Icesave: þú svartasti sauður í heimi vorum - eigum við að kjósa um þig?

Þrátt fyrir niðurskurð í menntamálum Reykjavíkurborgar og annað óyndi er Icesave ekkert á leiðinni burt. Á borðinu liggur samningur sem starir á okkur eins og svartur þurs. Reykvíkingar rembast við að færa athyglina frá niðurskurði í borginni og yfir í Icesave samninginn sem fer á ógnarhraða í gegnum þingið (öðruvísi mér áður brá).

Almenningur er að taka við sér og fjölgar nú undirskriftum á „Kjósum“ síðunni hratt og vel. Í dag (kl. 07:30) eru undirskriftirnar í kringum 28,000 talsins. Minna heyrist í þeim sem styðja samninginn en samkvæmt orðinu á götunni munu stuðningsmenn þríeflast frá og með deginum í dag. Og þá upphefst baráttan á milli góðs og ills (vei, klassísk íslensk pólitík).

Andstaða almennings við Icesave samninginn virðist í fljótu bragði ennþá vera ærið mikil. Spurningin er bara af hverju?  Að sögn sérfræðinga og gárunga er samningurinn sem nú liggur fyrir langtum betri en fyrirrennari hans, nánast stjarnfræðilega betri. Einnig er samstaða þings orðin grunsamlega sterk enda flýgur samningurinn áfram í gegnum umræður og nefndir. Foringi stjórnarandstöðunnar, Bjarni Ben, kom öllum að óvörum með því að lýsa yfir stuðningi við samninginn, þrátt fyrir sterk öfl í  Sjálfstæðisflokknum sem segja annað. Kona hefði haldið að björninn væri nú unninn, að búið væri að greiða götu nýrra Icesave skuldbindinga íslensku þjóðarinnar.

En óekki. Eins og áður segir fjölgar í hópi þeirra sem skrifa undir áskorun til forseta Íslands um að neita að staðfesta Icesave-samninginn.  Sem var mér hulin ráðgáta þar til í gærmorgun. Þá varð allt í einu ljós í mínu höfði. Eins og svo oft áður tók ég leigubíl í vinnuna. Eins og svo oft áður var bílstjórinn málglaður. Í þetta sinn var þó ekki rætt um veðrið og tilheyrandi jamm og jæja, heldur Icesave. Bísperrtur sat bílstjórinn við stýrið og sagði háróma að það væri algjör svívirða að leyfa þjóðinni ekki að taka ákvörðun um þetta. Hér koma samræðurnar endurskrifaðar eftir minni:

Bílstjóri: jæja ertu búin að skrifa undir?

SNJ: skrifa undir? Undir hvað?

Bílstjóri: kjósum.is

SNJ: af hverju ætti ég að gera það?

Bílstjóri: nú til að fá forsetann til að stöðva þennan Icesave ósóma manneskja mín. Viltu ekki fá að kjósa um þetta?

SNJ (muldrar): tja, ég var eiginlega ekki komin svo langt.

Bílstjóri: hvurslags er þetta. Þú verður að taka við þér manneskja. Þjóðin verður að fá að kjósa um þetta. Menn ætla að keyra frumvarpið í gegnum þingið til þess að koma í veg fyrir að þjóðin hafi eitthvað um þetta mál að segja. HINGAÐ OG EKKI LENGRA.

SNJ (undrandi): upplifir þú mikla ósátt meðal almennings um nýja samninginn? Tekurðu eftir því t.d. í þínu starfi?

Bílstjóri: heldur betur. Ekki meðal ráðuneytisfólksins reyndar (spýtti hann út úr sér) en meðal heiðvirðs venjulegs fólks já. Þar eru allir brjálaðir. Og yfir sit bit.   

SNJ: en af hverju er fólk svona ósátt við samninginn? Er hann ekki langtum betri en síðasti samningur?

Bílstjóri: betri smetri. Hvaða máli skiptir það? Það á að festa þjóðina grandalausa í skuldahelsi, gera okkur að fíflum frammi fyrir guði og mönnum. Þessar svokölluðu skuldir eiga sér enga raunverulega lagastoð, menn eru bara að sleikja bragðvondan rassinn á erlendum þjóðum. 

SNJ: en nú hefur Bjarni Ben kúvent sinni afstöðu í garð þessa samnings. Skiptir það engu máli í þessu sambandi? Hvað þingið hefur náð mikilli innbyrðis samstöðu?

Bílstjóri: nei hvað heldurðu að fólk sé að spá í það? Þetta háæruverðuga lið þarna inni hugsar bara um eigin hagsmuni. Bjarni er bara að láta kúga sig. Síðasta vígið fallið. Við verðum að stöðva þetta kona.   Sameinuð stöndum vér.

SNJ (hugsi):  ertu þá að segja að fólk sé ekki endilega ósátt við samninginn í sjálfu sér heldur vilji bara fá að kjósa um hann?

Bílstjóri: Tja jafnvel. Margir, t.d. ég, erum á þeirri skoðun að þjóðin eigi ekki að borga Icesave skuldbindingarnar. Sumir eru reyndar tvístígandi með það en vilja samt sem áður kjósa um samninginn. Svona til vonar og vara.

SNJ: Ok. En svo ég endurtaki sjálfa mig, skiptir afstöðubreyting Bjarna Ben þá engu um þetta? Er ekki líklegt að hann hafi skipt um skoðun vegna þess að það er einfaldlega besti kosturinn í stöðunni?

Bílstjóri: Stúlka mín. Þetta mál er búið að vera í vinnslu í tvö ár. Og það hefur verið slegist um það frá upphafi. Menn héldu að Svavars samningurinn væri góður og gildur. Að við ættum engin önnur úrræði en þau að samþykkja hann. Síðan kom á daginn að það var rangt. Samningurinn var sá lélegasti í sögunni. Sem betur fer neitaði Ólafur Ragnar að staðfesta hann sem lög. Á þessu sama tímabili hefur fátt í hagstjórninni gengið upp. Hver skandallinn á fætur öðrum hefur riðið yfir landið. Í þessu ljósi, gefðu mér eina góða ástæðu fyrir því að við ættum að treysta þessum samningi nú? Eða yfirhöfuð treysta einhverju sem kemur frá stjórnvöldum?

Þegar þarna var komið sögu kveikti ég á perunni. „Kjósum“ herferðin snýst ekki endilega um það að samningurinn sé vondur í sjálfu sér heldur um vantraust almennings í garð stjórnvalda. Og þá er ég ekki að tala um vantraust á einhverjum venjulegum mælikvarða. Vantraustið er langtum meira en íslenska þjóðin hefur upplifað fyrr og síðar. Í raun breytir engu hvað ríkisstjórn og þingmenn segja eða gera. Fólk vill einfaldlega eiga síðasta orðið. Eins og bílstjórinn sagði ,, ef við eigum að gangast undir þennan skuldaklafa þá verðum við að hafa eitthvað um það að segja. Annars verður styrjöld.“

Ég er ekki frá því að hann hafi rétt fyrir sér. Reiði almennings er slík að ef þingið keyrir samningsfrumvarpið í gegn til þess eins að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þá verða mótmæli sem aldrei fyrr. Ragnarök. Eldar munu kvikna, bál munu brenna.

Og nú sit ég hér, klukkan hálf átta að morgni, og velti því fyrir mér hvort ég ætti að taka þessa áhættu. Að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu (með þeim fyrirvara að það sé ekki gefið mál að forseti neiti að skrifa undir þrátt fyrir undirskriftir)

Spurningin er einfaldlega þessi: er meiri áhætta fólgin í því að treysta mati almennings í þessu efni en stjórnvalda? Og svari nú hver fyrir sig.

Ég persónulega treysti ekki stjórnvöldum. Ég persónulega treysti ekki almenningi. En í þetta sinn ætla ég að láta reyna á almenninginn. Og láta kylfu ráða kasti. Ég er því búin að skrifa undir „kjósum“ áskorunina og mun standa, eða falla, með því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við erum því miður ekki svo heppin að Bjarni Ben hafi greind í átt við þennan leigubílstjóra.

Pétur (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 09:32

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Ég er staðfastlega á þeirri skoðun ef við viljum sátt og sanngirni. Kveðja.

Helga Kristjánsdóttir, 16.2.2011 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband