er friður í sálinni á yður?

Ég elska frið. Og átta mig alltaf betur og betur á því hvað ég er mikill friðarsinni.  Eða friðarfrekja öllu heldur. Og þá er ég ekki að tala um baráttuna gegn stríði í heiminum. Eða baráttuna fyrir friði. Nema síður sé. Ég krefst þess að það sé friður í kringum í mig. Svo ég vísi í orð mikilmennis (man ekki hvort það var Gandhi eða einhver álíka) ,,til þess að ná fram friði í heiminum þá þarf fyrst að ríkja friður í sálinni þinni.“

Vegna þessa tek ég ekki þátt í neinu stappi eða veseni í mínu lífi. Ég hjala í vinnunni og ég hjala heima. Þegar dóttir mín hringir í mig hundpirruð á yngri bróður sínum þá segi ég henni blíðlega að finna einhvern góðan flöt á málinu. Ég segi henni jafnframt að ég kýs mér líf án svona átaka og því verði hún að leysa málin án minnar hjálpar. Ég hef meira að segja sett eyrnatappa í eyrun í einni slíkri senu hjá þeim. Ef það er ekki ofbeldi við hönd eða ljótar persónulegar móðganir látnar falla, þá kemur mér þetta ekki við. Enda hefur dregið verulega úr þeirra átökum.

Nú gengur líf mitt út á að draga úr átökum. Lykillinn er auðvitað sá að ekki er hægt að berjast gegn ófriði með ófriði. Ekki satt? Um daginn datt mér snilldarráð í hug. Kannist þið ekki við fýluna og leiðindin sem stundum mæta foreldrum þegar þau eru nýkomin heim úr vinnunni? (Reyndar er það nú þannig að foreldrarnir eru sjálfir fýldir og leiðinlegir á þessum stundum). Ég kom heim og mætti fýlupúkum. Ég sagði ekki orð heldur gekk beint að heimabíóinu og setti tónlist á, frekar háa en samt þægilega. Skemmtilega, melódíska dægurtónlist sem flestir geta hlustað á. Áhrifin voru ótrúleg. Eftir örfáar mínútur var dóttirin farin að syngja með (ómeðvitað) og sonurinn að raula. Með glampa í augunum. Ég varð nánast orðlaus yfir þessum áhrifum. Þetta vil ég gera á hverjum degi, koma heim og setja tónlist á. Jafnvel eitthvað sem ég veit að þeim finnst skemmtilegt. Og andrúmsloftið gjörbreytist og verður mér að skapi.

Svo er annað sem mig langar til þess að deila með ykkur. Og það er regluverkið. Þetta leiðinda regluverk sem gerir fjölskyldulíf og foreldrahlutverkið oft svo erfitt. Margir foreldrar upplifa að til þess að vera fyrirmyndarforeldri þá þarf að fylgja ákveðinni uppskrift. Setja sig í hlutverk. Eitt dæmi um þetta er kvöldmáltíðin. Kvöldmatur er þá á ákveðnum tíma á hverju kvöldi og mikið umstang (og nöldur) í kringum hann. Þegar maturinn er til er gargað á heimilismenn sem koma misfljótt og veldur það pirringi hjá húsfreyjunni. Svo er tekið til við SAMRÆÐURNAR. Þessar heilögu samræður. Húsfreyjan gengur hringinn og spyr, hvernig var þinn dagur í dag? Og allir verða að svara. Því ef fjölskyldur ræða ekki saman yfir kvöldmatnum þá er það vísbending um það að fjölskylda viðkomandi sé flopp. Og húsráðendur ekki að standa sig. Það er því mikið í húfi.

Ég hef meðfæddan mótþróa gegn svona (og ljóstra þar með upp að ég er ekki alveg svona heilög í friðarumleitan minni eins og ég vil láta). Mér væri enginn friður í huga ef ég þyrfti að standa í svona stappi. En eitt kvöld í síðustu viku þá áttaði ég mig á því, svona óforvarendis, að mínar kvöldmáltíðir eru alltaf indælar án þessa regluverks. Ég kem heim, byrja að elda, ilminn læðir um húsið, legg matinn á borð og allir koma. Einfaldara gæti það ekki verið. Og það sem merkilega er að þau (krakkarnir) tala alltaf á þessum stundum. Í rauninni gerist það að sjálfu sér þegar þrjár manneskjur sitja saman við borð. En það væri líka alveg í lagi mín vegna að sleppa því. Stundum er ég sjálf ekkert sérstaklega ræðin. Og finnst þá best að borða fyrir framan sjónvarpið. Og þá segjum við ekki orð. Bara horfum. Og borðum. Og mér finnst það yndislegt.

Þessi pistill er óður til foreldranna þarna úti sem halda að þeir séu ekki til fyrirmyndar vegna þess að þeir vilja ekki leika sama hlutverkið og meginþorri almennings gerir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill og á erindi til margra. Rifrildri, nöldur og nagg er óþolandi og er til þess eins að valda streitu og vanlíðan. Mér finnst gott ráð að spila tónlist, hefur oftast jákvæð áhrif, bæði á mann sjálfan og þá sem eru í kringum mann, bæði börnin og maka. Alveg merkilegt hvað er oft mikil gleði og börnin/ungmennin afslappaðri þar sem reglur eru ekki að ganga fram af foreldrum og samskipti við maka betri. Reyndar held ég að það sé oft minna rifist á heimilum þar sem enginn er makinn, held að margt fólk taki reiðina og pirringinn út á akvæmunum.  Allavega er það svoleiðis á mínu heimili, ég og ungmennin, börn og þeirra viðhengi eigum virkilega góð samskipti, mikið spjallað, spekúlerað og hlegið. En það er ekki alltaf allt í röð og reglu eða matur á réttum tímum, væri alveg hægt að búa til hellings pirring ef vilji er fyrir hendi.  Annað mikilvægt er það hvernig við segjum hlutina, að tala fallega og aldrei niður til fólks, það er ósiður að mínu mati að æpa á börn, ýta þeim og skipa þeim. Held að það sé betra að sýna gott fordæmi og tala fallega og vera kurteis, maður getur alveg verið ákveðinn þó ekki sé öskrað og æpt.  Friðarkveðja, Jonna

Ragnheiður J. Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 10:28

2 identicon

þú ert yndisleg Jonna

snj (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 13:14

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Elsku frænka orðin ráðsett og reynd. Já tíminn stendur ekki í stað. Sendi ykkur öllum bestu kveðjur. 

Helga Kristjánsdóttir, 17.9.2010 kl. 19:16

4 identicon

alveg svakalega ráðsett og reynd! Eða nei, reynd jú en ekkert sérsaklega ráðsett. Ekki vissi ég að þú værir svona dugleg að blogga?

snj (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 22:35

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Sagði upp adsl. hjá símanum,er því að blogga hjá börnunum,þegar ég kem við´,þar til ég endurnýja. Ertu hætt að kenna í H.Í?,Enn eru nem. að læra stjórnmálafræði. KV.

Helga Kristjánsdóttir, 24.9.2010 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband