11.12.2011 | 12:55
Eru geðsjúkdómar þvæla? Og ofvirkni afsökun?
Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að ræða um geðsjúkdóma, taugaþroskaraskanir (ADHD, Asperger, einhverfa) , lesblindu og annað slíkt. Umræða um greiningar og greiningaræði nútímans hefur verið mjög ráðandi undanfarin 10 ár, og jafnvel lengur. Fólk er bara orðið að aumingjum, hefur ekkert úthald, fær bara einhverja handhæga greiningu á ástandi sínu og litlar, fallegar töflur til inntöku. Þetta er mikil afturför frá því sem var, segir
fólk. Þá voru Íslendingar hraustir og unnu sína vinnu möglunarlaust. Enginn
þurfti á greiningu að halda og enginn skældi ofan í pilluglasið.
Margir kenna foreldrum um (fólk kann ekki lengur að aga
börnin sín) en aðrir kenna læknunum um. Læknar eru greiningaóðir og útbýta
röskunum til almennings eins og jólasveinar, ásamt viðeigandi lyfseðli. En
aðrir segja að samfélaginu öllu sé um að kenna. Við höfum ekkert umburðarlyndi
lengur og viljum helst að allir séu steyptir í sama mót. Fólk fær ekki að vera
eins og það kemur af kúnni. Nú viljum við lækna alla sem eru öðruvísi" með
lyfjum og atferlismeðferð.
Einmitt það.
Þar sem ég er efasemdarmanneskja um guð og menn þá hef ég
lengi efast um algengi taugaþroskaraskana. En á sama tíma hef ég líka efast um
forsendur gagnrýnisraddanna sem eru tíundaðar hér að ofan. Er ekki ólíklegt að
læknar séu massíft að greina fólk og byrla því eitur svona af því bara? Þó
opinberar tölur segi okkur að Ísland vermi eitt af vinningssætunum í notkun
lyfja gegn þunglyndi og taugaþroskaröskun er ekki þar með sagt að eitthvað foul
play sé í gangi. Nema síður sé. Ef betur er að gáð sýna opinberar tölur einnig
að notkun annarra lyfja hefur stóraukist á sama tíma, t.a.m. notkun krabbameinslyfja,
verkjalyfja og bólgueyðandi lyfja. Hið sama má segja um náttúrulækningalyf og fæðubótarefni, s.s. vítamín. En þetta eru engar nýjar fréttir. Í Morgunblaðinu birtist frétt árið 2002 um aðheildarsala
á krabbabeinslyfjum hafi fjórfaldast á fimm ára tímabili" (1996-2001). Í
kjölfarið fylgdu fleiri fréttir og umfjallanir um þetta mál. Á sama hátt er sagt
frá því í Morgunblaðinu í nóvember 2011 að notkun verkjalyfja hafi aukist um
40% frá árinu 2003. Slíkt hið sama má segja um blóðþrýstingslækkandi lyf.
Þetta vekur óneitanlega upp áleitna spurningu: Ef sú fullyrðing að stóraukin notkun geðlyfja
og lyfja við taugaþroskaröskununum sé tilbúningur lækna og/eða samfélagsins
alls, ætti slíkt hið sama þá ekki að gilda um greiningar á öðrum sjúkdómum og lyfjanotkun við þeim? Eða takmarkast greiningasvindlið við geðsjúkdóma
og taugaþroskaraskanir eingöngu? Eða erum við viðkvæmari gagnvart geðsjúkdómum og atferlisröskunum en krabbameini og blóðsjúkdómum?
Kona spyr sig.
Og þá vaknar önnur áleitin spurning. Af hverju bregðumst við harkalegar við aukinni
notkun geðlyfja en aukinni notkun krabbameinslyfja? Af hverju þessi viðkvæmni?
Getur það verið (og nú stíg ég varlega til jarðar) að samfélag mannanna hafi
ætíð viljað fela þessar skammarlegu raskanir og streitist á móti tilraunum til
þess að draga þær fram í dagsljósið?
Kona spyr sig (aftur).
Nú væri þægilegt að geta flett upp í ritröðinni um sögu
sjúkdóma á Íslandi. Ef slík söguritun væri til. Þar gætum við séð svart á hvítu
hvort þunglyndi eða ofvirkni með athyglisbresti væri tískuveiki eða same old,
same old. Það er að segja ef maður treysti slíkri söguskoðun. Þess í stað
verðum við að fletta upp í skráðum munnmælasögum og lesa í gegnum línurnar um skrýtna"
fólkið. Hver man ekki eftir gömlum manni sem þótti skrýtinn vegna þess að hann
þagði alltaf (þunglyndur?) eða virtist alltaf móðga alla í kringum sig án þess
að ætla sér það? (Asperger heilkenni?). Eða drengnum í næsta húsi sem gat
aldrei setið kyrr (ofvirkni?). Er ekki Emil í Kattholti dæmigerður ofvirkur
drengur?
Persónulega held ég að þessar raskanir hafi alltaf verið
til. Og séu jafngamlar mannkyninu. En sumar þeirra gætu verið þess eðlis að þær
eru tengdar ákveðnum samfélagslegum aðstæðum.
Ég ímynda mér, t.d., að ofvirkni hafi verið minni vandi á tímum þegar
börn þurftu ekki að sitja kyrr á skólabekk klukkutímum saman. En það er
auðvitað mitt ófaglega mat. Ég ímynda mér einnig að kvíði sé tengdari nútímanum
en fortíðinni þar sem lífið virðist vera flóknara í dag en áður. En þetta eru
auðvitað bara vangaveltur.
En þetta er bara hálf myndin. Gagnrýnin beinist ekki bara að
greiningunum í sjálfu sér. Fólk deilir líka um meðferðina á þeim, t.a.m. ávísun
lyfja. Segjum svo að við viðurkennum þessar atferlisraskanir og lítum þær sömu augum og aðra sjúkdóma. Er þá óþarfi að ávísa lyf til að deyfa einkennin
sem fylgja þeim? Snýst þetta kannski bara um það að við þurfum að sýna fólki
meira umburðarlyndi? Og mun það draga úr
eftirspurninni eftir lyfjagjöf og slíku inngripi?
Tja, ég veit það hreinlega ekki. Þó aukið umburðarlyndi sé
eftirsóknarvert markmið í sjálfu sér þá er ég ekki viss um að líf með atferlisröskun
án lyfja sé heillandi kostur. Ég var t.d. ein af þeim sem predikaði aukið
umburðarlyndi ,,leyfum börnunum að vera eins og þau eru" alveg þar til ég fékk
hóp af klínískt ofvirkum unglingum til mín í kennslu. Það er ljótt að segja frá
því en ég hefði getað snúið sum þeirra úr hálslið. Og þau hefðu væntanlega geta
snúið mig úr hálslið vegna óþolinmæðinnar og pirringsins.
Ef ég horfi til baka og skoða sögu fjölskyldu minnar með
opnum huga, rifja upp sögur af látnum ættingjum og mínar eigin minningar af
þeim sem ég þekkti, birtist mér saga stútfull af geðsjúkdómum og andlegri
vanlíðan. Mér bregður eiginlega í
brún. Þó það sé vitað mál í dag að
geðsjúkdómar eru algengir í fjölskyldu minni efa ég að fólk átti sig á umfangi
þeirra. Til að mynda segir sagan að langamma mín í móðurætt hafi ekki farið út
úr húsi í 30 ár. Og þá í bókstaflegri merkingu. Hún bjó í miðbænum og rak
hvorki út nef né litlu tá í 30 ár, eða þar til hún dó. Öllum fannst þetta
skrýtið en við þessu var ekkert að gera. Hún sinnti sínum skyldum að öðru
leyti, sá um heimilið og húsverkin, saumaði og eldaði, og því var ekki fárast
meira yfir þessu. Sonur hennar, afi minn, var svo veikur að honum var best lýst
með orðinu snarkreisí. Hann var algjörlega galinn. Hann eignaðist þrjár dætur
með ömmu minni, sem hann gat ekki sinnt, talaði við sjálfan sig (þ.e.a.s hann
talaði ætíð við tvo aðra menn, einn hvíslaði og hinn var hávær, sem enginn sá
né heyrði til. Þið skiljið hvað ég á við). Hann gat ekkert unnið en var gjarn á
að bjóða okkur systkinunum starf á bóndabæ einum sem hann taldi sig búa á (þó
hann byggi á þeim tíma í einu herbergi hjá okkur í Breiðholtinu). Hann strauk af geðdeildum í gríð og erg og lokaði sig oft inni í kjallaraíbúð á Leifsgötunni. Þegar móðursystir mín og
dætur hennar fóru með mat til hans urðu þær að leggja hann við dyrnar hjá honum
vegna þess að hann treysti þeim ekki.
Ein dætra hans, móðir mín elskuleg, hefur alltaf verið fársjúk. En þó
var hún skárri en afi, svona framan af. Hún hélt þó vinnu talsvert lengi, þó
strembið væri, og flutti ekki burt frá börnum sínum og eiginmanni.
Ég vildi óska þess að allt þetta fólk hefði átt kost á lyfjum.
Heilum bílfarmi af lyfjum, ef ég hefði mátt ráða. En í stað þess var vandanum
eytt og aldrei minnst einu orði á geðsjúkdóma. Nei nei. Ég ólst upp við það að eiga stórundarlega
móður án þess að nokkur maður ræddi það við okkur systkinin. Og ef það bar á
góma var viðkvæðið ætíð, hún hefur alltaf verið svona hún mamma þín, og málið var
dautt.
Og ef ég lít nær mér í tíma og renni augum yfir skólafélaga
mína í grunnskóla, kem ég auga á alls kyns raskanir og lesblindu sem engar
lausnir voru við. Margir heltust úr námi og eru sumir enn að ná sér á strik.
Dóttir mín er með athyglisbrest. Við reyndum lyfjalausu
leiðina í mörg ár. Sem gekk ekkert sérstaklega vel. Nú er hún að verða 19 ára
og er nýfarin að taka lyf. Og þvílíkur munur á barninu. Ja hérna hér.
Í ljósi alls þessa er niðurstaða mín sú að við sem samfélag
viljum hvorki heyra né sjá af geðsjúkdómum og taugaþroskaröskunum. Við getum
sæst við krabbamein og blóðsjúkdóma en fátt annað. Við viljum ekki vita af hinu
og viljum því helst eyða því úr umræðunni. Við erum ekki svona gölluð, þetta er
tilbúningur lækna og móðursjúkra vitleysinga og ekkert annað. Fram fram
fylking. Ó hve glöð er vor æska.
Ef þið þurfið frekara vitnanna við flettið þá upp í Google setningunni
aukin notkun lyfja." Þá munuð þið sjá
að þó það sé minnst á önnur lyf en geðlyf og ritalín, eru flettingar á þeim síðarnefndu
langalgengastar.
Lifið heil, með eða án lyfja.
Athugasemdir
Ég hef verið ofvirkur og lesblindur en bendi fólki á að það eru til leið sem heitir: http://www.sahajayoga.is/ og hefur hjálpað mér mikið.
Kveðjur
Daði.
Daði Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 13:47
Mjög fróðleg lesning og vel skrifuð :)
Lísa Gestsdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 23:30
Eins og Einar Már og Jón Kalmann hafi sameinað krafta sína í einni manneskju. Þetta var frábær grein bara.
Örlygur Sig. (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 01:00
Þessi pistill er sá besti frá þér frænka. Þar sem ég er að fara að sitja yfir í H.Í á morgun, er ekkert afgangs þrek til að skrifa það sem ég vildi. Lesblinda er algeng hjá þeim nem. sem ég sit yfir,svo algeng að enginn minnkast sín fyrir ,held ég. Já.þú meinar,allir eiga að vera eins og hjörðin, norm. Gaman hefði verið að hitta þig t.d. í Hámu,ef þú værir enn að kenna. Nú fer ég í ,,koj,, því dóttursonur minn hringdi í kvöld,er að koma frá Bergen,hann lærir hljómlist í Grieg listaháskólanum, upp með mér þegar kiðlingarnir vilja hitta ömmu sína,þótt komi langt að og hafi lítinn tíma,hann fer til Egilsstaða á morgun. Svandís,við systkinin hittumst í kaffihúsi í okt. gaman væri að mega hringja í ykkur,ef við endurtökum slíkt,bestu kveðjur til til systkinanna og barna.
Helga Kristjánsdóttir, 12.12.2011 kl. 01:05
Takk fyrir þetta, þörf grein. Oft erfitt að vera foreldri og berjast við fordóma vegna fötlunar sonar míns og lyfjanna sem breyttu lífi, ekki bara hans, heldur okkar allra í fjölskyldunni.
Halla Rut , 12.12.2011 kl. 01:24
Mjög góður pistill!
Ég hef sjálfur greinst með athyglisbrest á háu stigi. Ég forðaðist samt að taka lyf þangað til 2010. Ég hafði hafið aftur skólagöngu árinu áður og hafði dregið það að fara á lyf því mér gekk ágætlega í prófum þótt ég hafi átt erftirr með að setjast niður og læra með fullan focus. Mér var boðinn nokkuð sterkur skamtur af conserta í byrjun en ég vildi fara á vægasta skamt og sjá svo til og þvílíkur munur! Núna læri ég meira á einum klukkutíma heldur en á 5 tímum án lyfjanna vegna einbeitningarskorts. Maður hreinlega flýgur í gegnum námið með mjög góðar einkunnir og er loksins farinn að njóta þess að vera að menta mig því þetta er eitt það skemtilegra sem ég hef gert. Ég vona svo innilega að fordómar gegn þessari greyningu og lyfjum deyji brátt út. Ég var sjálfur efasemdarmaður og hafði fordóma gegn umræddum lyfjum en skil hreinlega ekki í dag hversvegna og sé mikið eftir tímanum sem maður forðaðist skólagöngu vegna þess að maður efaðist um getu mína að geta lært, háskólanám var fjarlægur draumur en er núna raunveruleiki og kemur jafn sjálfsagt og að drekka vatn.
Ómar Örn Ómarsson (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 03:44
Mikið þykir mér vænt um þessar athugasemdir. Takk allir og gangi ykkur vel! Helga frænka: það væri yndislega gaman að hitta ykkur. Ég er á leiðinni að hitta Sigga frænda fljótlega!
SNJ (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 10:07
jahá..... láttu rödd þína heyrast víðar.
elina (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 12:33
Mjög góð grein! Takk fyrir!
Sigríður Anna (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 17:12
Takk fyrir vel skrifaða grein, þú bendir á það sem ætti að vera óþarfi að benda á, en er samt þagað í hel. Takk fyrir!
Gunnar Davidsson (IP-tala skráð) 12.12.2011 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.