Afdrifarík ákvörðun íslenskrar konu

Fyrir tveimur nóttum síðan tók ég afdrifaríka ákvörðun. Ákvörðun sem fæstir Íslendingar taka, nema þeir séu annað hvort gjaldþrota, í fangelsi eða dauðvona.  Ákvörðunin mikla var sumsé sú að ef engar grundvallarbreytingar verði á fjölskylduhögum mínum á næstunni  þá muni ég búa í 95 fermetra íbúð minni það sem ég á eftir ólifað.  Allar vangaveltur um draumahúsnæðið, hæð í Þingholtunum, hæð í Teigunum, bílskúr eða garð verða þannig bannaðar á heimilinu komplett.

Ákvörðun þessi er hluti af lífsstílsbreytingu sem ég hef verið að þoka mér í átt að undanfarin tvö ár. Lífsstíllinn sá einkennist af nokkurs konar smækkun og fækkun, þ.e.a.s. markmiðið er að smækka umfang lífs míns og fækka daglegum athöfnum. Líf mitt, líkt og annarra Íslendinga, var orðið eins og kreisí þeytivinda sem sjálfur Don Kíkóti hefði örmagnast í. Endalausar markmiðssetningar, endalaust skipulag, endalaus verkefni og endalausar ferðir fram og til baka til þess að koma þessum verkefna- og hugsjónalista í farveg.

Þegar ég var á einum stað, var ég óþreyjufull því mér leið eins og ég ætti að vera einhvers staðar annars staðar.  Og ég þoldi það ekki. Ég þoldi ekki þetta streð og þessa streitu. Þessi hlaup hingað og þangað. Og ég fyrirleit þá algengu hugsun að lífið ætti að vera einhver „vegferð“ með tilheyrandi vegvísum og markmiðum.  Fólk spurði oft á hvaða ferðalagi ég væri. Hvert ég stefndi í lífinu. Hvar ég vildi vera eftir 10 ár. Eða 20 ár. Mér fannst ég aldrei hafa nein svör, enda hef ég engan áhuga á því að vita eða sjá fyrir mér hvernig líf mitt verður eftir 20 ár. Ég fæ köfnunarkennd við tilhugsunina eina.   

Persónulega  finnst mér þessi vegferðmanía  vera eilífðar streð. Maður þarf stöðugt að branda sig, stöðugt að finna upp á nýjum verkefnum. Fólk er annað hvort að stækka við sig eða minnka við sig. Eða kaupa og gera upp. Eða skrá sig í nám. Endurnýja bílana sína, kaupa hús á Spáni. Skilja við maka sinn. Eignast nýjan maka innan árs. Gera garðinn að verðlaunagarði.  Rembast við að rækta plómutré á svölunum (því exótískara því betra).  

Hingað og ekki lengra muldraði ég við sjálfa mig. Ég vil hvorki vera sniðug né exótísk. Ég vil ekki setja mér markmið til þess eins að hlaupa eftir þeim eins og hamstur í hjóli. Og ég vil ekki fjárfesta í einu né neinu. Og ég nenni ekki á fjármálanámskeið til þess eins að læra að borga íbúðina niður á 25 árum í stað 40 ára. Og mér er nákvæmlega sama um það hvað Parmesan ostur eða gott salat kostar. Ég kaupi það samt.  

 Ég vil bara lifa litlu og sætu lífi, með fáum markmiðum og fáum framtíðardraumum.  Ég vil drekka rauðvín og elda góðan mat. Stunda ketilbjöllurnar mínar af hörku og hlaupa úti þegar sá gállinn er á mér. Segja brandara, fara í leikhús og lesa góðar bækur. Hlusta á tónlist og vera ástfangin. Fara í bölsýniskast af og til og jafnvel smá niðurrif á köflum.  Því neikvæðni er kúl og ég er kúlust.


Þorsteinn J. og konurnar

Þorsteinn J. hefur alltaf verið vinsæll hjá kvenþjóðinni. Einu sinni voru vinsældirnar mestmegnis rómantískar (þær eltu hann á börunum eftir skilnaðinn) en nú eru þær heiftúðugar (þ.e. bæði vinsældirnar og konurnar). Þar er Jafnréttisstofa fremst í flokki. Að sögn talsmanna (kvenna?) hennar fer Þorsteinn J. í bága við jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið þessa samfélags þar sem HM stofan skartar oftar en ekki körlum en konum (ég hef þó oft séð handboltakonu þarna en kannski er ég að rugla saman).

Þorsteinn J. svarar þessari gagnrýni á þann veg að hann velji í þáttinn eftir hæfni en ekki kyni. Og segir að kyn eigi ekki að ráða ferðinni á faglegum vettvangi sem þessum. Einnig hefur hann fullt ritstjórnarvald í þáttagerðinni og ræður því för, svona að mestu leyti. Þorsteinn, sem og aðrir, eru jafnframt þreyttir á ábendingum Jafnréttisstofu og vilja vinnufrið.

Ég skil Þorstein J. vel. Það er þreytandi þegar fólk pikkar í störf manns linnulaust á forsendum sem snerta hvorki handbragð né innihald.  Á hinn bóginn er ég einnig sympatísk gagnvart Jafnréttisstofu. Og skil ábendingar hennar vel. Líkt og Björg Magnúsdóttir segir i í pistli sínum á Pressunni, er það hlutverk Jafnréttisstofu að vera með ábendingar og tilmæli um það hvað má betur fara í stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Jafnréttisstofa er því ekki að "bögga" Þorstein J. sér til gamans heldur er hún einungis að sinna hlutverki sínu sem framvörður jafnréttis. Hvað sem okkur hinum kann að finnast um það. 

Ég trúi Þorsteini þegar hann segir að það sé fyrst og fremst faglegt mat hans sem ráði því hverjir veljast í HM stofurnar. Og ég stórefa að hann sé karlrembusvín. Á sama tíma finnst mér hann taktlaus. Og skammsýnn. Að sjálfsögðu myndi það gefa þessari dagskrárgerð meiri dýpt ef flóran í viðmælendahópnum væri meiri. Ef ég væri hann þá myndi ég tvímælalaust vera með fleiri konur í þættinum, einnig útlenda íþróttamenn og/eða fjörgamla handboltaleikmenn á eftirlaunum. Ég myndi einnig skipta gestum oftar út og jafnvel bregða á leik. Þessu til viðbótar væri skemmtilegt að brydda upp á þeirri nýjung að vera með leikmenn innanborðs en ekki fagmenn, þ.e. áhugamenn um handbolta sem hafa hvorki spilað hann né þjálfað. 

Þannig fyrirkomulag myndi án efa festa mig við skjáinn lengur en 3 mínútur í senn. . Enda er íþróttatengt dagskrárefni afþreying sem fólk horfir á sér til skemmtunar en ekki af skyldurækni. 

Ég ætlast þó ekki til þess að Þorsteinn J. gjörbreyti dagskrá sinni óforvarandis, án nokkurs undirbúnings. Það liggur mikil vinna að baki þessum þáttum og ekki hlaupið að því að breyta þeim. Ég skora þó á hann að gera þetta líflegra og skemmtilegra næst, og þá með fjölbreytileikann að leiðarljósi. Samfélaginu til heilla. 


Óður til yndislegra ríkisstarfsmanna

Í erfiðleikum kreppuáranna er gagnrýni meira metin en lof. Og er undirrituð engin undantekning frá því. Hið opinbera er andsetið og reynir helst að gera okkur allt til miska. Er viðkvæðið. Sei sei já. En vegna þess að undirrituð trúir á jafnvægi í kosmósinu (og hinn helga dúett yin og yang) þá er nauðsynlegt að benda á jákvæðar upplifanir einnig. 

Ég elska tollstjóra. Og allt hans fólk. Takk fyrir túkall.  Vegna endalausra tekjuskattsskulda (þ.e. verktakatekjur fyrst þið viljið endilega vita það) á ég orðið heimangengt í hýbýlum tollstjóra. Og fer alltaf til uppáhaldskonunnar minnar þar. Og sem um þessa djöfulsins skuld. Og geng ætíð burt með bros á vör. Því þessi kona er svo yndisleg. Eins og allt fólkið þarna inni. Hún er alltaf til í að sveigja og beygja allt kerfið bara til þess að smáa ég nái endum saman. Ég fór til hennar í morgun. Með smá kvíðahnút í maga. Í fyrra borgaði ég xx þúsund krónur aukalega á mánuði í skatt, sem var satt best að segja að sliga mig. Og ákvað því að reyna að ná þessari afborgun niður. Ég setti því á mig varalit (virkar einnig á konur) og kíkti í heimsókn til til sæta tollstjórafólksins í morgun. Þar settist ég niður og sagði þessi gullvægu orð (sem virka alls staðar btw): "ég er ekki að ná endum saman og væri því afar þakklát ef hægt væri að lækka upphæðina eitthvað en skil samt MJÖG vel ef engar heimildir eru fyrir því."Og viti menn,upphæðin var lækkuð um helming. 

Þetta er ekki eina dæmið um góðsemi opinberra starfsmanna í samfélagi okkar. Hvert sem ég fer mætir mér fólk sem sýnir mér skilning og tillitsemi. Og reyna á heimildir laga og reglna eins og hægt er til þess að draga úr slæmum áhrifum kreppunnar á peningaveskið. Enda eru þau vel flest í sömu súpunni ekki satt? Þau eru öll að hamast við að ná endum saman og þekkja þessa baráttu. Mér þætti það afar gefandi ef við gætum tekið höndum saman, sem almenningur í kjarabaráttunni, í stað þess að berjast svona innbyrðis. Útrásarvíkingar og fjárglæframenn græða á sundurleysi þjóðarinnar því það dregur úr áhuga okkar á afbrotum þeirra og orkunni til þess að draga þá til saka. 

Sameinuð stöndum vér á vel við í þessu tilviki. Og í tilefni þess segi ég áfram ríkisstarfsmenn. Þið eruð best! 

Ástarkveðja, snj. 

 


Má bjóða þér smá neikvæðni með þessu? Eða hroka?

Það fer væntanlega ekki framhjá neinum læsum einstaklingi með sæmilega heyrn að við mannfólkið stöndum okkur ekkert sérstaklega vel í lífinu. Margir jafningja okkar (sem þá væntanlega standa sig ekkert alltof vel í lífinu sjálfir) þreytast ekki á því að benda okkur á aulaskapinn í okkur.  Og hía hæðnislega .

Við stöndum okkur ekki nógu vel í vinnu. Við slökum of mikið á þar. En í þeim undantekningartilvikum þar sem fólk leggur sig fram þá er það auðvitað bara að drepa sig á perfeksjónisma. Get a læf heyrist þá á innsoginu.

 Við erum heldur ekki læs á fjármál (og fáum 10 vandarhögg fyrir). Ú á þessa aula. Svo erum við alltof breysk. Höldum framhjá (þegar allir vita að það er langbest að ræða málin við makann á þroskaðan máta og leysa vandann en to tre). Við erum lélegir foreldrar. Kennum börnum okkar ekki aga og höldum þeim ekki nægilega vel að námi. Og í þeim tilvikum þar sem við höldum þeim að námi, erum við að leggja of hart að þeim. Aumingja börnin eru þá bara framlenging á foreldrunum. Farðu  bara sjálf í skóla og brilleraðu segir maður við þannig foreldri. Láttu barnið eiga sig.

Við konur erum aukinheldur afar stjórnsamar. Og þyrftum að temja okkur meiri sveigjanleika í lífinu. Annars gefast allir upp á okkur. Og svo erum við með svo mikið samviskubit (dísöss  kræst). Sem er auðvitað bara masókismi (þessar kjellingar).  Og kynlífið. Jeminn eini. Konur eru svakalega lélegar þar. Þegar kynlífsdrottningar minnast á raðfullnægingar verðum við bara kindarlegar í framan. Rað hvað? Er það ekki bara fyrir konur í Ameríku? Eða búddista? Kynlífsdrottningarnar ranghvolfa augunum við þessi svör. Kommon stelpur segja þær. Þið verðið að fara að lifa í núinu. Konur nota bara 5% af kyngetu líkamans.  Sem er auðvitað bara rugl. Takiði secretið á þetta. Raðfullnæging er ómissandi þáttur í lífshamingjunni.

Við erum líka of feitar. Eða æfum ekki nóg. En í þeim tilvikum þar sem við æfum nóg, æfum við of mikið. Þá erum við með líkamsræktarrexíu og þurfum að fara upp á Stuðla. Get a læf heyrist enn og aftur.

Svo er það nýjasta gagnrýnin. Við erum of neikvæðar. Við erum ekki að fá út úr lífinu það sem við getum fengið. Við þurfum að taka jákvæðnina á þetta og allt mun koma heim og saman. Tökum vinnuna bara með trompi. Skiptir engu máli hvort þú mokir skurð og ofan í hann aftur. Ef þú ert bara jákvæð og hefur ofurtrú á eigin getu þá mun þessi skurður breytast óforvarandis í peninga. Og reynið líka að vakna hressar á morgnana. Þá morgna sem maður staulast fýldur á fætur er dagurinn algjörlega ónýtur. Þið getið kysst þann dag gúddbæ. Skynsamlegra er að vakna syngjandi, gera nokkrar armbeygjur og standa svo gleiður fyrir framan spegil og segja: snj, þú ert stórkostleg manneskja. Þú getur allt. Endurtaka 100 sinnum og deginum er reddað.

Og svo erum við ekki nógu meðvituð um þá gjöf sem lífið er. Að fá tækifæri til að lifa á þessari plánetu og gera alla þessa skemmtilegu hluti. Bara það eitt að vaska upp á að færa okkur gleði og hamingju. Og hlusta á andardrátt heimilismanna þegar þeir sofa á næturnar. Þá á maður að fyllast þakklæti og auðmýkt. Því lífið er hverfult. Og það þýðir ekkert að malda í móinn og benda á þá staðreynd að maður þekkir ekkert annað en lífið. Afar fá okkar hafa einhvern tímann dáið. Og eiga erfitt með að ímynda sér það. En það er þá væntanlega vegna þess að við lifum ekki í núinu. Í núinu gerast sko hlutirnir, þar er aksjónið og þar er hamingjan.

Ef ekki, þá höldum við áfram að lifa sama leiðindalífinu og allir aðrir. Vera áfram meðalmanneskja sem fitnar bara og sér engan árangur í neinu. Sem telur hverja krónu (í stað þess að búa til fullt af peningum með hugaraflinu einu saman) og á frek börn og mann sem heldur framhjá.  Og þjáist af samviskubiti, neikvæðni, þunglyndi og kvíða.  Að sögn snillinganna erum við einfaldlega ekki nógu miklir snillingar! Það er í raun mildi að við sitjum ekki bara og borum í nefið.

Satt best að segja er ég orðin þreytt á þessu. Ég nenni ekki að hlusta á þessa eilífu gagnrýni. Lífskúnsterar eru ekki til. Þeir eru bara sjálfskipaðir hottintottar. Ég ætla því að gerast minn eigin snillingur. Ég ætla að að dekra börnin mín áfram af minni alkunnu snilld. Ég ætla líka að hlúa áfram að þeirri hæfni minni að vera óskipulögð og vera neikvæð á köflum. Og bölsýn. Og hrokann ætla ég að taka með annarri hendi takk fyrir.  Barlómurinn verður áfram á sínum stað ásamt samviskubitinu og kvíðanum. Því ég er sko snillingur!

 


Hamingjusama hóran er dauð!

Sama hvað allir Níelssynir segja þá er vændi aldrei góður fjárhagslegur kostur fyrir neina konu undir neinum kringumstæðum. Og hamingjusama hóran er lygasaga sem er sögð til þess að slá ryki í augu kvenna. Og við þurfum engar vísindalegar niðurstöður til þess að sýna fram á þetta. Bara ekki aldeilis.

Það eina sem við þurfum að gera er að skoða karlar/konur ratióið. Og þetta gildir um allar atvinnugreinar. Ef einhver reynir að halda því fram að ákveðin atvinnugrein sé arðbær eða fjárhagslega lokkandi á einhvern hátt þá geturðu gengið út frá því sem vísu að karlmenn eru í meirihluta þar. Alltaf. Ef þeir eru það ekki, þá er verið að ljúga þig fulla.

Sjáum bara hjúkrunarstarfið og leikskólakennarastarfið, þar sem konur eru í yfirgnæfandi meirihluta. Enn betra dæmi er þó grunnskólakennslan sem var áður karlastarf en er nú kvennastarf. Mér skilst að launin hafi lækkað línulega með hverri konu sem tók við kennslustarfi af karlmanni.

Ekki reyna að koma með þau mótrök að karlar séu ekki í þeirri arðbæru atvinnugrein sem vændi er vegna þess að konur myndu ekki kaupa vændi. Í fyrsta lagi vitum við lítið um það (þar sem karlastéttin hefur aldrei náð að blómstra í því ) og í öðru lagi skilst mér að fjöldi tvíkynhneigðra karla sem og fjöldi karla sem eru forvitnir um kynhegðun tveggja karla sé ærið mikill, jafnvel svo mikill að karlar gætu grætt feitt og jafnvel farið í útrás.

Við konur munum því ekki hlusta á neinar sögur um hamingjusamar hórur fyrr en sagan um hamingjusama hórkarlinn hefur orðið að veruleika.


Lostafulli ríkisstarfsmaðurinn: ég get alveg verið góður ef ég fær bara að hafa sverð.

Fyrir ekki svo löngu sat sonur minn grafkyrr og hlýddi á eitthvað í sjónvarpinu. Ég var á þönum um íbúðina í tiltekt og var kyrrðinni þakklát. Svo lækkar hann í sjónvarpinu, kemur til mín og spyr: mamma hvað er hór og losti? Ég missti andann sem snöggvast og spurði strax: á hvað varstu að horfa í sjónvarpinu? Einhvern þátt um guð og presta sagði barnið og sýndi mér. Jú jú mikið rétt. Þetta var þáttur um guð og presta. Á sjónvarpsstöðinni Omega.

Ég slökkti á sjónvarpinu og sagði barninu mest lítið um hór og losta. Og komst upp með það. Sem gerist aldrei. Þetta er mjög aðgangsharður drengur þegar hann vill við svo hafa. Á þessum tímapunkti held ég þó að hann hafi skynjað að satt mætti kyrrt liggja. Að móðir hans myndi jafnvel þurfa að sakfella sjálfa sig.

En það er af sem áður var. Barninu hefur vaxið ásmegin síðan þá. Þegar ég var að lesa með piltinum í gærkvöldi spurði hann mig óforvarendis afhverju losti væri svona vondur. Af hverju prestar byggju til myndir um hann. Ég svaraði sem svo að losti væri ekki vondur í sjálfu sér. En ef fólk léti stjórnast af honum (alfarið) gæti það gert hluti sem það sæi eftir. Og áttaði mig samstundis á því að ég hefði stigið eins og saklaust barn beint í gildru stráksa.

En mamma, hvað er þá eiginlega losti? Eru allir með losta? Er þetta kannski geðveiki? Úr augum barnsins skein spenna, ekki sakleysisleg forvitni heldur púra spenna. Kannski fyrirboði lostans seinna meir? Ég vildi standa vaktina og sagði honum að losti væri brjálæðislega mikil löngun til að vera með annarri manneskju og snerta hana. Við þetta slokknaði spennan í augum sonarins. Nú, losti er þá bara góður, tautaði hann. Nei nei sagði ég, losti er ekki beint góður. Þú vilt í raun ekki snerta aðra manneskju hennar vegna, miklu frekar þín vegna. Spennan jókst aðeins aftur í augum barnsins. Afhverju þín vegna? Afhverju ekki hennar vegna spurði hann bísperrtur.

Hin manneskjan vill það alveg, sagði ég,  en þú ert samt ekki að gera þetta til þess að vera góður við hana, ekki svona í sjálfu sér. Úr augum barnsins skein nú hvorki spenna né vonbrigði. Heldur tortryggni. Þú ert að plata mig mamma. Þetta er alveg eins og með jólasveininn. Þú vildir aldrei segja mér að jólasveinninn væri ekki til og nú viltu ekki segja mér að það sé til losti og að hann sé vondur. Ég ætla að trúa sjónvarpinu og prestunum. Það er víst til losti. Svo sneri barnið sér á hina hliðina og sagði góða nótt stuttur í spuna.

Ég er úrvinda. Hvað eiga mæður að gera? Losti er vissulega til. En hann er ekki vondur. Losti er svona hvorki né. En hvernig á ég að skýra það fyrir barninu mínu að mannlegt samfélag er uppfullt af lygasögum sem það reynir að halda á lífi þó svo þær séu í eðli sínu frekar óspennandi. Jólasveinninn er óspennandi. En hann er lífsseig lygasaga. Og við berjumst við að halda henni á lífi. Lostinn er óspennandi í sjálfu sér. Einhver snertir þig (og andar svolítið þungt á meðan) og þú snertir hann (og andar lika svolítið þungt á meðan). Öfugt við jólasveininn er lostinn ekki lygasaga. En það að hann sé vondur er auðvitað lygasaga. Hór er til. En er það endilega vont? Jú segja menn. En hvað hafa þeir svosem fyrir sér í því? Afhverju er vont að drýgja hór?

Ég er góð móðir. Og ég elska afkvæmin af öllu hjarta. Og ég vil helst að þau gangi brosandi í gegnum lífið. En ég get ekki staðið lengur í þessum lygasögum. Ég get ekki verið enn einn burðarásinn í því að halda ósönnum sögum á lífi. Og mér veitist það erfiðara og erfiðara að móta börnin mín í það form sem samfélagið krefst þess að þau séu í. Að troða vel gefnum, óþægum syni mínum í hlutverk góða, bjarta drengsins er óvinnandi vegur (ég þyrfti sennilega að klóna hann bara). Að viðhalda dótturinni í prinsessuhlutverkinu er löngu tapaður leikur. Best að leyfa henni tæplega 18 ára gamalli stúlkunni að brenna prinssessuna á báli.

Þegar nánar er að gáð virðist góðmennskan aldrei vera fólgin í því að vera góður. Góð, lostafull kona sem drýgir hór en gefur fátækum eigur sínar mun ekki fá Fálkaorðuna. Frekar snöruna ef eitthvað er. Karlmaður, sem er heiðarlegur stjórnmálamaður, segir ávallt satt og lætur gott af sér leiða, en drekkur ótæpilega um nætur og heldur framhjá fær sennilega hvorki bálið né snöruna (misréttið veldur því að hórkarlar sleppa betur en hórkonur) en þyrfti þó að bíða ævina á enda eftir Fálkaorðunni. Þetta, kæru samferðarmenn er ekki win-win. Þetta er miklu frekar tap-tap.

Ég lýk þessum vangaveltum með því að vísa í son minn. Til þess að hylla sína menn í Star Wars og móður sína sem vill að hann sé góður, þá sagði hann einu sinni að hann gæti svosem alveg verið góður ef hann fengi bara að hafa sverð.  Spurning um að leyfa honum það bara?

Ástarkveðja til ykkar allra

 

 


Framhald af íslenska fasismanum í gamalli blokk á Kleppsveginum

Var rétt í þessu að koma úr geymslunni með litla syni mínum. Gamla konan á neðstu hæðinni var að ræða við asísku fjölskyldunna sem býr fyrir ofan hana. Hún var að kvarta yfir mannagangi og ónæði undanfarna daga. Á ensku. Maðurinn (sem er afar fágur asískur karlmaður á miðjum aldri) stóð óhaggaður ásamt unglingsdóttur sinni og sagði konunni að eiginkona hans hefði látist síðasta mánudag og nú væri sorgarvika hjá fjölskyldunni. Það væru bænastundir ásamt (einhvers konar) ritningalestri alla daga og flest kvöld. Aðstandendur og vinir væru því á stöðugri ferð fram og til baka. En að þessu muni ljúka á mánudaginn þegar konan væri lögð til hinstu hvílu.

Sú gamla hvikaði hvergi. Stóð áfram bísperrt. Sorg eða ekki sorg, bíttar engu. Maður á að kunna sér hóf þrátt fyrir það. Syrgja með reisn og trufla ekki nágranna sína sem vilja lifa sínu lífi í friði. Og sleppa sturtuferðum um miðjar nætur. Íslendingar eru sífellt að missa ættingja sína en eru samt til friðs og halda áfram að virða þetta samfélag.

Mér varð svo mikið um þetta að ég fór að skæla. Og gekk snöktandi upp. Hristi höfuðið yfir mannvonsku heimsins. Ég var rétt búin að hlamma mér úrvinda í sófann þegar bankað er á hurð mína. Og þar voru þau komin, ekkillinn og móðurlausi unglingurinn. Þau höfðu áhyggjur af litlu skælandi konunni og vildu athuga hvort þau gætu gert eitthvað fyrir mig. Og horfðu á mig einlægum brúnum augum sínum. Ég skammaðist mín smá fyrir tilfinningasemina, það voru þó þau sem áttu við sárt að binda. Ekki ég.

En í samræðum okkar komst ég að ýmsu um grannkonuna sem ég vildi óska að ég vissi ekki. Í krafti manngæsku sinnar er hún sífellt að benda þeim mildilega á að þeim liði eflaust betur í eigin landi, það er svo erfitt að búa hér í köldu kreppulandi. Það er heldur ekki gott að hafa það á samviskunni að hafa flúið eigið land. Maður á að taka fátæktinni með reisn og standa við hlið ættingja sinna í matarleitinni. Einnig hefur hún sagt að hér skilji þau enginn og að hér séu þau engir aufúsugestir. Hún vill samt ekki taka þátt í þeirri lygasögu að láta þau halda að þau séu velkomin. Nei nei. Mannvonskan felst í lyginni, ekki í hreinskilninni.

Í þessum samræðum okkar þriggja bar mest á tilfinningaseminni svona fyrst í stað. Þar til maðurinn áttaði sig á því að ég skildi nákvæmlega hvernig honum leið, þrátt fyrir orð gömlu. Við sameinumst nefnilega í hatri á gamla góðborgaranum hérna niðri. Fátt er víst meira sameinandi og nærandi en hatur. Í hatri standa allir menn jafnir, hvort sem um ræðir einstaklinga frá Asíu og Íslandi, af sitthvoru kyninu og sitthvorri kynslóðinni.

Á sellufundi okkar ákváðum við að hann myndi flytja út aftur og finna leigjanda að íbúðinni. Ekki útlending í þetta sinn heldur hreinræktaðan hvítan villing í Þjóðkirkjunni. Einvern sem er svo íslenskur í húð og hár að hann drekki allar helgar, spili Fjöllin hafa vakað og Stál og hníf á hæsta desíbeli, komi heim með flissandi gálur og ropi og reki við þess á milli. Kvenuglan mun sko fá að komast að því hvar Davíð keypti ölið!

Síðan kvöddumst við að hermannasið.


Á ég líkama minn eða þú?

Ég er frjálslynd manneskja. Meira að segja mjög frjálslynd. Ég vil leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum og sjoppum, ég vil óheftan opnunartíma skemmtistaða, ég væri sátt við opnun spilavíta hérlendis og vil leyfa sölu kannabisefna.

Þegar kemur að líkama mínum og þínum, hins vegar, er ég tvístígandi. Og að gefnu tilefni. Fátt er eins eðlislega kynjað og afstaða til vændis og nektardansstaða. Og margir karlmenn skilja það ekki. Samkvæmt mínu viti eiga karlmenn erfitt með að átta sig á hræðslu og viðbjóði kvenna til alls kynlífs sem verður til undir debet og kredit formmerkjunum. Margir karlmenn myndu gjarnan vilja vera í stöðu konu sem er þráð af mörgum mönnum, dansar íturvaxin fyrir framan þá og fær peninga að launum. Og þeir myndu gjarnan kjósa að sofa hjá mörgum einstaklingum í viku hverri (meira að segja ljótu fólki eins og einn karl komst að orði).  Þ.e.a.s með þeim mikilvægu formerkjum þó að viðskiptavinirnir væru KONUR en ekki KARLAR. Um leið og umræðan fer að snúast um sölu á vændi drengja til fullorðinna karla snúast forsendurnar við og karlar hrylla sig.

Hamingjusama hóran öðlaðist líf í hugarheimi karla. Ekki kvenna. Því get ég lofað ykkur. Allar konur vita að hamingjusama hóran er ekki til. Og það er ekki vegna þess að hórur verði alltaf fyrir ofbeldi eða búi alltaf við ógnir. Það eru án efa einhverjar vændiskonur til sem hafa aldrei óttast um líf sitt og eru með tiltölulega prúðan viðskiptavinahóp. Og einnig þokkalega menntaðar. Enda snýst þetta ekki um ógnir, líkamsmeiðingar og félagslega stöðu. Þetta snýst miklu frekar um innri tilfinningar kvenna, tilfinningar sem konur skilja betur en karlar. Tilfinningar sem standast ekki nánari skoðun röklega séð, enda eru tilfinningar oft frumstæðar og frekar flóknar. Við konur vitum og skynjum örvæntingu þeirra kynsystra okkar sem selja líkama sína. Og við vitum einnig að þær selja sál sína í leiðinni. Líkami og sál kvenna er nefnilega samofið fyrirbæri. Annað verður illmögulega selt án hins.

Konur sem eru alfarið andsnúnar vændi (og vilja hert viðurlög við kaup á því) og nektardansstöðum eru sagðar vera leiðinlegar feministabeljur sem eru afbrýðisamar út í fagurlimaðar nektardansmeyjar og vilja þar af leiðandi ekki láta þær skyggja á sig. Það má vel vera að þessar konur séu femínistar. Og það má vel vera að þær séu beljur. Og þá má vel vera að þær séu leiðinlegar. Og það má vel vera að þær séu nornir sem nota árþúsundagamlan seiðkraft til að lama getu karla. Og dæmi nú hver fyrir sig. En sem kona veit ég að andstaða þeirra við vændi og nektardans er EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM kominn til af öðru en umhyggju þeirra fyrir kynsystrum sínum. Um aðferðir má alltaf deila (og er hollt í þessu tilviki) en ekki um þann hug sem þarna liggur til grundvallar.

 Mér þykir sjálfri óendanlega vænt um kynsystur mínar. Mér finnast þær stórkostlegar og þær hafa auðgað líf mitt á svo margan hátt að ómögulegt væri að telja það upp. Þær hafa komið mér í gegnum erfiðustu stundir lífsins, ýmsa hildarleiki sem margur karlmaðurinn hefði tapað fyrir löngu. Konur hugsa um sínar, styðja hver aðra og telja það ekki eftir sér.

Sem er ástæðan fyrir afstöðu margra kvenna til vændis og nektardansstaða. Í sinni einföldustu mynd eru þetta bara konur sem eru að reyna að vernda aðrar konur. Punktur.

Líkt og ég sagði frá að ofan þá er ég tvístígandi. Ég er ekki tvístígandi vegna þess að einhvers staðar kunni að leynast hamingjusöm hóra (ég veit hún er ekki til). Ég er tvístígandi vegna þess að ég er ekki viss um að hert viðurlög gegn vændiskaupum eða bann við nektardansstöðum hjálpi kynsystrum mínum.  Vegna þessa þá kalla ég eftir umræðu um aðferðir og leiðir. Og frábið mér skítkast og skotgrafahernað. Og vil gera öllum þarna úti ljóst að a.m.k. í þessu tilviki  eru konur(feminístar?) ekki í baráttuhug vegna einhvers óyndis eða ófullnægju. Þær eru ósköp einfaldlega að gæta systra sinna.


Ég vil kirkjufrí og það strax!

Mér leiðist kirkjan. Mér leiðist trú. Mér leiðast boðorðin 10. Þess vegna ákvað ég að standa með guðleysingjunum og styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Það var nebblega það. Ef ég hefði vitað út í hvað ég væri að fara hefði ég snarhætt við og fengið mér nýja kennitölu.

Bloggfærslurnar, Kastljósumræðurnar, fésbókarstatusarnir og pistlarnir um trúboð og kristna kirkju eru endalausir. Og virðast margfaldast í viku hverri. Það er hvorki hægt að opna dagblað né sæna sig inn á netið án þess að reka augun í þessa umfjöllun. Ég reyndi meira að segja um daginn að ganga um hverfið með augað dregið í pung en allt kom fyrir ekki. Umræðan barst mér til eyrna. Ég, sem guðleysingi, er í tísku. Vandinn er bara sá að kirkjan er líka komin í tísku. Kirkjan og kirkjunnar þjónar hafa aldrei fengið jafn mikla athygli í íslensku samfélagi og nú. Guð sjálfur hefur aldrei fengið jafn mikla athygli og nú. Meira að segja unglambið Jesús Kr (eins og einn hjartfólginn mér kallar hann) hefur aldrei verið jafn vinsæll og nú.

Ég sit í rúminu og rita þennan pistil með mikilli eftirsjá. Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei hróflað við kirkjunni. Ég vildi óska þess að ég hefði bara leyft henni að dorma áfram milli svefns og vöku. Ég afber ekki annan pistil um trúboð. Ég afber ekki annan pistil frá öðrum föður gegn trúboði. Ég afber heldur ekki fleiri lúðabrandara þess eðlis að með kirkjunni fari jólin (við vitum að íslenskir kaupmenn myndu aldrei heimila það). Eða páskaeggin. Ég vil frí! Kirkjufrí!


Mad Men - veröld hinna klikkuðu karlmanna

Ég er algjörlega dottin í Mad Men. Og þeir eru svo sannarlega mad. Það sem gerir þættina svona einstaklega áhugaverða (fyrir utan brilljant handrit og góðan leik) er sú mynd sem þeir draga upp af verkaskiptingu og hlutskipti kynjanna á eftirstríðsárunum í Bandaríkjunum.

Það sem gerir þáttaröðina svo sérstaka er að hún fjallar ekki um skarðan hlut kvenna. Ekki þannig. Hinsvegar dregur hún upp mynd af því hversu óeðlilegt það var manneskjunni að lifa í sitthvorri veröldinni. Karlar á einum stað (alltaf) og konur á öðrum stað (alltaf). Líkt og einhverjir fræðimenn hafa haldið fram þá er það alveg nýtt í mannkynssögunni að ein manneskja (kona) sé lokuð ein inni með börnum sínum daginn út og daginn inn. Þó svo konur hafi ætíð verið í umönnunnarhlutverkinu þá var nándin við aðrar konur (og verkafólk í tilviki bændafjölskyldnanna) alltaf mjög mikil. Og samvinnan líka. Til að mynda hef ég aðeins verið að glugga í íslenska kvennasögu (sem mér finnst svo heillandi) og þar kemur samvinnuþátturinn sterklega fram meðal bæði bændafjölskyldna og sjómannsfjölskyldna. En sjómannseiginkonur unnu húsverkin að nokkrum hluta saman og gættu barna í sameiningu. Tóku líka slátur o.s.frv.

Þó þessi umræða sé ekki ný er það alveg glænýtt að fjalla um óhamingju karlmanna í þessari veröld. Óhamingja karlmannanna í Mad Men þáttunum er ólýsanlega sár. Karlmennirnir eru alltaf í vinnunni. Þeir eru lítið heima. Þeir skilja hvorki konur sínar né börn. Enda eru þeir ótengdir þeim tilfinningalega og kunna ekki að nálgast þau. Roger er gott dæmi en honum hefur ekki tekist að ná til dóttur sinnar frá unga aldri. Og þetta kvelur hann. Hann segir t.d. einu sinni við ástkonu sína að hann hafi ekki heyrt dóttur sína hlæja frá því hún var 7 ára gömul. Og vanmáttur hans og söknuður eftir dótturinni er alger.

Í þessum fullkomnlega aðskildu heimum skilur karlmaðurinn ekkert í veröld konu sinnar og barna og vísa versa. Konurnar skilja ekkert í veröld karla. Hjón höfðu því eiginlega ekki um neitt tala. Börnin uxu úr grasi, giftu sig og fluttu að heiman án þess að faðirinn gæti stutt þau né sagt bless þegar þau fóru. Þessir karlmenn áttu einnig sameiginlegar minningar. Feður þeirra höfðu allir lamið þá eða flengt á einhvern hátt og reynt af hörkunni einni saman að koma þeim til manns. Karlmaður á ekki að gráta og karlmaður á ekki að finna til. Karlmenn eiga að standa sig í fyrirvinnuhlutverkinu eða hljóta skömm fyrir. Þessi pressa á Mad Men karlanna að meika það er ótrúleg.  Ein eiginkvennanna (sem var nýorðin ófrísk) beinlínis bannaði manni sínum að koma heim fyrr en hann hefði farið inn til yfirmanns síns og beðið um launahækkun. Sem hann og gerði eftir langa kvöð og mikinn kvíða.  Flestar eiginkonurnar vilja stórar og fallegar íbúðir, falleg föt og ýmis önnur stöðutákn og verða mennirnir að bregðast við þeim óskum.

Þetta veldur því að samkeppni þessara manna er gríðarleg. Þeir þykjast vera vinir en eru í raun að alltaf að reyna eyðileggja hver fyrir öðrum. Hnefarétturinn ræður og sá sterkasti lifir af. Þeir eru alltaf á varðbergi, alltaf að reyna að gera betur en sá næsti.

Don Draper, aðalsöguhetjan, er glæsilegur, vel gefinn maður og lekur þokkinn og velmegunin af honum. Hann á gullfallega eiginkonu (Betty), falleg börn og fallegt hús. Þrátt fyrir þetta heldur hann við konur sem eru eiginkonunni síðri útlitslega séð en eru þeim mun skemmtilegri. Hafa meiri reynslu en konan hans af lífinu og bisnessnum.

Don skilur ekkert í konunni sinni. Hún er fremur þunglynd, hæg og ófélagslynd á köflum. Óhamingjan umlykur hana eins og ský. Ég elskaði þessa konu frá fyrstu mínútu. Sérstaklega vegna þess að ég veit afhverju hún er svona óhamingjusöm. Flestir telja líklegt að hún sé óhamingjusöm vegna þessa hlutskiptis kvenna að vera heimavinnandi. En ég veit betur. Óhamingja hennar ristir miklu dýpra en svo.

Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að hún lifir fyrir manninn sinn. Hún hreinlega dýrkar hann og bíður allan daginn eftir því að hann komi heim. Sumir myndu kannski ekki líta á þetta sem vandamál, segja jafnvel að það sé grundvöllur hjónabandsins að lifa fyrir hvort annað. Err. So very wrong.  

Ég þekki þetta nefnilega af eigin raun. Í mínu hjónabandi lifði ég fyrir manninn minn fyrstu árin. Mér fannst lifið hefjast þegar hann kom heim úr vinnu. Og beið því allan daginn eftir honum. Ég var upptekin af því að búa til afbragðs mat til þess að gleðja hann og ‚fara mér ekki að voða‘ svo hann yrði ekki áhyggjufullur (ég er svo viðutan manneskja að hann var sannfærður um það að einhvern tímann yrði það mér að aldurtila. Takk fyrir. Því miður hafði hann oft rétt fyrir sér. Vandræðin sem ég kom mér í! Jæja, en þetta er útúrdúr. Segi frá því seinna).

Þetta var mjög sársaukafullt tímabil í lífi mínu. Ekki vegna þess að Mark er slæmur maður. Nema síður sé. Hann er bæði vandaður og góður. Vandinn fólst í því að þegar maður lifir fyrir aðra manneskju þá fær maður aldrei nóg. Enda fékk ég aldrei nóg. Þegar maður lifir fyrir aðra þá gerir maður viðkomandi ábyrgan fyrir gleði manns og hamingju. Og engin manneskja undir sólinni veldur því. Engin ein manneskja nægir til þess að gera líf manns innihaldsríkt og gefandi. Þetta breyttist þó smám saman og núna er ég staðráðin í því að lifa aldrei aftur fyrir aðra manneskju. Enda á þetta ekkert skylt við ást.  

Betty vesalings Draper er ekki að vaxa upp úr þessu. A.m.k. ekki enn. Og eiginmaðurinn áttar sig engan veginn á flóknum vanda eiginkonunnar. Hann heldur að Betty lifi góðu lífi. Hún hugsar um börnin, hittir vinkonu sína reglulega og stundar einnig hestamennsku. Þegar Betty fer að sýna einkenni þunglyndis, fallast Don hendur. Hann skilur þetta ekki. Hann hefur varið ævinni í að flýja sínar dimmu hugsanir og skilur ekki afhverju Betty gerir það ekki líka. En Betty vill alltaf meira og meira frá Don. En Don stendur engan veginn undir þeim kröfum. Ekki vegna þess að hann sé vondur og leiðinlegur heldur vegna þess að hann getur ekki verið náinn annarri manneskju. Hann þolir ekki að bera tilfinningalega ábyrgð á öðru fólki. Hann þolir ekki að vita til þess að fólk reiði sig á hann í lífinu og flýr slíka ábyrgð við fyrsta tækifæri.

Don ólst sjálfur upp við erfiðleika í æsku og til að eiga kost á betra lífi sviðsetti hann eigin dauða og yfirgaf fjölskyldu sína, m.a. lítinn bróður sem elskaði hann og dýrkaði. Þessi harmur setti mark sitt á hann og skilgreinir líf hans. Enda heldur Don áfram að vera þessi maður sem getur ekki bundist öðrum djúpum tilfinningaböndum. Og svo munaði minnstu að þetta yrði að mynstri. Eitt skiptið, í miklum erfiðleikum, ætlaði Don að einfaldlega að flýja aftur. Láta sig hverfa úr lífi konu sinnar og barna og hefja nýtt líf. Það gerðist þó ekki (sem betur fer) en hættan er enn til staðar. Don áttar sig ekki á því að hann grefur sína eigin gröf. Ef hann yfirgefur fjölskylduna sína núna, á þennan hátt, mun hann ráfa um lífið og veröldina þar til hann deyr einhvern tímann, aleinn.

meira seinna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband