Mad Men - veröld hinna klikkuðu karlmanna

Ég er algjörlega dottin í Mad Men. Og þeir eru svo sannarlega mad. Það sem gerir þættina svona einstaklega áhugaverða (fyrir utan brilljant handrit og góðan leik) er sú mynd sem þeir draga upp af verkaskiptingu og hlutskipti kynjanna á eftirstríðsárunum í Bandaríkjunum.

Það sem gerir þáttaröðina svo sérstaka er að hún fjallar ekki um skarðan hlut kvenna. Ekki þannig. Hinsvegar dregur hún upp mynd af því hversu óeðlilegt það var manneskjunni að lifa í sitthvorri veröldinni. Karlar á einum stað (alltaf) og konur á öðrum stað (alltaf). Líkt og einhverjir fræðimenn hafa haldið fram þá er það alveg nýtt í mannkynssögunni að ein manneskja (kona) sé lokuð ein inni með börnum sínum daginn út og daginn inn. Þó svo konur hafi ætíð verið í umönnunnarhlutverkinu þá var nándin við aðrar konur (og verkafólk í tilviki bændafjölskyldnanna) alltaf mjög mikil. Og samvinnan líka. Til að mynda hef ég aðeins verið að glugga í íslenska kvennasögu (sem mér finnst svo heillandi) og þar kemur samvinnuþátturinn sterklega fram meðal bæði bændafjölskyldna og sjómannsfjölskyldna. En sjómannseiginkonur unnu húsverkin að nokkrum hluta saman og gættu barna í sameiningu. Tóku líka slátur o.s.frv.

Þó þessi umræða sé ekki ný er það alveg glænýtt að fjalla um óhamingju karlmanna í þessari veröld. Óhamingja karlmannanna í Mad Men þáttunum er ólýsanlega sár. Karlmennirnir eru alltaf í vinnunni. Þeir eru lítið heima. Þeir skilja hvorki konur sínar né börn. Enda eru þeir ótengdir þeim tilfinningalega og kunna ekki að nálgast þau. Roger er gott dæmi en honum hefur ekki tekist að ná til dóttur sinnar frá unga aldri. Og þetta kvelur hann. Hann segir t.d. einu sinni við ástkonu sína að hann hafi ekki heyrt dóttur sína hlæja frá því hún var 7 ára gömul. Og vanmáttur hans og söknuður eftir dótturinni er alger.

Í þessum fullkomnlega aðskildu heimum skilur karlmaðurinn ekkert í veröld konu sinnar og barna og vísa versa. Konurnar skilja ekkert í veröld karla. Hjón höfðu því eiginlega ekki um neitt tala. Börnin uxu úr grasi, giftu sig og fluttu að heiman án þess að faðirinn gæti stutt þau né sagt bless þegar þau fóru. Þessir karlmenn áttu einnig sameiginlegar minningar. Feður þeirra höfðu allir lamið þá eða flengt á einhvern hátt og reynt af hörkunni einni saman að koma þeim til manns. Karlmaður á ekki að gráta og karlmaður á ekki að finna til. Karlmenn eiga að standa sig í fyrirvinnuhlutverkinu eða hljóta skömm fyrir. Þessi pressa á Mad Men karlanna að meika það er ótrúleg.  Ein eiginkvennanna (sem var nýorðin ófrísk) beinlínis bannaði manni sínum að koma heim fyrr en hann hefði farið inn til yfirmanns síns og beðið um launahækkun. Sem hann og gerði eftir langa kvöð og mikinn kvíða.  Flestar eiginkonurnar vilja stórar og fallegar íbúðir, falleg föt og ýmis önnur stöðutákn og verða mennirnir að bregðast við þeim óskum.

Þetta veldur því að samkeppni þessara manna er gríðarleg. Þeir þykjast vera vinir en eru í raun að alltaf að reyna eyðileggja hver fyrir öðrum. Hnefarétturinn ræður og sá sterkasti lifir af. Þeir eru alltaf á varðbergi, alltaf að reyna að gera betur en sá næsti.

Don Draper, aðalsöguhetjan, er glæsilegur, vel gefinn maður og lekur þokkinn og velmegunin af honum. Hann á gullfallega eiginkonu (Betty), falleg börn og fallegt hús. Þrátt fyrir þetta heldur hann við konur sem eru eiginkonunni síðri útlitslega séð en eru þeim mun skemmtilegri. Hafa meiri reynslu en konan hans af lífinu og bisnessnum.

Don skilur ekkert í konunni sinni. Hún er fremur þunglynd, hæg og ófélagslynd á köflum. Óhamingjan umlykur hana eins og ský. Ég elskaði þessa konu frá fyrstu mínútu. Sérstaklega vegna þess að ég veit afhverju hún er svona óhamingjusöm. Flestir telja líklegt að hún sé óhamingjusöm vegna þessa hlutskiptis kvenna að vera heimavinnandi. En ég veit betur. Óhamingja hennar ristir miklu dýpra en svo.

Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að hún lifir fyrir manninn sinn. Hún hreinlega dýrkar hann og bíður allan daginn eftir því að hann komi heim. Sumir myndu kannski ekki líta á þetta sem vandamál, segja jafnvel að það sé grundvöllur hjónabandsins að lifa fyrir hvort annað. Err. So very wrong.  

Ég þekki þetta nefnilega af eigin raun. Í mínu hjónabandi lifði ég fyrir manninn minn fyrstu árin. Mér fannst lifið hefjast þegar hann kom heim úr vinnu. Og beið því allan daginn eftir honum. Ég var upptekin af því að búa til afbragðs mat til þess að gleðja hann og ‚fara mér ekki að voða‘ svo hann yrði ekki áhyggjufullur (ég er svo viðutan manneskja að hann var sannfærður um það að einhvern tímann yrði það mér að aldurtila. Takk fyrir. Því miður hafði hann oft rétt fyrir sér. Vandræðin sem ég kom mér í! Jæja, en þetta er útúrdúr. Segi frá því seinna).

Þetta var mjög sársaukafullt tímabil í lífi mínu. Ekki vegna þess að Mark er slæmur maður. Nema síður sé. Hann er bæði vandaður og góður. Vandinn fólst í því að þegar maður lifir fyrir aðra manneskju þá fær maður aldrei nóg. Enda fékk ég aldrei nóg. Þegar maður lifir fyrir aðra þá gerir maður viðkomandi ábyrgan fyrir gleði manns og hamingju. Og engin manneskja undir sólinni veldur því. Engin ein manneskja nægir til þess að gera líf manns innihaldsríkt og gefandi. Þetta breyttist þó smám saman og núna er ég staðráðin í því að lifa aldrei aftur fyrir aðra manneskju. Enda á þetta ekkert skylt við ást.  

Betty vesalings Draper er ekki að vaxa upp úr þessu. A.m.k. ekki enn. Og eiginmaðurinn áttar sig engan veginn á flóknum vanda eiginkonunnar. Hann heldur að Betty lifi góðu lífi. Hún hugsar um börnin, hittir vinkonu sína reglulega og stundar einnig hestamennsku. Þegar Betty fer að sýna einkenni þunglyndis, fallast Don hendur. Hann skilur þetta ekki. Hann hefur varið ævinni í að flýja sínar dimmu hugsanir og skilur ekki afhverju Betty gerir það ekki líka. En Betty vill alltaf meira og meira frá Don. En Don stendur engan veginn undir þeim kröfum. Ekki vegna þess að hann sé vondur og leiðinlegur heldur vegna þess að hann getur ekki verið náinn annarri manneskju. Hann þolir ekki að bera tilfinningalega ábyrgð á öðru fólki. Hann þolir ekki að vita til þess að fólk reiði sig á hann í lífinu og flýr slíka ábyrgð við fyrsta tækifæri.

Don ólst sjálfur upp við erfiðleika í æsku og til að eiga kost á betra lífi sviðsetti hann eigin dauða og yfirgaf fjölskyldu sína, m.a. lítinn bróður sem elskaði hann og dýrkaði. Þessi harmur setti mark sitt á hann og skilgreinir líf hans. Enda heldur Don áfram að vera þessi maður sem getur ekki bundist öðrum djúpum tilfinningaböndum. Og svo munaði minnstu að þetta yrði að mynstri. Eitt skiptið, í miklum erfiðleikum, ætlaði Don að einfaldlega að flýja aftur. Láta sig hverfa úr lífi konu sinnar og barna og hefja nýtt líf. Það gerðist þó ekki (sem betur fer) en hættan er enn til staðar. Don áttar sig ekki á því að hann grefur sína eigin gröf. Ef hann yfirgefur fjölskylduna sína núna, á þennan hátt, mun hann ráfa um lífið og veröldina þar til hann deyr einhvern tímann, aleinn.

meira seinna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Halló! Á hvaða stöð eru þessir þættir?     Ég gleymi ekki Dallas-þáttunum,sem urðu ekki lítið vinsælir,en hva'ð þeir voru oft óraunverulegir(les.vitlausir),samt veittu þeir manni afþreyingu. Ég er mjög lítið fyrir myndir og þætti,en ég get horft á gamlar kúrekamyndir.    Miðað við það sem þú miðlaðir okkur úr þessum þáttum,sína  dýralífsþættir  David Attenboro  (man ekki stafsetninguna),svo ótrúlega líka tilburði dýra og manna,fuglarnir eru þar sér á parti að mínum dómi,hvað feguð og útpældar  tælandi hreyfingar í tilhugalífinu. Er alveg að sofna,bíð því góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 8.10.2010 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband