar endurspegla það sem femínistar vita: ef kynjajafnréttið á að vera algert (hvernig svo sem algert er skilgreint) þá þarf meiriháttar stjórnkerfisbreyting að koma til. Og treystið mér þegar ég segi meiriháttar. Til að mynda þyrfti að stokka upp verkaskiptingu heimilanna algjörlega og einnig umbylta öllu umönnunarkerfinu sem okkar nútíma samfélag býr við.

Það sem femínistar vita (en almenningur síður) er að svona uppstokkun krefst endurskoðunar allra laga og reglugerða stjórnkerfisins samhliða endurskoðun á því hvaða áhrif lög og reglugerðir hafa þegar út í samfélagið er komið.

Tökum dæmi. Eins og flestir vita eiga foreldrar af báðum kynjum rétt á 7 veikindadögum vegna barna á ári, þ.e. 14 daga samtals (er þetta ennþá svona?). Ekki í neinni opinberri stofnun á landinu eru þessir dagar taldir (og ekki í mörgum fyrirtækjum heldur, að mér skilst).  Foreldrar (lesist: mæður) taka þá veikindadaga sem þeir þurfa. Vegna þessa hefur sú hefð að mæður verji fleiri veikindadögum en feður heima með veikum börnum sínum, verið afar lífseig. Ef markmiðið er t.d. að breyta þessu á innan við hundrað árum (eða 1000) þarf einbeittur vilji stjórnkerfisins að koma til. Að öllum líkindum þyrftu vinnuveitendur þá að telja veikindadaga starfsmanna sinna, líkt og gert er með orlofsdaga, til að hvetja báða foreldra til þess að sinna þessu ummönnunarhlutverki (en ekki einu sinni þetta myndi duga til).

Það er hæpið að þessar breytingar (eða uppstokkanir) myndu gerast af sjálfu sér (þ.e. á innan við 100 árum) vegna þess að sumar mæður hreinlega VILJA vera heima með veikum börnum sínum. Alltaf. Og margir feður hreinlega VILJA EKKI (eða segjast ekki komast frá) vera heima með veikum börnum sínum. Sumsé, stjórnsýslubreyting yrði að koma til.

Sambærileg dæmi og þetta eru mýmörg.  Lög og reglugerðir hafa alltof oft önnur áhrif en lagt var af stað með í upphafi. Þar af leiðandi get ég ekki litið á femínisma sem neitt annað en pólitíska hugmyndafræði.

Og það er tími til kominn að reisa þá hugmyndafræði til vegs og virðingar. Sem pólitískan valkost, líkt og vinstri eða hægri stefnur. Vegna þessa hafna ég því alfarið að femínismi sé allt það sem við viljum að hann sé. Að allt undir sólinni falli þar undir. Og það er af virðingu við þessa pólitísku hugmyndafræði að ég skilgreini mig ekki sem femínista.

Femínistar eru yfirleitt úthrópaðir sem aggressífar kerlingar, reiðar, ljótar og púkalegar, og margt fleira sem ég kýs að taka mér ekki í munn (eða í hönd). Sérstaklega ber á þeirri gagnrýni að þær séu svo átakasamar. En ekki hvað?

Gengur pólitík ekki út á átök? Er ágreiningur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki ofsafenginn á köflum? Eru Sjálfstæðismenn taldir vera bitrir og reiðir í því samhengi? (Eða ófullnægðir og fá ekki á broddinn?) Sjáiði Ögmund. Ekki er  hann ljúfur sem lamb. Svo mikið er víst.

Ergo= pólitískar hreyfingar eru og verða ætíð átakasamar.

Og þá erum við komin að kjarna málsins. Afhverju er ég ekki femínisti? Ástæðuna er að finna í umfjölluninni hér að ofan. Ég vil ekki gefa eftir minn stað á heimilinu. Mér finnst tilhugsunin um það alveg óbærilega sár. Og ég verð hrædd. Tilhugsunin er eins og fangelsisdómur, sem er öfugt við hugmyndafræði og markmið femínismans. Sama hvað ég reyni að tileinka mér þá hugmynd að í þessu sé frelsi mitt fólgið, þá ber ófrelsistilfinningin mig ofurliði. Mér finnst ég svo frjáls nú þegar.

Það myndi þó aldrei nægja mér að vera bara heima (með mjög ungt barn jú). Ég elska starfið mitt, ég elska að hitta fólk og ég elska andríki og froðusnakk. Og þvert ofan í það sem sumar konur segja, það er EKKI hægt að gera bæði. Það er ekki hægt að njóta fullkomins jafnréttis á við karlmenn OG taka á sig alla eða flesta veikindadaga vegna barna, vetrarfrí í skólum og svo framvegis.

Ég sæki ekki einu sinni um störf sem krefjast þess að maður sé alltaf til taks. Ekki á meðan ég á ungt barn. Og ef ég þarf að þola aðeins lægri laun vegna þessa, þá verður svo að vera. Þetta er mitt val og alfarið mitt. Og ég vil að það val sé virt að verðleikum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband