Færsluflokkur: Bloggar
19.9.2010 | 09:55
Afhverju getum við aldrei verið bara miðlungs?
Íslendingar eru aldrei meðalmenn. Hvorki meðalgóðir né meðalslæmir. Við héldum að við værum súpergóð í ensku (eiginlega betri en enskumælandi þjóðir) þar til niðurstaða rannsóknar einnar drap það fyrir okkur. Núna erum við léleg í ensku, svo léleg að allir fengu varaklemmu í pósti sem skal notast í hvert sinn sem útlendingur reynir að tala við okkur.
Við vorum best menntaða þjóð heims. Í fjölmiðlum var sífellt verið að vísa í hátt menntunarstig þjóðarinnar. Fiskvinnsla og landbúnaður var fyrir neðan okkar virðingu, við sem erum svo hámenntuð. Hið háa menntunarstig þjóðarinnar átti að bjarga okkur frá öllu. Fátækt og kreppu (og bara leiðindum yfirhöfuð). En nei, þetta var líka vitleysa. Núna erum við herfilega lítið menntuð, og stöndum öðrum þjóðum langt að baki. Ekki nema 18-20% fullorðinna með BA próf.
Útrásarvíkingarnir okkar voru hetjur. Sem við hylltum. Innst inni fannst flestum þetta ekkert merkilegt svona þannig, við höfum alltaf vitað í hjarta okkar að við værum best. Núna fengi umheimurinn loksins að finna fyrir áhrifamætti litlu þjóðarinnar í Atlantshafi. Nei nei nei! Við höfðum kolrangt fyrir okkur. Útrásarvíkingarnir eru þjófar, illa innrættir og til að toppa það þá eru þeir ósexý líka. Bjöggi Thor er ekki eins sætur og hann heldur (beinið). Við erum engir bisness snillingar heldur Nígerísk í eðli. Við eigum ekkert erindi í svona bisness.
Á Íslandi var mesta jafnrétti kynja í heimi (eða svona næstum því). Við hreyktum okkur af íslensku fjallkonunum okkar sem mennta sig, hugsa um bú, og eru í vinnu með. Konur sem gustar af. En ekki lengur. Nú er búið að sýna fram á að hér ríkir lítið jafnrétti þrátt fyrir skýrslu þess efnis sem setur Ísland í toppsætið. Og ekki nóg með það, heldur eru karlmennirnir svo snartjúllaðir að engin önnur lækning dugar en að þeir hoppi upp í rassgatið á sér.
Einu sinni vorum við líka heilsuhraustasta þjóð í heimi (að okkar mati). Við hlupum um stokka og mela, léttfætt eins og hindir. Áttum heimsfræga kraftakarla sem ráku alla útlendinga í rogastans. Áttum líka heimsfrægan álf, sem hoppaði um í flikk flakki í stað þess að ganga og kenndi börnum heimsins að borða gulrætur og kál. Krafti okkar voru engin takmörk sett. En ekki lengur. Raunin er nefnilega sú, segja sérfræðingar, að börnin okkar eru spikfeit og ættu best heima í Hans & Grétu ævintýrinu. Sem er til skammar fyrir víkingaþjóðina.
Náttúrueðli okkar var einnig stórkostlegt. Við áttum ósnortnustu náttúru í heimi. Ósnortnari en himnaríki. Nú er hún mest virkjaða náttúran og segja sumir að hún sé tífalt virkjaðri en hún ætti að vera. Við getum því gleymt náttúrunni í komandi framtíð.
Það sem eftir stendur af þessari umræðu er það að Íslendingar eru lítið menntaðir, lélegir í ensku, útiloka konur, eiga akfeit börn, eiga viðbjóðslega tífalt virkjaða náttúru og búa í Nígerísku hagkerfi.
Afhverju getum við aldrei verið bara miðlungs?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2010 | 07:28
er friður í sálinni á yður?
Ég elska frið. Og átta mig alltaf betur og betur á því hvað ég er mikill friðarsinni. Eða friðarfrekja öllu heldur. Og þá er ég ekki að tala um baráttuna gegn stríði í heiminum. Eða baráttuna fyrir friði. Nema síður sé. Ég krefst þess að það sé friður í kringum í mig. Svo ég vísi í orð mikilmennis (man ekki hvort það var Gandhi eða einhver álíka) ,,til þess að ná fram friði í heiminum þá þarf fyrst að ríkja friður í sálinni þinni.
Vegna þessa tek ég ekki þátt í neinu stappi eða veseni í mínu lífi. Ég hjala í vinnunni og ég hjala heima. Þegar dóttir mín hringir í mig hundpirruð á yngri bróður sínum þá segi ég henni blíðlega að finna einhvern góðan flöt á málinu. Ég segi henni jafnframt að ég kýs mér líf án svona átaka og því verði hún að leysa málin án minnar hjálpar. Ég hef meira að segja sett eyrnatappa í eyrun í einni slíkri senu hjá þeim. Ef það er ekki ofbeldi við hönd eða ljótar persónulegar móðganir látnar falla, þá kemur mér þetta ekki við. Enda hefur dregið verulega úr þeirra átökum.
Nú gengur líf mitt út á að draga úr átökum. Lykillinn er auðvitað sá að ekki er hægt að berjast gegn ófriði með ófriði. Ekki satt? Um daginn datt mér snilldarráð í hug. Kannist þið ekki við fýluna og leiðindin sem stundum mæta foreldrum þegar þau eru nýkomin heim úr vinnunni? (Reyndar er það nú þannig að foreldrarnir eru sjálfir fýldir og leiðinlegir á þessum stundum). Ég kom heim og mætti fýlupúkum. Ég sagði ekki orð heldur gekk beint að heimabíóinu og setti tónlist á, frekar háa en samt þægilega. Skemmtilega, melódíska dægurtónlist sem flestir geta hlustað á. Áhrifin voru ótrúleg. Eftir örfáar mínútur var dóttirin farin að syngja með (ómeðvitað) og sonurinn að raula. Með glampa í augunum. Ég varð nánast orðlaus yfir þessum áhrifum. Þetta vil ég gera á hverjum degi, koma heim og setja tónlist á. Jafnvel eitthvað sem ég veit að þeim finnst skemmtilegt. Og andrúmsloftið gjörbreytist og verður mér að skapi.
Svo er annað sem mig langar til þess að deila með ykkur. Og það er regluverkið. Þetta leiðinda regluverk sem gerir fjölskyldulíf og foreldrahlutverkið oft svo erfitt. Margir foreldrar upplifa að til þess að vera fyrirmyndarforeldri þá þarf að fylgja ákveðinni uppskrift. Setja sig í hlutverk. Eitt dæmi um þetta er kvöldmáltíðin. Kvöldmatur er þá á ákveðnum tíma á hverju kvöldi og mikið umstang (og nöldur) í kringum hann. Þegar maturinn er til er gargað á heimilismenn sem koma misfljótt og veldur það pirringi hjá húsfreyjunni. Svo er tekið til við SAMRÆÐURNAR. Þessar heilögu samræður. Húsfreyjan gengur hringinn og spyr, hvernig var þinn dagur í dag? Og allir verða að svara. Því ef fjölskyldur ræða ekki saman yfir kvöldmatnum þá er það vísbending um það að fjölskylda viðkomandi sé flopp. Og húsráðendur ekki að standa sig. Það er því mikið í húfi.
Ég hef meðfæddan mótþróa gegn svona (og ljóstra þar með upp að ég er ekki alveg svona heilög í friðarumleitan minni eins og ég vil láta). Mér væri enginn friður í huga ef ég þyrfti að standa í svona stappi. En eitt kvöld í síðustu viku þá áttaði ég mig á því, svona óforvarendis, að mínar kvöldmáltíðir eru alltaf indælar án þessa regluverks. Ég kem heim, byrja að elda, ilminn læðir um húsið, legg matinn á borð og allir koma. Einfaldara gæti það ekki verið. Og það sem merkilega er að þau (krakkarnir) tala alltaf á þessum stundum. Í rauninni gerist það að sjálfu sér þegar þrjár manneskjur sitja saman við borð. En það væri líka alveg í lagi mín vegna að sleppa því. Stundum er ég sjálf ekkert sérstaklega ræðin. Og finnst þá best að borða fyrir framan sjónvarpið. Og þá segjum við ekki orð. Bara horfum. Og borðum. Og mér finnst það yndislegt.
Þessi pistill er óður til foreldranna þarna úti sem halda að þeir séu ekki til fyrirmyndar vegna þess að þeir vilja ekki leika sama hlutverkið og meginþorri almennings gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.9.2010 | 21:21
Ég er ekki femínisti.
Og nú skal ég segja ykkur afhverju (í einfaldaðri mynd). Í hvert sinn sem ég tek þátt í umræðum (og það oft ansi heitum) um femínisma eða réttindi og stöðu kvenna almennt, er ég talin vera femínisti. Vegna þess að ég hef áhuga á konum og áhuga á stöðu þeirra í samfélaginu. Fólk hefur reynt að spyrða mig við allskyns afbrigði af femínisma, og stundum eru ismarnir nánast búnir til á staðnum. Og afhverju? Jú vegna þess að femínismi í daglegri umræðu er allt undir sólinni. Nánast allar konur sem láta sig aðrar konur varða eru femínistar af einhverri sortinni.
Í raun getur hvaða kona sem er haldið því fram að eiginkonur eigi að leggjast á bakið fyrir mennina sína, en samt talið sig vera femínista. Ég er bara svona gamaldags femínisti get ég ímyndað mér að slík kona myndi segja.
Sama hvaða mynd fólk dregur upp af femínisma þá er mín skoðun sú að femínismi sé fyrst og fremst pólitísk hugmyndafræði. Líkt og ein fræðikona segir ,,feminism is politics, en það minnir óneitanlega á annan femíniskan frasa ,,the personal is political.
Þessir frasar endurspegla það sem femínistar vita: ef kynjajafnréttið á að vera algert (hvernig svo sem algert er skilgreint) þá þarf meiriháttar stjórnkerfisbreyting að koma til. Og treystið mér þegar ég segi meiriháttar. Til að mynda þyrfti að stokka upp verkaskiptingu heimilanna algjörlega og einnig umbylta öllu umönnunarkerfinu sem okkar nútíma samfélag býr við.
Það sem femínistar vita (en almenningur síður) er að svona uppstokkun krefst endurskoðunar allra laga og reglugerða stjórnkerfisins samhliða endurskoðun á því hvaða áhrif lög og reglugerðir hafa þegar út í samfélagið er komið.
Tökum dæmi. Eins og flestir vita eiga foreldrar af báðum kynjum rétt á 7 veikindadögum vegna barna á ári, þ.e. 14 daga samtals (er þetta ennþá svona?). Ekki í neinni opinberri stofnun á landinu eru þessir dagar taldir (og ekki í mörgum fyrirtækjum heldur, að mér skilst). Foreldrar (lesist: mæður) taka þá veikindadaga sem þeir þurfa. Vegna þessa hefur sú hefð að mæður verji fleiri veikindadögum en feður heima með veikum börnum sínum, verið afar lífseig. Ef markmiðið er t.d. að breyta þessu á innan við hundrað árum (eða 1000) þarf einbeittur vilji stjórnkerfisins að koma til. Að öllum líkindum þyrftu vinnuveitendur þá að telja veikindadaga starfsmanna sinna, líkt og gert er með orlofsdaga, til að hvetja báða foreldra til þess að sinna þessu ummönnunarhlutverki (en ekki einu sinni þetta myndi duga til).
Það er hæpið að þessar breytingar (eða uppstokkanir) myndu gerast af sjálfu sér (þ.e. á innan við 100 árum) vegna þess að sumar mæður hreinlega VILJA vera heima með veikum börnum sínum. Alltaf. Og margir feður hreinlega VILJA EKKI (eða segjast ekki komast frá) vera heima með veikum börnum sínum. Sumsé, stjórnsýslubreyting yrði að koma til.
Sambærileg dæmi og þetta eru mýmörg. Lög og reglugerðir hafa alltof oft önnur áhrif en lagt var af stað með í upphafi. Þar af leiðandi get ég ekki litið á femínisma sem neitt annað en pólitíska hugmyndafræði.
Og það er tími til kominn að reisa þá hugmyndafræði til vegs og virðingar. Sem pólitískan valkost, líkt og vinstri eða hægri stefnur. Vegna þessa hafna ég því alfarið að femínismi sé allt það sem við viljum að hann sé. Að allt undir sólinni falli þar undir. Og það er af virðingu við þessa pólitísku hugmyndafræði að ég skilgreini mig ekki sem femínista.
Femínistar eru yfirleitt úthrópaðir sem aggressífar kerlingar, reiðar, ljótar og púkalegar, og margt fleira sem ég kýs að taka mér ekki í munn (eða í hönd). Sérstaklega ber á þeirri gagnrýni að þær séu svo átakasamar. En ekki hvað?
Gengur pólitík ekki út á átök? Er ágreiningur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki ofsafenginn á köflum? Eru Sjálfstæðismenn taldir vera bitrir og reiðir í því samhengi? (Eða ófullnægðir og fá ekki á broddinn?) Sjáiði Ögmund. Ekki er hann ljúfur sem lamb. Svo mikið er víst.
Ergo= pólitískar hreyfingar eru og verða ætíð átakasamar.
Og þá erum við komin að kjarna málsins. Afhverju er ég ekki femínisti? Ástæðuna er að finna í umfjölluninni hér að ofan. Ég vil ekki gefa eftir minn stað á heimilinu. Mér finnst tilhugsunin um það alveg óbærilega sár. Og ég verð hrædd. Tilhugsunin er eins og fangelsisdómur, sem er öfugt við hugmyndafræði og markmið femínismans. Sama hvað ég reyni að tileinka mér þá hugmynd að í þessu sé frelsi mitt fólgið, þá ber ófrelsistilfinningin mig ofurliði. Mér finnst ég svo frjáls nú þegar.
Það myndi þó aldrei nægja mér að vera bara heima (með mjög ungt barn jú). Ég elska starfið mitt, ég elska að hitta fólk og ég elska andríki og froðusnakk. Og þvert ofan í það sem sumar konur segja, það er EKKI hægt að gera bæði. Það er ekki hægt að njóta fullkomins jafnréttis á við karlmenn OG taka á sig alla eða flesta veikindadaga vegna barna, vetrarfrí í skólum og svo framvegis.
Ég sæki ekki einu sinni um störf sem krefjast þess að maður sé alltaf til taks. Ekki á meðan ég á ungt barn. Og ef ég þarf að þola aðeins lægri laun vegna þessa, þá verður svo að vera. Þetta er mitt val og alfarið mitt. Og ég vil að það val sé virt að verðleikum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2010 | 17:55
Að hata skilyrðislaust...
...er auðveldara en að elska skilyrðislaust. Svo eitt er víst. Fyrir nokkrum árum var ég svo heppin að fá að kynnast 85 ára gömlum bandarískum sálfræðingi, hjónabandsráðgjafa nánar til tekið. Hann er með extra mikið testosterone í sínum vessum, enda sannur Texas búi, sem segir hlutina eins og þeir eru, umbúðalaust. Enda er maðurinn umdeildur. Almáttugur það sem fólk getur hatað hann. Og það finnst honum bara gaman. Hans eftirlætis mottó er people are a mess, so why do you keep getting disappointed? Tough love er hans aðferð, og væluskjóðum gefur hann fokkmerki. Enda skríkti ég úr kátínu þegar ég hitti hann fyrst. Ég réð ekki við blikið í augunum mínum og elti manninn eins og hvolpur út um allt. Ég hefði getað hlustað á hann nótt og dag. Lífsspeki hans virkar ekki fyrir alla, en hún skaust eins og ör beint inn í hjarta mitt. Ég vissi sem var að í orðum hans var frelsi mitt fólgið.
Það þarf bara eina manneskju til þess að gera hjónaband gott. McDondald strækar algjörlega á það búllsjitt að fólk þurfi að vinna í hjónabandinu. Það er fyrst þá sem hjónaböndum fer að hraka. Aldrei, aldrei vinna í hjónabandinu, heldur hann fram. Mér létti stórum við þessi orð, enda er ég í vinnu nú þegar. Og þegar vinnunni sleppir vil ég hafa það náðugt. En ekki vinna meira. Vinnan í sambandinu, segir hann, gerir vandamálin enn meiri en þau eru. Því fleiri klukkustundir sem fara í þessa vinnu, því stærri verður vandinn. Í hnotskurn felst sambandsvinnan í því að annar aðilinn rembist við að breyta hinum sem síðan rembist við að streitast á móti. Hljómar lukkulega, ekki satt. Eina ráðið í svona stöðu, segir McDonald, er að gefa sjálfum sér fokkmerki (jú hann sagði þetta svona) og vinna svo í að breyta sjálfum sér. Ef það gengur ekki, er best að skjóta sig (djók). Það er algjörlega bannað að sætta sig við okkar nánustu, segir hann. Þau eru stórkostleg eins og þau eru. Í sínu algera messi. Um leið og við upplifum að við þurfum að sætta okkur við einhvern í lífi okkar þá eru það skilaboð til okkar sjálfra um að hugarfari okkar sé ábótavant. Ef við trúum því statt og stöðugt að fólkið í lífi okkar sé okkur síðra og að við þurfum (í stórlæti) okkar að sætta okkur við það, þá erum við stödd í miðri sjálfsfróun. Við verðum nefnilega svo göfug þegar við gefum lúðunum okkar second chance, (á meðan við ranghvolfum augunum).
Raunin er sú (segir Texasbúinn) að við erum öll í algeru messi og algeru fokki og ættum því að faðmast og tárfellast í þakklæti yfir því að fólkið sem við elskum er jafn misheppnað og við sjálf.
McDonald frá Texas borðar nautakjöt í morgunmat og fær sér snaps á hverju kvöldi en veit allt um skilyrðislausa ást. Ég hélt reyndar að ég vissi sjálf talsvert um málefnð, eða allt þar til ég hitti hann. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði aldrei elskað neina manneskju (aðra en þá sem eru blóðtengdir mér) skilyrðislaust. Ástin sem ég taldi mig bera í brjósti til annarra var í raun ætíð háð því hversu mikla ást ég taldi mig fá á móti. Svona debet og kredit díll. Debet og kredit ástarsamband væri reyndar ekki svo slæmt ef ástin væri einföld og kæmi t.a.m. í 5 kg sekkjum. Þá væri lítið mál að telja sekkina og jafnvel lána öðrum nokkra þegar vel árar.
Að sögn McDonalds er vandinn hinsvegar sá að ástin sem okkur er gefin er skilgreind af okkur sjálfum. Öfugt við veraldlega hluti líkt og skartgripi eða bíla. Ef einhver gefur okkur bíl, þá fáum við bíl. Okkur finnst hann kannski ekki eins flottur og gjafaranum en bíll er það engu að síður. Ef einhver gefur þér eða mér ást þá er ekki víst að við tökum eftir henni. Í mínum huga er ást ef til vill hlýlegt faðmlag eða hefðbundnar ástarjátningar (I love you er vinsælt) en í þínum huga er það kannski eitthvað allt annað. Til dæmis bara það að koma heim á hverjum degi. Eða í hverri viku. Eða whatever. Og fólk með mismunandi upplifanir á ástarfyrirbærinu fer augljóslega á mis hvert við annað. Og grætur jafnvel úr sér augun í ástarsorg á meðan ástin situr beint fyrir framan það og horfir ráðvillt á (almáttugur hvað ég hef oft upplifað þetta).
Að sögn Texasbúans er skilyrðislaus ást því eina lausnin. Skilyrðislaus ást gerir ekki upp á milli ástar og séra ástar. Þú elskar manneskjuna hvort eð er og getur því tekið á móti hverskonar ást sem er. Verðgildi hennar hefur enga merkingu því átt engan ástar-bankareikning lengur. Debetið og kreditið er því óþarfi.
Frá þessari stundu hefur þetta verið mitt markmið. Að elska skilyrðislaust. Nú eru tvö ár liðin og mér gengur miklu betur. Um tíma hélt ég að ég kæmist aldrei á áfangastað og gafst oft upp (bara svo ég segi ykkur það, erfiðara verkefni hef ég ekki upplifað). En fyrir tiltölulega stuttu fór ég loksins að finna og upplifa breytingar á geðslagi hjartans. Hjartað er orðið langtum stærra en áður en á sama tíma er það einnig hlédrægara. Egóið er reyndar í smá valdabaráttu við hjartvöðvann en tapar orrustunum æ oftar. Ég er nýfarin að implementera þessa hugmyndafræði yfir á önnur svið í lífi mínu, t.a.m. gagnvart vinnufélögum og vinkonum. Og það er ólýsanlega dásamlegt. Þetta er þó ekki smooth sailing alla daga. Ég hrasa oft í þessu ferli og verð þá afbrýðisöm eða öfundsjúk, eða upplifi að það sé verið að brjóta á mér á einhvern hátt. Munurinn er bara sá að núna tekur þetta fljótt af og ég er snögg upp á lappirnar aftur.
Hin ófullkomna og breyska SNJ kveður að sinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2010 | 17:39
Alvara lífsins
Með kveðju,
SNJ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2010 | 12:28
Íslenskt áfengislöggjöf í augum geimvera
Ímyndum okkur að hingað kæmi geimvera, svona óforvarendis. Myndi poppa upp skyndilega á Klambratúni, glaðvær og yfir sig spennt yfir utanlandsferðinni. Fyrsta verk hennar yrði væntanlega það að rölta yfir í næstu vínbúð og kaupa sér Thule. Hún verður svolítið hissa á þessari fallegu umgjörð vínbúðarinnar og spyr verslunarstjórann hvort það sé búið að afsanna að áfengi sé óhollt. Hvort það sé kannski bara hollt?
Nei nei nei, verslunarstjórinn þvertekur fyrir þetta. Áfengi er óhollt og eitt það mesta böl sem hefur hent manninn. Það væri ábyrgðarleysi að vera með aðra afstöðu en þá. Þessvegna, heldur hann áfram, erum við með auglýsingar hérna inni sem ráðleggja fólki að hegða sér sómasamlega þegar það drekkur , það má ekki breytast í svín, og leggjum ríka áherslu á ungt fólk undir tvítugu fái ekki afgreiðslu. Verslunarstjórinn bætir síðan við að undanfarin ár hafa komið fram einstaka frumvarp á alþingi allra landsmanna um að afnema ríkiseinokunina á sölu áfengis og jafnvel færa það yfir til almennra verslana. Sem er bara púra siðleysi! Jahá segir geimveran svolítið ringluð. Afhverju eru þið mótfallin því? Jú það myndi auka neysluna verulega, þá sérstaklega meðal ungs fólks. Sem væri skelfilegt. Bíddu nú við, segir geimveran skeptísk, ég er ekki alveg að ná þessu. Er hið opinbera markvisst að selja almenningi eitur?!
En só long félagi, hef ekki tíma í þetta. Þarf að hundskast af stað.
Þegar heim er komið segir geimveran frá þessu skrýtna landi á þessari skrýtnu plánetu. Hún segir svo: á jörðunni er til stórhættulegt efni, í vökvaformi sem fólk síðan drekkur (og að sögn verslunarstjóra ÁTVR drekkur það svo hömlulaust að það breytist í svín, takk fyrir túkall). Ríkisvaldið vill því sjá um söluna á því sjálft, svona til öryggis í sérstökum búðum. Málið er bara, hvíslar geimveran, að ég kaupi þetta ekki. Ég held þetta sé samsæri. Svakalegasta samsæri síðan Kenndy var ráðinn af dögum. Ef áfengi er svona hættulegt ætti hið opinbera ekki að halda fólki frá því? En óekki. Það eru áfengisbúðir úti um allt, og meiraðsegja mörg útibú úti á landsbyggðinni. Og það sem meira er, það sagði mér maður að fjöldi áfengisverslana hefði tífaldast á síðastliðnum 20 árum og opnunartími þeirra lengst.
Ef þið kæmuð inn í þessar búðir myndu þið strax fá það á tilfinninguna að áfengi væri guðaveigar. Það er selt í fallegustu verslunum landsins. Það eru 2-3 starfsmenn (svona nánast) á hvern viðskiptavin. Þú ert boðinn velkominn um leið og þú stígur þarna inn fæti og gott ef ég fann ekki höfuga reykelsislykt taka fallega á móti mér!
Og það sem meira er, það kemur sjaldan eða aldrei fyrir að alþingismenn og/eða ráðherrar leggi fram frumvarp þess efnis að banna áfengi, þennan heilsuspillandi drykk. Og þarna stendur hnífurinn í kúnni, segir geimveran ábúðarfull. Umræða stjórnmálamanna um skaðsemi áfengis kemur BARA fram þegar einhverjum vesalingi dettur í hug að afnema ríkiseinokunina. Þá verða menn algjörlega galnir og segja að það verði að halda áfengi frá ungu fólki. Að það megi ekki auka aðgengi þeirra að því. Já sæll, það var nefnilega það. Hið opinbera er nefnilega sjálft búið að auka aðgengi allra landsmanna að áfengi undanfarin ár. Þar af leiðandi hallast ég að því, segir geimveran, að hið opinbera sé að blekkja landsmenn og telja þeim trú um að áfengi sé hræðilegt böl bara til þess að geta sjálft séð um söluna. Því í ósköpunum ættu ríkisstofnanir í landi að selja fólki eitur? Það meikar bara engan sens! Og meiraðsegja þó áfengi væri óhollt, er það þá eitthvað minna óhollt í ríkisverslunum eða annars staðar? Er það minna óhollt á laugardögum en á sunnudögum? Er það óhollara í Hagkaupsbúð? Maður spyr sig. Frásögn geimverunnar lokið.
Elsku vinir, er ekki kominn tími til að þroskast upp úr þessari vitleysu? Ímyndum okkur vændi í þessari stöðu. Ímyndum okkur að bæði sala og kaup á vændi væri löglegt, bara svona til þess að ríkið geti haft stjórn á ósómanum. Til þess að draga úr eftirspurninni eftir vændi þá myndi ríkið ekki koma því fyrir á fáförnum dimmum stöðum í ljótum húsum heldur selja það í gríðarlega fallega dísænuðum hýbýlum í Kringlunni, Smáralind og mörgum stöðum úti á landi. Starfsfólkið í mótttökunni væri með sérþekkingu á hverskonar kynlíf gæti hentað við ákveðnar kringumstæður. Ef vændiskaupandi er gamall og þollítill hentar ef til vill ekki spræk tönuð (e. tannin) ung stúlka. Fyrir ungan mann væri slíkur kvenmaður þó kostur. Á aðventunni væri t.d. boðið upp á vandað kristilegt kynlíf fyrir þá sem vilja og bíttar engu hvaða trú menn aðhyllast því allt verður til. Og þar fram eftir götunum. Á þennan hátt , kæru vinir, getur ríkisvaldið komið í veg fyrir það að vændiskaupendur breytist í svín en hvatt þá frekar til að nota það á ábyrjan hátt.
Juliet has left the balcony.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2010 | 23:57
Til allra karlmanna nær og fjær
Almáttugur hvað við konur höfum verið á miklum villigötum í afstöðu okkar til karlmanna. Það hefur smám saman verið að renna upp fyrir mér ljós að þessi bölvaða sýn um riddarann á hvíta hestinum er búin að eyðileggja ástarlíf kvenna (og þá væntanlega karla líka) um langa hríð. AFAR langa hríð.
Vandinn sem helst tengist knapanum á hvíta hestinum (ég hef reyndar aldrei skilið afhverju hesturinn er alltaf hvítur - en sennilega væri ósexý að segja riddarinn á leirljósa hestinum, eða riddarinn á skjótta hestinum) er EKKI fólginn í því sem flestir myndu halda: að riddarinn væri bjargvættur í útópíunni og að bjargvættir væru ekki til. Sem er bull, því bjargvættirnir eru úti um allt. Heimurinn er fullur af karlmönnum sem vilja "bjarga" konum. Vandinn liggur dýpra, miklu dýpra. Á einhvern undarlegan hátt hefur undirmeðvitund kvenna búið svo um hnútana að riddarinn á hvíta hestinum er ekki bara bjargvættur kvenna, heldur er hann rómantískur (samkvæmt mælikvarða kvenna), spilar á hörpu, og er óendanlega fær í að túlka og tjá tilfinningar sínar. Kannski var það Hollywood, kannski voru það mæður okkar (sem stundu í armæðu yfir þessum körlum daginn út og daginn inn), en hver svo sem ástæðan er, þá er hún byggð á sandi.
Konum hefur nefnilega verið talin trú um það að karlmenn geti verið jafn tilfinningansamir og þær. Vissulega eru til slíkir menn (samkvæmt öruggum heimildum eru þeir ljóðskáld og óstabílir rithöfundar), þó fáir séu. Og vissulega reyna margir óheiðarlegir menn við þetta hlutverk, rembast við að temja sér einhvern fagurgala sem þeir vita að konur heillast af. Sem þær og gera. Og verða að sjálfsögðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar hið "sanna" kemur í ljós.
Eitt dæmi. Fyrrverandi sambýlismaður (og einn af mínum bestu vinum í dag) er hefðbundinn, íslenskur karlmaður sem sagði ekki "I love you" á réttum tímapunktum. Mér er sérstaklega minnistætt hvað hann iðulega gerði þegar sambandið átti í erfiðleikum. Hann dró sig stundum inn í skel sína (sem ég túlkaði alltaf þannig að honum stæði á sama um mig) og vakti það alltaf með mér ákveðna sorg. Þegar hann áttaði sig á því hvernig í pottinn væri búið, samdi hann ekki handa mér ljóð né féll á kné á fótboltaleikvangi og gólaði ást sína. Ónei. Það sem hann gerði alltaf var að draga mig út í garð, eða upp á loft, og tíunda hvað hann langaði til þess að gera fyrir heimilið. Þá vildi hann æstur draga mig út í Húsasmiðju og kaupa girðingarefni eða málningu fyrir heimilisverkin. Ég stóð alltaf algjörlega gáttuð og fannst þessi maður gjörsamlega út úr kortinu. Er maðurinn galinn? Hugsaði ég með mér. Áttar hann sig ekki á því að sambandið stendur höllum fæti? Uuu, jú. Hann gerði það. Í dag átta ég mig á því að áhersla hans á viðhald heimilisins á þessum tímum, var hans ástarjátning til mín. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja til þess að láta mér líða betur. Þess í stað vildi hann sýna mér fram á að það væri alls ekkert fararsnið á honum, heldur vildi hann ólmur stuðla að því að ég lifði góðu lífi á heimilinu, með girðingu og nýmáluðum veggjum. Við skildum nú samt (ekki út af þessu þó) sem var okkur fyrir bestu enda erum við afar góðir vinir í dag. En seinna rann upp fyrir mér ljós. Alvöru karlmenn, sem þykjast ekki vera annað en þeir eru, eru klaufskir í því að játa ást sína eða gera eitthvað textbókarlega rómantískt. Í staðinn játa þeir ást sína á annan hátt, til dæmis með því að gera eitthvað fyrir konurnar sínar. Eitthvað praktískt.
Ég hef að minnsta kosti lært að meta karlmenn út frá því sem þeir eru. Og því sem þeir eru færir um. Og ef við myndum opna augun þá myndum við taka eftir og læra að meta allar ástarjátningarnar sem þeir tjá á hverjum degi, með sínum hætti.
Í dag forðast ég menn með fagurgala. Ég tæki karlmann með "tilfinningablokk" mörgum sinnum fram yfir hinn aulann, sem notar fagurgala til þess að breiða yfir það hvað hann er glataður. Riddarinn er því ennþá til, en hann er ærið hrjúfur.
Amen.
SNJ
Bloggar | Breytt 6.2.2010 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2010 | 17:59
Kvennamagasínið
Kona sem ég met mikils talar oft og mikið um kvennamagasínið. En það vísar sumsé í hið óáþreifanlega kvennabandalag sem liggur þvert á stétt og stöðu, pólitík, tíma og rúm. Það sem einkennir kvennamagasínið er umvöndun. Það þarf að vanda um fyrir börnum, það þarf að vanda um fyrir körlum og það þarf að vanda um fyrir konum sem stíga út af breiða kvennabandalagsveginum.
Konurnar viðhalda samstöðunni á milli sín í saumaklúbbum, á vinnustöðum, í íþróttafélögunum (sem umhyggjusamar mæður) í foreldrafélögum grunnskólanna og í nágrannavörslunni. Þessar konur horfa í kringum sig fránum augum og leita að misfellum í heimsmyndinni. Af sínum alkunna metnaði hafa þessar konur lagt sérstaka áherslu á karlmenn í umvöndun sinni. Karlmenn eru jú vitlausir, kunna fátt, drekka óhóflega, klæða börnin í skammarleg föt (vissuð þið ekki af þessu dress kódi fyrir ungabörn?) og vilja bara liggja útaf, horfa á fótbolta og ropa.
Skýrt dæmi um þetta eru allir gamanþættirnir. Mömmurnar eru sætar en yfirmáta stjórnsamar og mennirnir barnalegir fávitar sem reyna að brjótast undan ægivaldi eiginkvennanna en mistekst alltaf. Þetta á ekki bara við um bandaríska þætti. Danski gamanþátturinn Klovn ber eiginlega höfuð og herðar yfir þá bandarísku. Vesalings mennirnir þar, Frank og Casper (eða var það Jasper?) búa nánast við ofríki á heimilum sínum. Frank þarf að byggja fuglahús í garðinum til þess að fela áfengisflöskuna í, dröslast með frúnni í búðir (hvaða masókismi er það að draga karlmann með sér í búðir?! Frekar kysi ég vinkonu til þess!) og þykjast vera félagsleg mannvitsbrekka. Enda lendir hann í vanda í hverjum einasta þætti og oftar en ekki endar þetta þannig að Mia og einhverjir nágrannar eða fjölskyldumeðlimir standa úti á götu og skammast í Frank sem horfir niðurlútur niður fyrir sig og borar tánum í sandinn.
Áðan var ég að horfa á Monster in law með sautján ára gamalli dóttur minni (afar leiðinleg mynd reyndar en það er önnur saga). Í myndinni er fjallað um þessa gamalkunnu baráttu tengdamóður og tengdadóttur. Og um hvað eru þær að berjast? Jú, eiginmanninn/soninn. Unnustunni í myndinni finnst tengdamamman hringja of oft í soninn. Tengdamömmunni verðandi finnst unnusta sonarins ekki vera honum samboðin. Og því heyja þær stríð, án þess að hafa nokkurn áhuga á því að vita hvað veslings manninum fynndist um þetta. Eftir eina og hálfa klukkustund af þessum ófögnuði lýkur myndinni á hjartnæman hátt þar sem tengdamóðirin lætur vopnin síga og samþykkir með semingi skilmála unnustunnar. Einn skilmálanna var til dæmis sá að móðirin fengi bara að hringja í soninn einu sinni á dag. Var sonurinn spurður álits? Aldeilis ekki. Það sem hrelldi mig þó var ekki endilega endirinn heldur viðbrögð dótturinnar. Hún fékk tár í augun, sagði aawww og talaði fjálglega um umburðarlyndi og fyrirgefningu tengdadótturinnar. Ég spurði hana hvað henni hefði þótt svona sætt og krúttlegt og hún sagði að það væri sá kærleikur tengdadótturinnar að leyfa tengdó að hringja í son sinn einu sinni á dag. Jahá. Það var nefnilega það. Ég spurði dótturina að sjálfsögðu afhverju það væri ekki mál sonarins hversu oft hann talaði við móður sína. Hún sagði að það væri vegna þess að konur eru svo frekar! Haha, ég fékk hláturskast.
Kvennamagasínið leitast við að viðhalda sjálfu sér. Femin.is er ein slík viðleitni. Saumaklúbbar önnur. Á þessum vettvangi endurnýjar kvennamagasínið krafta sína. Konur eiga að vera uppteknar af a) útlitinu og b) uppeldi karla.
En það sem er athyglisverðast við þetta er tvískinnungurinn. Á sama tíma og kvennamagasínið leggur áherslu á að konur séu hefðbundnar þá eru ströng viðurlög við því að hugsa "of vel" um karla. Ég áttaði mig á þessu fyrir lifandis löngu. Í BA náminu leigði ég íbúð með vinkonu minni elskulegri. Við hlúðum afar vel að hvor annarri. Í nokkur skipti kom hún seint heim en mætti beint í mat sem ég hafði haldið heitum fyrir hana. Allar vinkonur okkar héðan og þaðan urðu mállausar af hrifningu þegar þær heyrðu af þessu. Bravó fyrir SNJ. Að vera svona góð við vinkonu sína. Og ég fékk vitrun. Á meðan það er virðingarvert að hlúa að vinkonu sinni, eða annarri konu, er BANNAÐ að hlúa að karlmönnum (reyndar er umhyggjan kölluð dekur þegar karlmenn eiga í hlut). Þetta fannst mér afar merkilegt.
Stuttu seinna giftist ég þáverandi eiginmanni. Og ég hélt uppteknum hætti. Ég hugsaði vel um hann og hann hugsaði vel um mig. Þar sem hann vann langa vinnudaga var ég búin að elda áður en ég fór eitthvert á kvöldin og beið maturinn tilbúinn. Nákvæmlega sömu aðstæður og áður nema hvað að í þetta skiptið fékk ekki hrós og æi og awww frá kynsystrum mínum. Nema síður sé. Sumar höfðu reyndar áhyggjur af þessu og óttuðust helst að eiginmaðurinn gæti vanist þessu. Og það, að sjálfsögðu, væri ekki gott.
Ég er orðin leið á þessu. Mér finnast konur leiðinlegar við karlmenn. Og ég held það sé kominn til að konur hætti að vanda um fyrir karlmönnum og fari að lifa eigin lífi.
Over and out
snj
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2010 | 05:12
Rokkuð nótt
....ég er semsagt enn vakandi (klukkan er hálf fimm að morgni) og enn myrkfælin en í staðinn fyrir að sofa þá hlusta ég á háværa rokktónlist á meðan ég vinn (blogg er vinna, er það ekki?). Enda er ég komin í banastuð!
Merkilegt hvað næturnar eru ólíkar deginum. Í rauninni er enginn de facto munur, sólin sest til viðar og tunglið kemur fram. Samt upplifi ég lífið allt öðruvísi á næturnar. Yfirleitt þoli ég ekki að vera vakandi á meðan aðrir sofa. Áleitnar hugsanir sækja að mér eins og blóðsugur, hugsanir sem auðvelt er að forðast á daginn. Á næturnar er engin undankomuleið. Borgin sefur, fésbókin sefur, sjónvarpið sefur en ég ligg vakandi í hugsanafangelsi.
Hugsanir um framtíðina bögga mig dálítið núna. Ég rembist eins og rjúpan við staurinn (ég hef aldrei botnað neitt í þessu máltaki. Rjúpa og staur??) við að draga upp mynd af því hvar ég vil vera eftir eitt ár, eða fimm ár, o.s.frv. Og vitiði hvað? Mér dettur ekkert í hug. Er algjörlega blankó. Lífið þokast bara áfram og ég með. Enda leiðist mér að planleggja. En hverskonar markmið getur maður sett sér? Ég reyki ekki (og get því ekki hætt að reykja, sem er synd því þetta er rosalega djúsí markmið og fólk fær svo mikla athygli þegar það hættir), ég hreyfi mig mjög reglulega og get því ekki byrjað á því núna og í ofanálag er kreppa í landinu. Er hægt að plana eitthvað í svoleiðis ástandi?
Þegar ég lít yfir farinn veg þá sé ég mjög greinilega að hef aldrei planað neitt og aldrei sett mér markmið. Þegar mig langaði í skóla þá fór ég í skóla. Ég sat ekki nokkrum árum fyrr og planlagði námið. Og ástarsamböndin hafa bara komið. Ég hef aldrei sett mér markmið í ástarmálunum, ég veit að sumir setja sér einhverskonar vörður (börnin eiga að koma eftir 3 ár - brúðkaupið 5 ár) en guð hvað mér finnst þetta óspennandi. Eiginlega bara lúðalegt,
þannig að mig vantar markmið. ef einhver á aukamarkmið sem hann þarf ekki að nota þá þætti mér vænt um að fá það til eignar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2010 | 18:36
Ástir kynjanna, myrkfælni og draugagangur
....já ég veit. Ansi dramatískur titill hér. Vísar til þess að ég er ein í myrkri íbúð og er myrkfælin með afbrigðum. Kvíði fyrir því að fara að sofa en tel í mig kjarkinn með því að blogga um uppáhaldsefnið mitt: samskipti karla og kvenna.
Minn yndislegi Hómer (áttræður bandarískur sálfræðingur) sagði einu sinni að konur þyrftu svolítið að sleppa "zero- tolerance" aðferðinni í glímunni við eiginmennina og taka upp svonefnda "harm-reduction" aðferð. Báðar þessar aðferðir (eða hugtök öllu heldur) hafa mikla þýðingu í afbrotafræðinni og vísa þá til þess að í staðinn fyrir það að reyna að útrýma athæfi sem er og verður alltaf til er skynsamlegra að draga úr meiðandi áhrifum þess (þ.e. athæfisins). Skýrasta dæmið um þetta er hin gamalkunna barátta Bandaríkjamanna gegnum eiturlyfjum og eiturlyfjaneyslu. Mig minnir að það hafi verið Ronald Reagan sem skar upp herör gegn eiturlyfjum og sendi úr hlaði hið svokallaða "war on drugs." Einkunnarorð þessa stríðs voru zero tolerance. Refsað var grimmilega fyrir alla neyslu og sölu á eiturlyfjum, fíklum hent út úr skýlum og athvörfum og helst komið fyrir í fangelsi.
Þessi aðferð varð mjög umdeild og vildu margir meina (og vilja enn) að afleiðingar eiturlyfjavandans yrðu umfangsmeiri í kjölfarið. Sagt var að harm reduction væri langtum gagnlegri en dæmi um slíka aðferð er t.d. þegar félagsráðgjafar útdeildu hreinum nálum meðal fíkla til þess að draga úr sjúkdómum (þá sérstaklega alnæmi) en dauðveikir fíklar eru samfélaginu dýrari en aðrir fíklar.
Hómer sálfræðingur vill meina að þessi harm reduction aðferð í hjónaböndum (og samskiptum kynjanna yfirhöfuð) sé eina leiðin til þess að efla og auka hamingju fólks í hjónaböndum. Sem dæmi um þetta þá benti hann mér á að í staðinn fyrir það að verða alltaf fyrir svo miklum vonbrigðum þegar þáverandi eiginmaður gleymdi afmælisdögum og brúðkaupsafmælisdögum væri að minna eiginmanninn á merkisdagana, deginum áður. Mín fyrstu viðbrögð voru sjokk. Er maðurinn galinn? Á ég semsagt að viðurkenna og sætta mig við það að manngarmurinn nennir ekki að leggja á sig að muna eftir þessum dögum? Svar Hómers var á þá leið að maðurinn væri ekki að gleyma þessu að gamni sínu (refsingin við gleymskunni er svo rosaleg að enginn maður nema masókisti gengi viljandi í þá gryfju) heldur væri þetta eitthvað sem karlar ættu mjög erfitt með að muna yfirhöfuð. Hann sagði jafnframt að karlar væru ekki víraðir til svona hluta og því þurfa mennirnir sem muna eftir þessu að leggja á sig mikla vinnu til þess.
Lokapunktur Hómers var síðan sá að ef konur myndu sjálfar taka að sér að minna mennina sína á þetta þá þyrftu þær ekki að ganga í gegnum þessi kvalafullu vonbrigði ár eftir ár. Þetta sat í mér. Daginn fyrir næsta afmælisdag minn setti ég svona gulan post it miða á tösku eiginmannsins þar sem stóð að konan hans ætti afmæli daginn eftir. Og þetta varð besti afmælisdagurinn í mínu lífi. Maðurinn varð svo þakklátur þessu að hann fór algjörlega framúr sér í afmælisfjöri og ástin blómstraði sem aldrei fyrr. Núna myndi ég aldrei gera annað. Og ég myndi jafnvel ganga svo langt að hringja í manninn (eða hnippa í hann) á sjálfum afmælisdeginum til þess að minna hann á mig. Allt gert til þess að útiloka hin hræðilegu vonbrigði. Enda er það á okkar ábyrgð er það ekki? Ef ég vil fá afmælisóskir og afmælisfjör er þá ekki eðlilegra að ég sækist eftir því sjálf? Segi bara: halló hér er ég, og gefðu mér nú svaka knús!
En það er engin ástæða til þess að stöðva þarna. Konan sem upplifir það að karlinn hennar veiti henni ekki nægjanlega athygli ætti frekar að ganga að honum og segja brosandi að hún þrái faðmlag og smá kelerí heldur en að skella hurðum og fara í fýlu. Konan sem á erfitt með að skemmta sér með manninum sínum ætti að stinga upp á því að þau myndu skemmta sér oftar í sitthvoru lagi, svona í stað þess að tuða um þetta ár eftir ár.
Konan sem kvartar yfir því að maðurinn hennar sé svo utan við sig og annars hugar þegar hann kemur heim úr vinnu (hvaða kona þekkir þetta ekki?) ætti að hvetja manninn til þess að byrja á því að slappa af og fara í tölvuna um leið og hann kemur heim í ca. hálftíma eða svo, en koma svo til hennar með fulla athygli.
Þetta finnst mörgum konum fáránlegt. Sumar segja að þessar aðferðir eru of karllægar og snúast of mikið um hamingju karlanna. Hómer hinsvegar, benti á hið gagnstæða. Hann segir að þetta sé einmitt fyrir konurnar. Þær verða hamingjusamari og verða sjaldnar fyrir vonbrigðum en ella.
Almáttugur hvað ég er fylgjandi þessu. Líf mitt og margra kvenna í samböndum er búið að vera ein vonbrigðaganga. Við eyðum mörgum dögum samtals á ári í að ræða þetta við vinkonurnar, hugsa þetta með okkur sjálfum, rífast við mennina í huganum. Ég er búin að ákveða að segja stopp. Nú ætla ég að njóta karlmannanna í lífi mínu í stað þess að liggja í kör.
með friði og ást kveð ég í dag.
Bloggar | Breytt 14.1.2010 kl. 05:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)