14.1.2010 | 05:12
Rokkuð nótt
....ég er semsagt enn vakandi (klukkan er hálf fimm að morgni) og enn myrkfælin en í staðinn fyrir að sofa þá hlusta ég á háværa rokktónlist á meðan ég vinn (blogg er vinna, er það ekki?). Enda er ég komin í banastuð!
Merkilegt hvað næturnar eru ólíkar deginum. Í rauninni er enginn de facto munur, sólin sest til viðar og tunglið kemur fram. Samt upplifi ég lífið allt öðruvísi á næturnar. Yfirleitt þoli ég ekki að vera vakandi á meðan aðrir sofa. Áleitnar hugsanir sækja að mér eins og blóðsugur, hugsanir sem auðvelt er að forðast á daginn. Á næturnar er engin undankomuleið. Borgin sefur, fésbókin sefur, sjónvarpið sefur en ég ligg vakandi í hugsanafangelsi.
Hugsanir um framtíðina bögga mig dálítið núna. Ég rembist eins og rjúpan við staurinn (ég hef aldrei botnað neitt í þessu máltaki. Rjúpa og staur??) við að draga upp mynd af því hvar ég vil vera eftir eitt ár, eða fimm ár, o.s.frv. Og vitiði hvað? Mér dettur ekkert í hug. Er algjörlega blankó. Lífið þokast bara áfram og ég með. Enda leiðist mér að planleggja. En hverskonar markmið getur maður sett sér? Ég reyki ekki (og get því ekki hætt að reykja, sem er synd því þetta er rosalega djúsí markmið og fólk fær svo mikla athygli þegar það hættir), ég hreyfi mig mjög reglulega og get því ekki byrjað á því núna og í ofanálag er kreppa í landinu. Er hægt að plana eitthvað í svoleiðis ástandi?
Þegar ég lít yfir farinn veg þá sé ég mjög greinilega að hef aldrei planað neitt og aldrei sett mér markmið. Þegar mig langaði í skóla þá fór ég í skóla. Ég sat ekki nokkrum árum fyrr og planlagði námið. Og ástarsamböndin hafa bara komið. Ég hef aldrei sett mér markmið í ástarmálunum, ég veit að sumir setja sér einhverskonar vörður (börnin eiga að koma eftir 3 ár - brúðkaupið 5 ár) en guð hvað mér finnst þetta óspennandi. Eiginlega bara lúðalegt,
þannig að mig vantar markmið. ef einhver á aukamarkmið sem hann þarf ekki að nota þá þætti mér vænt um að fá það til eignar.
Athugasemdir
Þú getur t.d. kynnt þér málin varðandi drauga. Slíkt er ekki til og finnst aðeins í huga þínum. Það er merkilegt hvað hann getur spunnið upp, ef maður fyllir hann af slíkum hugmyndum. Það er ekkert að óttast, ég lofa þér því.
Áhyggjur eru svo mesti óþarfi, sem við temjum okkur. Að hafa áhyggjur af hinu ókomna rænir mann orkunni og eiginleikanumtil að takast á við vandann, þegar og ef hann birtist. Ég segi ef af því oftar en ekki þá reynist vandinn hugarburður einn spunninn upp af jafnvægislausum og þreyttum huga, rétt eins og draugarnir. Maður tekur á lífinu jafn óðum og það birtist manni, ekki fyrirfram. Ef eitthvað hendir, sem er miður, þá hendir það og engin kemur í veg fyrir það með áhyggjum. Þegar það hendir, þá tekur maður á því.
Ég hef sofið í mörgum húsum, þar sem menn hafa í einhverrri spennufíkn sagt vera reimt í. Aldrei hef ég orðið var við neitt, sem ekki á sér eðlilegar skýringar.
Hugsaðu bara: Allt er gott. Ég óttast ekkert.
Sofðu vel. Á morgun sérðu að ekkert gerðist og að allt var hugarburður einn.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.1.2010 kl. 05:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.