Á ég líkama minn eða þú?

Ég er frjálslynd manneskja. Meira að segja mjög frjálslynd. Ég vil leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum og sjoppum, ég vil óheftan opnunartíma skemmtistaða, ég væri sátt við opnun spilavíta hérlendis og vil leyfa sölu kannabisefna.

Þegar kemur að líkama mínum og þínum, hins vegar, er ég tvístígandi. Og að gefnu tilefni. Fátt er eins eðlislega kynjað og afstaða til vændis og nektardansstaða. Og margir karlmenn skilja það ekki. Samkvæmt mínu viti eiga karlmenn erfitt með að átta sig á hræðslu og viðbjóði kvenna til alls kynlífs sem verður til undir debet og kredit formmerkjunum. Margir karlmenn myndu gjarnan vilja vera í stöðu konu sem er þráð af mörgum mönnum, dansar íturvaxin fyrir framan þá og fær peninga að launum. Og þeir myndu gjarnan kjósa að sofa hjá mörgum einstaklingum í viku hverri (meira að segja ljótu fólki eins og einn karl komst að orði).  Þ.e.a.s með þeim mikilvægu formerkjum þó að viðskiptavinirnir væru KONUR en ekki KARLAR. Um leið og umræðan fer að snúast um sölu á vændi drengja til fullorðinna karla snúast forsendurnar við og karlar hrylla sig.

Hamingjusama hóran öðlaðist líf í hugarheimi karla. Ekki kvenna. Því get ég lofað ykkur. Allar konur vita að hamingjusama hóran er ekki til. Og það er ekki vegna þess að hórur verði alltaf fyrir ofbeldi eða búi alltaf við ógnir. Það eru án efa einhverjar vændiskonur til sem hafa aldrei óttast um líf sitt og eru með tiltölulega prúðan viðskiptavinahóp. Og einnig þokkalega menntaðar. Enda snýst þetta ekki um ógnir, líkamsmeiðingar og félagslega stöðu. Þetta snýst miklu frekar um innri tilfinningar kvenna, tilfinningar sem konur skilja betur en karlar. Tilfinningar sem standast ekki nánari skoðun röklega séð, enda eru tilfinningar oft frumstæðar og frekar flóknar. Við konur vitum og skynjum örvæntingu þeirra kynsystra okkar sem selja líkama sína. Og við vitum einnig að þær selja sál sína í leiðinni. Líkami og sál kvenna er nefnilega samofið fyrirbæri. Annað verður illmögulega selt án hins.

Konur sem eru alfarið andsnúnar vændi (og vilja hert viðurlög við kaup á því) og nektardansstöðum eru sagðar vera leiðinlegar feministabeljur sem eru afbrýðisamar út í fagurlimaðar nektardansmeyjar og vilja þar af leiðandi ekki láta þær skyggja á sig. Það má vel vera að þessar konur séu femínistar. Og það má vel vera að þær séu beljur. Og þá má vel vera að þær séu leiðinlegar. Og það má vel vera að þær séu nornir sem nota árþúsundagamlan seiðkraft til að lama getu karla. Og dæmi nú hver fyrir sig. En sem kona veit ég að andstaða þeirra við vændi og nektardans er EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM kominn til af öðru en umhyggju þeirra fyrir kynsystrum sínum. Um aðferðir má alltaf deila (og er hollt í þessu tilviki) en ekki um þann hug sem þarna liggur til grundvallar.

 Mér þykir sjálfri óendanlega vænt um kynsystur mínar. Mér finnast þær stórkostlegar og þær hafa auðgað líf mitt á svo margan hátt að ómögulegt væri að telja það upp. Þær hafa komið mér í gegnum erfiðustu stundir lífsins, ýmsa hildarleiki sem margur karlmaðurinn hefði tapað fyrir löngu. Konur hugsa um sínar, styðja hver aðra og telja það ekki eftir sér.

Sem er ástæðan fyrir afstöðu margra kvenna til vændis og nektardansstaða. Í sinni einföldustu mynd eru þetta bara konur sem eru að reyna að vernda aðrar konur. Punktur.

Líkt og ég sagði frá að ofan þá er ég tvístígandi. Ég er ekki tvístígandi vegna þess að einhvers staðar kunni að leynast hamingjusöm hóra (ég veit hún er ekki til). Ég er tvístígandi vegna þess að ég er ekki viss um að hert viðurlög gegn vændiskaupum eða bann við nektardansstöðum hjálpi kynsystrum mínum.  Vegna þessa þá kalla ég eftir umræðu um aðferðir og leiðir. Og frábið mér skítkast og skotgrafahernað. Og vil gera öllum þarna úti ljóst að a.m.k. í þessu tilviki  eru konur(feminístar?) ekki í baráttuhug vegna einhvers óyndis eða ófullnægju. Þær eru ósköp einfaldlega að gæta systra sinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband