Afhverju getum við aldrei verið bara miðlungs?

Íslendingar eru aldrei meðalmenn. Hvorki meðalgóðir né meðalslæmir. Við héldum að við værum súpergóð í ensku (eiginlega betri en enskumælandi þjóðir) þar til niðurstaða rannsóknar einnar drap það fyrir okkur. Núna erum við léleg í ensku, svo léleg að allir fengu varaklemmu í pósti sem skal notast í hvert sinn sem útlendingur reynir að tala við okkur.

Við vorum best menntaða þjóð heims. Í fjölmiðlum var sífellt verið að vísa í „hátt menntunarstig þjóðarinnar.“ Fiskvinnsla og landbúnaður var fyrir neðan okkar virðingu, við sem erum svo hámenntuð. Hið háa menntunarstig þjóðarinnar átti að bjarga okkur frá öllu. Fátækt og kreppu (og bara leiðindum yfirhöfuð). En nei, þetta var líka vitleysa. Núna erum við herfilega lítið menntuð, og stöndum öðrum þjóðum langt að baki. Ekki nema 18-20% fullorðinna með BA próf.

Útrásarvíkingarnir okkar voru hetjur. Sem við hylltum. Innst inni fannst flestum þetta ekkert merkilegt svona þannig, við höfum alltaf vitað í hjarta okkar að við værum best. Núna fengi umheimurinn loksins að finna fyrir áhrifamætti litlu þjóðarinnar í Atlantshafi. Nei nei nei! Við höfðum kolrangt fyrir okkur. Útrásarvíkingarnir eru þjófar, illa innrættir og til að toppa það þá eru þeir ósexý líka. Bjöggi Thor er ekki eins sætur og hann heldur (beinið). Við erum engir bisness snillingar heldur Nígerísk í eðli. Við eigum ekkert erindi í svona bisness.

Á Íslandi var mesta jafnrétti kynja í heimi (eða svona næstum því). Við hreyktum okkur af íslensku fjallkonunum okkar sem mennta sig, hugsa um bú, og eru í vinnu með. Konur sem gustar af. En ekki lengur. Nú er búið að sýna fram á að hér ríkir lítið jafnrétti þrátt fyrir skýrslu þess efnis sem setur Ísland í toppsætið. Og ekki nóg með það, heldur eru karlmennirnir svo snartjúllaðir að engin önnur lækning dugar en að þeir hoppi upp í rassgatið á sér.  

Einu sinni vorum við líka heilsuhraustasta þjóð í heimi (að okkar mati). Við hlupum um stokka og mela, léttfætt eins og hindir. Áttum heimsfræga kraftakarla sem ráku alla útlendinga í rogastans. Áttum líka heimsfrægan álf, sem hoppaði um í flikk flakki í stað þess að ganga og kenndi börnum heimsins að borða gulrætur og kál. Krafti okkar voru engin takmörk sett. En ekki lengur. Raunin er nefnilega sú, segja sérfræðingar, að börnin okkar eru spikfeit og ættu best heima í Hans & Grétu ævintýrinu. Sem er til skammar fyrir víkingaþjóðina.

Náttúrueðli okkar var einnig stórkostlegt. Við áttum ósnortnustu náttúru í heimi. Ósnortnari en himnaríki. Nú er hún mest virkjaða náttúran og segja sumir að hún sé tífalt virkjaðri en hún ætti að vera. Við getum því gleymt náttúrunni í komandi framtíð.

Það sem eftir stendur af þessari umræðu er það að Íslendingar eru lítið menntaðir, lélegir í ensku, útiloka konur, eiga akfeit börn, eiga viðbjóðslega tífalt virkjaða náttúru og búa í Nígerísku hagkerfi.

Afhverju getum við aldrei verið bara miðlungs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gleymdir höfðatölunni síendurtekinni,vina mín í sambandi við kosti okkar.Ræðumenn vilja oft fara inn á mannkosti okkar og landkostina,sem við eigum,sem eru auðvitað einstakir þegar öllu er á botninn hvolft. Mér er minniststætt ferðalag,sem fjölskyldan fór árið 1984. Eftir að hafa keyrt um norðurlönd og miðevrópu,fannst mér frelsi í víðfeðmninni,þegar ég kom heim,engin tré sem byrgðu sín. Margir útlendir ferðamenn róma,þessi sérkenni.           Það heyrist aldrei í þessum ,,meðal,, þeir hlusta á mærðina og lastið,hvorugt hefur áhrif á þá.  Kær kveðja.

Helga Kristjánsdóttir, 24.9.2010 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband