27.12.2009 | 18:38
Djúsí fjölkvæni
Málefni dagsins er fjölkvæni. Hef heyrt því margoft fleygt að karlmenn þrái að eiga fleiri en eina konu og að það hafi verið stór mistök að leggja þennan margkvænissið niður. Hvílíkt bull segi ég nú bara. Allir karlmenn í mínu lífi, stórir sem smáir, hafa varla valdið því að vera með einni konu hvað þá heilum hópi. Þeir hafa iðulega verið tvísstígandi og hræddir við að segja eitthvað rangt, eitthvað sem fær konuna til þess að breytast í eiturspúandi dreka og murka úr þeim lífið (sem gerist harla oft að sögn heimildamanna minna).
Lokum augunum sem snöggvast og skemmtum okkur. Ímyndum okkur að fjölkvæni sé ekki einungis heimilt heldur reglan í samfélaginu. Hvað sjáum við þá fyrir okkur? Ég sé fyrir mér alræði kvenna! Alræði í slíkri mynd að allir einræðisherrar fyrr og síðar myndu fá minnimáttarkennd gagnvart og missa risið. Sannleikurinn er nefnilega sá að konur halda fjöreggi karla í hendi sér. Við erum einu lífverurnar á guðsgrænni jörðu sem getum breytt lífi karlmanna í martröð eins og hendi sé veifað. Í samkeppni nokkurra eiginkvenna um hylli eiginmannsins myndu tvíræð skilaboð kvennanna til eiginmannsins dynja á honum eins og boltar úr pinpong maskínu. Og til þess að vigta tvíræðu skilaboðin og gera þau jafn öflug og eiturefnavopn, myndum við tuða og tuða þar til við yrðum bláar í framan. Að sjálfsögðu myndum við líka beita gamla trikkinu, þagnarbindindinu, andvarpa mæðulega og gefa þeim af og til augnatillit fullt af vandlætingu. Svo er það eftirlætis refsingin, daddadadaram: kynlífsstraffið! Og ég get sagt ykkur að þeir karlmenn sem kvarta nú yfir kynlífsbindindi af hálfu einnar konu, myndu sennilega fremja sjálfsmorð ef þeir upplifðu kynlífsbindindi margra kvenna.
Rúsínan í pylsuendanum væri þó sú skemmtilega iðja kvenkynsins að reyna að snúa karlmanninn á sveif með okkur, gegn hinum eiginkonunum. Hver eiginkonan á fætur annarri myndi króa eiginmanninn af á dimmum og afskekktum stöðum (svona vegna hryllings effeksins) og segja tárfellandi að hinar konurnar hafi komið illa fram við sig. Eiginmaðurinn verður að skerast í leikinn, segir konan kjökrandi, annars er taugaáfall á næsta leiti og hjónabandsráðgjöf í kjölfarið.
Í þessu hryllingssamfélagi væri maðurinn svo taugatrekktur og hvumpinn að hann gæti ekki haldið sér að neinu verki. Hann væri vansvefta vegna martraða, á þunglyndis- og kvíðalyfjum, sískælandi og með alvarlegt risvandamál. Konungur heimsins? My ass! Konungur vesælsdóms? Já öllu heldur.
Enginn karlmaður með viti myndi sjálfviljugur ganga í þessa hræðilegu gildru. Enda segir það sig sjálft er það ekki? Við búum í karlaveldi (þó ég hafi nú mínar efasemdir um það). Ef karlmenn þráðu fjölkvæni væri þá ekki slíkt kerfi til staðar? Góð spurning!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.