Lostafulli ríkisstarfsmaðurinn: ég get alveg verið góður ef ég fær bara að hafa sverð.

Fyrir ekki svo löngu sat sonur minn grafkyrr og hlýddi á eitthvað í sjónvarpinu. Ég var á þönum um íbúðina í tiltekt og var kyrrðinni þakklát. Svo lækkar hann í sjónvarpinu, kemur til mín og spyr: mamma hvað er hór og losti? Ég missti andann sem snöggvast og spurði strax: á hvað varstu að horfa í sjónvarpinu? Einhvern þátt um guð og presta sagði barnið og sýndi mér. Jú jú mikið rétt. Þetta var þáttur um guð og presta. Á sjónvarpsstöðinni Omega.

Ég slökkti á sjónvarpinu og sagði barninu mest lítið um hór og losta. Og komst upp með það. Sem gerist aldrei. Þetta er mjög aðgangsharður drengur þegar hann vill við svo hafa. Á þessum tímapunkti held ég þó að hann hafi skynjað að satt mætti kyrrt liggja. Að móðir hans myndi jafnvel þurfa að sakfella sjálfa sig.

En það er af sem áður var. Barninu hefur vaxið ásmegin síðan þá. Þegar ég var að lesa með piltinum í gærkvöldi spurði hann mig óforvarendis afhverju losti væri svona vondur. Af hverju prestar byggju til myndir um hann. Ég svaraði sem svo að losti væri ekki vondur í sjálfu sér. En ef fólk léti stjórnast af honum (alfarið) gæti það gert hluti sem það sæi eftir. Og áttaði mig samstundis á því að ég hefði stigið eins og saklaust barn beint í gildru stráksa.

En mamma, hvað er þá eiginlega losti? Eru allir með losta? Er þetta kannski geðveiki? Úr augum barnsins skein spenna, ekki sakleysisleg forvitni heldur púra spenna. Kannski fyrirboði lostans seinna meir? Ég vildi standa vaktina og sagði honum að losti væri brjálæðislega mikil löngun til að vera með annarri manneskju og snerta hana. Við þetta slokknaði spennan í augum sonarins. Nú, losti er þá bara góður, tautaði hann. Nei nei sagði ég, losti er ekki beint góður. Þú vilt í raun ekki snerta aðra manneskju hennar vegna, miklu frekar þín vegna. Spennan jókst aðeins aftur í augum barnsins. Afhverju þín vegna? Afhverju ekki hennar vegna spurði hann bísperrtur.

Hin manneskjan vill það alveg, sagði ég,  en þú ert samt ekki að gera þetta til þess að vera góður við hana, ekki svona í sjálfu sér. Úr augum barnsins skein nú hvorki spenna né vonbrigði. Heldur tortryggni. Þú ert að plata mig mamma. Þetta er alveg eins og með jólasveininn. Þú vildir aldrei segja mér að jólasveinninn væri ekki til og nú viltu ekki segja mér að það sé til losti og að hann sé vondur. Ég ætla að trúa sjónvarpinu og prestunum. Það er víst til losti. Svo sneri barnið sér á hina hliðina og sagði góða nótt stuttur í spuna.

Ég er úrvinda. Hvað eiga mæður að gera? Losti er vissulega til. En hann er ekki vondur. Losti er svona hvorki né. En hvernig á ég að skýra það fyrir barninu mínu að mannlegt samfélag er uppfullt af lygasögum sem það reynir að halda á lífi þó svo þær séu í eðli sínu frekar óspennandi. Jólasveinninn er óspennandi. En hann er lífsseig lygasaga. Og við berjumst við að halda henni á lífi. Lostinn er óspennandi í sjálfu sér. Einhver snertir þig (og andar svolítið þungt á meðan) og þú snertir hann (og andar lika svolítið þungt á meðan). Öfugt við jólasveininn er lostinn ekki lygasaga. En það að hann sé vondur er auðvitað lygasaga. Hór er til. En er það endilega vont? Jú segja menn. En hvað hafa þeir svosem fyrir sér í því? Afhverju er vont að drýgja hór?

Ég er góð móðir. Og ég elska afkvæmin af öllu hjarta. Og ég vil helst að þau gangi brosandi í gegnum lífið. En ég get ekki staðið lengur í þessum lygasögum. Ég get ekki verið enn einn burðarásinn í því að halda ósönnum sögum á lífi. Og mér veitist það erfiðara og erfiðara að móta börnin mín í það form sem samfélagið krefst þess að þau séu í. Að troða vel gefnum, óþægum syni mínum í hlutverk góða, bjarta drengsins er óvinnandi vegur (ég þyrfti sennilega að klóna hann bara). Að viðhalda dótturinni í prinsessuhlutverkinu er löngu tapaður leikur. Best að leyfa henni tæplega 18 ára gamalli stúlkunni að brenna prinssessuna á báli.

Þegar nánar er að gáð virðist góðmennskan aldrei vera fólgin í því að vera góður. Góð, lostafull kona sem drýgir hór en gefur fátækum eigur sínar mun ekki fá Fálkaorðuna. Frekar snöruna ef eitthvað er. Karlmaður, sem er heiðarlegur stjórnmálamaður, segir ávallt satt og lætur gott af sér leiða, en drekkur ótæpilega um nætur og heldur framhjá fær sennilega hvorki bálið né snöruna (misréttið veldur því að hórkarlar sleppa betur en hórkonur) en þyrfti þó að bíða ævina á enda eftir Fálkaorðunni. Þetta, kæru samferðarmenn er ekki win-win. Þetta er miklu frekar tap-tap.

Ég lýk þessum vangaveltum með því að vísa í son minn. Til þess að hylla sína menn í Star Wars og móður sína sem vill að hann sé góður, þá sagði hann einu sinni að hann gæti svosem alveg verið góður ef hann fengi bara að hafa sverð.  Spurning um að leyfa honum það bara?

Ástarkveðja til ykkar allra

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband