Afdrifarík ákvörðun íslenskrar konu

Fyrir tveimur nóttum síðan tók ég afdrifaríka ákvörðun. Ákvörðun sem fæstir Íslendingar taka, nema þeir séu annað hvort gjaldþrota, í fangelsi eða dauðvona.  Ákvörðunin mikla var sumsé sú að ef engar grundvallarbreytingar verði á fjölskylduhögum mínum á næstunni  þá muni ég búa í 95 fermetra íbúð minni það sem ég á eftir ólifað.  Allar vangaveltur um draumahúsnæðið, hæð í Þingholtunum, hæð í Teigunum, bílskúr eða garð verða þannig bannaðar á heimilinu komplett.

Ákvörðun þessi er hluti af lífsstílsbreytingu sem ég hef verið að þoka mér í átt að undanfarin tvö ár. Lífsstíllinn sá einkennist af nokkurs konar smækkun og fækkun, þ.e.a.s. markmiðið er að smækka umfang lífs míns og fækka daglegum athöfnum. Líf mitt, líkt og annarra Íslendinga, var orðið eins og kreisí þeytivinda sem sjálfur Don Kíkóti hefði örmagnast í. Endalausar markmiðssetningar, endalaust skipulag, endalaus verkefni og endalausar ferðir fram og til baka til þess að koma þessum verkefna- og hugsjónalista í farveg.

Þegar ég var á einum stað, var ég óþreyjufull því mér leið eins og ég ætti að vera einhvers staðar annars staðar.  Og ég þoldi það ekki. Ég þoldi ekki þetta streð og þessa streitu. Þessi hlaup hingað og þangað. Og ég fyrirleit þá algengu hugsun að lífið ætti að vera einhver „vegferð“ með tilheyrandi vegvísum og markmiðum.  Fólk spurði oft á hvaða ferðalagi ég væri. Hvert ég stefndi í lífinu. Hvar ég vildi vera eftir 10 ár. Eða 20 ár. Mér fannst ég aldrei hafa nein svör, enda hef ég engan áhuga á því að vita eða sjá fyrir mér hvernig líf mitt verður eftir 20 ár. Ég fæ köfnunarkennd við tilhugsunina eina.   

Persónulega  finnst mér þessi vegferðmanía  vera eilífðar streð. Maður þarf stöðugt að branda sig, stöðugt að finna upp á nýjum verkefnum. Fólk er annað hvort að stækka við sig eða minnka við sig. Eða kaupa og gera upp. Eða skrá sig í nám. Endurnýja bílana sína, kaupa hús á Spáni. Skilja við maka sinn. Eignast nýjan maka innan árs. Gera garðinn að verðlaunagarði.  Rembast við að rækta plómutré á svölunum (því exótískara því betra).  

Hingað og ekki lengra muldraði ég við sjálfa mig. Ég vil hvorki vera sniðug né exótísk. Ég vil ekki setja mér markmið til þess eins að hlaupa eftir þeim eins og hamstur í hjóli. Og ég vil ekki fjárfesta í einu né neinu. Og ég nenni ekki á fjármálanámskeið til þess eins að læra að borga íbúðina niður á 25 árum í stað 40 ára. Og mér er nákvæmlega sama um það hvað Parmesan ostur eða gott salat kostar. Ég kaupi það samt.  

 Ég vil bara lifa litlu og sætu lífi, með fáum markmiðum og fáum framtíðardraumum.  Ég vil drekka rauðvín og elda góðan mat. Stunda ketilbjöllurnar mínar af hörku og hlaupa úti þegar sá gállinn er á mér. Segja brandara, fara í leikhús og lesa góðar bækur. Hlusta á tónlist og vera ástfangin. Fara í bölsýniskast af og til og jafnvel smá niðurrif á köflum.  Því neikvæðni er kúl og ég er kúlust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjálp! Þú ert frábær.

ég fékk kvíðakast í Nettó á þriðjudaginn og áttaði mig á að ég hef bara verslað í 10 11 síðan í Desember því það er auðveldara. Þegar ég var komin hálfa leið út þá ákvað ég að einfalda þetta bara og kaupa bara 10 hluti og hafa það allt eitthvað sem Amma hefði notað. Labbaði svo út með 3 lifrarpylsulkeppu, AB-mjólk, epli gulrætur, papríku, blómkál, salat, uppþvottalög og þvottavélarsápu. 10. Ég átti frosinn fisk og kartölfur og egg. Fólkið í vinnunni talar um hvað ég sé holl núna og ég hef lést. Ég finn það strax. Núna á ég auðvitað ekkert nasl nema te og það verður bara að hafa það. Ég bý ein svo það er enginn að kvarta heldur.

Í næstu viku kaupi ég kannski parmesan og rauðvín takk fyrir hugmyndina. En þar fyrir utan ég ætla líka þá bara að kaupa Ömmu-mat. Það er gott fyrir skapið (og þrönga svarta pylsið)

Edda Björk Ármannsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 18:01

2 identicon

hahaha. 11 meina ég... rosalega er ég einföld!

Edda Björk Ármannsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 18:02

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

   Svandís mín þannig er það hjá mörgum,sem betur fer ræður maður einn sínu lífi. En tillökkun er alltaf góð.

Helga Kristjánsdóttir, 11.2.2011 kl. 05:08

4 identicon

takk fyrir kveðjurnar báðar tvær. Gangi þér vel Edda með þrönga pilsið!

snj (IP-tala skráð) 11.2.2011 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband